Í grein í Fréttablaðinu 30. desember fordæmir Eiríkur Sigurðsson almannasamtök í Hveragerði og víðar fyrir andstöðu við leyfi sem Orf Líftækni var veitt til ræktunar á erfðabreyttu lyfjabyggi í gróðurhúsum á svæðinu. Leyfið var veitt til afmarkaðrar notkunar sem á mannamáli merkir að tryggt skuli að umhverfið geti ekki mengast af völdum hinna erfðabreyttu plantna sem í húsunum eru ræktaðar. Það felur í sér að fyrirbyggja verði að fræ og aðrir plöntuhlutar berist út fyrir húsin, ekki megi flytja jarðveg mengaðan erfðabreyttum efnum út í umhverfið, frárennsli húsanna innihaldi ekki erfðabreytt efni og að starfsmenn, vélar og flutningatæki beri ekki erfðabreytt efni út í umhverfið.

Leyfi sem Orf hefur fengið til afmarkaðrar notkunar erfðabreyttra lífvera er ræktun í gróðurhúsum í Grindavík, á Kleppjárnsreykjum, í Barra á Héraði og á Reykjum í Ölfusi. Húsin og umbúnaður þeirra eru hlaðin áhættupunktum - t.d. varðandi frárennsli og flutninga og sum eru jafnvel ekki með föst gólf - sem geta gefið færi á mengun umhverfis af völdum erfðabreyttra lífvera í gegnum jarðveg og vatn.

Lög kveða á um að þeir sem hafa leyfi til að meðhöndla erfðabreyttar lífverur skuli bæta fyrir tjón sem slík starfsemi kann að valda á umhverfi. En sá sem leyfin veitir, þ.e. Umhverfisstofnun, hefur ekki skipulegt eftirlit með ræktunarstöðum til að kanna með prófunum hvort mengun af völdum erfðabreyttra lífvera hafi átt sér stað. Hveragerði og nágrenni er þéttbýlt svæði og lífræn ræktun og annar landbúnaður gegna mikilvægu hlutverki í efnahag og umhverfisímynd byggðarinnar. Úr því að mengun jarðvegs og vatns mundi hafa áhrif á landbúnað og jafnvel á heilsufar manna og dýra, er þá ekki rík ástæða fyrir íbúa Hveragerðis að hafa áhyggjur af því að þær erfðabreyttu plöntur sem mest áhætta stafar af (lyfjaplöntur) verði ræktaðar á mörkum bæjarins?

Orf hefur ítrekað fullyrt að erfðabreytt lyfjabygg þeirra sé „öruggt“ án þess að færa sönnur á það. Svonefnt áhættumat Orf og leyfi þess frá Umhverfisstofnun til úti- og inniræktunar á bygginu á hinum ýmsu stöðum hafa greinilega ekki falið í sér prófanir og greiningu á erfðabreyttum lífverum og erfðabreyttum efnum í jarðvegi og vatni. Dýratilraunir hafa ekki verið gerðar til að kanna hugsanleg langtímaáhrif byggsins á heilsufar manna, dýra, fiska og vatnalífs. Meðan það hefur ekki verið gert er ekkert hægt að fullyrða um öryggi lyfjabyggsins.

Bandarísku vísindasamtökin Union of Concerned Scientists benda á að „erfðabreyttar lyfjaplöntur kunna að hafa eðlis- og efnafræðilega eiginleika sem gætu styrkt tilvistarmöguleika þeirra í náttúrunni eða stuðlað að uppsöfnun þeirra í lífverum, sem verulega eykur möguleika þeirra til að menga vistkerfi og þar með að komast inn í fæðukeðju manna og dýra.“ Bandaríkin hafa sakir lélegs regluverks orðið fyrir dýrri og hættulegri mengun matvæla af völdum erfðabreyttra lyfjaplantna. Nýverið lagði fulltrúadeildarþingmaðurinn Dennis Kucinich fram frumvarp til laga um bann við útiræktun erfðabreyttra lyfja- og iðnaðarplantna í Bandaríkjunum, sem einnig gerir ráð fyrir rekjanleikakerfi til að tryggja betur öryggi og eftirlit. Hvers vegna endurtaka íslensk stjórnvöld mistök Bandaríkjanna í stað þess að læra af þeim?

Hættan á mengun jarðvegs og vatns af völdum erfðabreyttra lyfjaplantna er raunveruleg - eins og sjá má af reynslunni af ræktun erfðabreyttra Bt-matvælaplantna. Báðum er erfðabreytt til að þær innihaldi prótein sem kunna að vera skaðleg fyrir heilsufar. Bt-plöntur innihalda Bt-eitur sem drepur skordýr sem sækja í þær. Erfðabreyttar lyfjaplöntur innihalda prótein til nota m.a. í lyfjarannsóknum.

Reynslan af ræktun Bt-plantna er viðvörun. Í rannsókn kanadíska umhverfisráðuneytisins (2008) fannst cry1Ab-genið úr Bt-maísplöntum í seti, jarðvegi og vatni í allt að 82ja km fjarlægð frá ræktunarstað. Í rannsókn bandarísku vísindaakademíunnar (2010) kom fram að erfðabreyttur maís með Bt-eitri hafi mengað ár vítt um miðvesturríkin. Vísindin sýna að Bt-eitur getur borist úr rótum erfðabreyttra Bt-plantna í jarðveg (Saxena ofl. 2002) og að Bt-plöntuleifar í jarðvegi innihalda virkt Bt-eitur (Flores ofl. 2005; Stotzky ofl. 2004; Zwahlen ofl. 2003). Ekki er að undra að í kanadískri rannsókn fannst þetta sama Bt-eitur í blóði þungaðra kvenna og fóstra þeirra (Aris & Leblanc 2011).

Af þessu má draga skýra ályktun: Erfðabreyttar lyfjaplöntur sem ræktaðar eru utandyra - eða í gróðurhúsum sem ekki tryggja fullkomna afmörkun - kunna að berast í fæðukeðju og dýrafóður í gegnum jarðveg og vatn.

Ljósmynd: Ræktun errfðabreytts byggs hafin í einu hólfi tilraunagróðurhúss LBHÍ að Reykjum í Ölfusi, við Hveragerði. Myndin er tekin þ. 27. des. sl. af Guðrúnu A. Tryggvadóttur.

Birt:
6. janúar 2012
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Sandra B. Jónsdóttir „Erfðabreyttar lyfjaplöntur - í Hveragerði? “, Náttúran.is: 6. janúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/06/erfdabreyttar-lyfjaplontur-i-hveragerdi/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: