Af umhverfisáhrifum jarðhitavirkjana
Jarðhitavirkjanir eru að miklu leyti sambærilegar við námavinnslu. Jarðhitavatninu er dælt í miklu magni upp úr jarðhitageyminum, og þannig er sú náttúrulega hringrás sem til staðar er gerð miklu hraðari en hún hefði verið án virkjunar. Jarðhitageymirinn endurnýjast ekki, nema að affallsvatni sé dælt aftur ofan í jarðhitageyminn, en slíkt er gert í tilraunaskyni og enn nokkuð óljóst hve mikið skilar sér aftur inn í hringrás vatnsins við slíkar niðurdælingar sem vonandi munu þó ganga betur eftir því sem aukin reynsla fæst.
Affallsvatn frá jarðhita getur innihaldið ýmsa snefilmálma, eins og kadmíum, kopar og einnig eru í jarðhitavatni efni eins og kvikasilfur og arsen. Efni þessi geta verið bundin lífrænum efnum en þau geta einnig verið óbundin og er mismunandi hvort málmarnir eru á því formi sem fer inn í lífverur eða hvort þeir eru óvirkir.
Íslensk vötn eins og t.d. Þingvallavatn eru ólígótrófísk þ.e. þau eru tær og innihalda lítið magn lífrænna efna. Íslensk vötn eru því viðkvæmari fyrir jarðhitamengun heldur en vötn víða annarsstaðar í heiminum, þ.e. lítið er af lífrænum efnum sem gætu gert málma eins og kadmíum og kopar óskaðlega.
Annað er mjög athyglisvert, og hefur nánast ekkert verið rætt hér á landi, og það er að sökum tærleika íslenskra vatna, eru þau afskaplega viðkvæm gagnvart sólarljósi og útfjólublárri geislun frá sólu. Af hverju er ég að nefna þetta? Jú vegna þess að þetta þýðir að íslensk stöðuvötn eru viðkvæm gagnvart þynningu ósonlagsins, þ.e. geislar sólar komast langt ofan í vötnin. Þessu hafa menn almennt lítið pælt í hérlendis, að ég held.
Kvikasilfur er e.t.v. það efni í jarðhitagufum og jarðhitavatni sem er hvað skaðlegast, en það skiptir þó máli á hvaða formi það er. Kvikasilfursgufur eru ekki hollar, enda urðu hattagerðarmenn í Lundúnum sem notuðu kvikasilfur “mad as a hatter”, eins og Englendingar segja en vitað er að kvikasilfur hefur áhrif á miðtaugakerfi bæði hjá mönnum og dýrum.
Mér þykir sorglegt að segja það, en það kemur eflaust að því að við þurfum að framkvæma mun meiri mengunarmælingar í íslenskri náttúru en þurft hefur til þessa. Virkjanir og verksmiðjur og ýmis starfsemi veldur mengun, og það er ekki bara svartur reykur sem er mengandi, – oft eru efnin ósýnileg og falin í náttúrunni.
Mengun er þessvegna oft ekki sýnileg berum augum, en sem betur fer hefur umhverfisefnafræðin þróað ýmsar aðferðir til að mæla mengun og rekja hana til uppruna síns, svo og til að meta skaðsemi mengunar. Mikilvægt er að muna að efnafræðin stjórnast ekki af samfélaginu, efni og efnasambönd fara að náttúrulögmálum, og þessvegna verðum við sem samfélag að taka tillit til þessa.
Góðar stundir.
Ljósmynd: Heillisheiðarvirkjun, ©Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Af umhverfisáhrifum jarðhitavirkjana“, Náttúran.is: 5. janúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/05/af-umhverfisahrifum-jardhitavirkjana/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.