Leggja til friðun á fimm tegundum svartfugla næstu fimm árin
Starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra skipaði í september sl. um verndun og endurreisn svartfuglastofna leggur m.a. til að fimm tegundir sjófugla af svartfuglaætt verði friðaðar fyrir öllum veiðum og nýtingu næstu fimm árin. Þetta kemur fram í skýrslu sem hópurinn hefur skilað af sér og umhverfisráðherra kynnti í ríkisstjórn í morgun.
Starfshópnum var falið að gera tillögur um aukna verndun svartfugla og aðgerðir sem stuðlað geti að endurreisn stofnanna, þ.m.t. um eggjatínslu. Fjallaði hann um fimm tegundir sjófugla af ætt svartfugla, þ.e. álku, langvíu, stuttnefju, lunda og teistu. Í skýrslu sinni leggur starfshópurinn áherslu á að hér við land sé einn stofn af hverri þessara tegunda þannig að staðbundin áhrif og breytingar hafa áhrif á um allt land og á viðkomandi stofn hér við land.
Mælingar sýna að árleg fækkun álku er um 20%, fækkun langvíu um 7% á ári og stuttnefju um 24%. Viðvarandi viðkomubrestur hefur verið hjá um 75% af lundastofninum í nokkur ár og algjört hrun var í varpi hans árið 2011 nema á Norðurlandi hjá um 20% af stofninum, þar sem varp var viðunandi.
Starfshópurinn telur helstu orsakir hnignunar stofnanna vera fæðuskort en telur að tímabundið bann við veiðum og nýtingu muni flýta fyrir endurreisn þeirra.
Meðal þess sem starfshópurinn leggur til er:
- að þessar fimm tegundir verið friðaðar fyrir öllum veiðum og nýtingu næstu fimm árin og að sá tími verði nýttur til þess að afla betri upplýsinga um tegundirnar og stofnbreytingar, með vöktun og rannsóknum, til þess að bæta megi verndun og sjálfbæra nýtingu þeirra og endurmeta ástandið þegar þessu friðunartímabili ljúki,
- að breytingar verði gerðar á veiðikortakerfinu m.a. þannig að veiðikort þurfi til allrar nýtingar villtra fugla, m.a. eggjatínslu,
- að veiðiskýrslur verði endurbættar þannig að ítarlegri upplýsingar fáist um eðli og umfang nýtingar, nýtingartíma og aðferðir við nýtingu þannig að betur megi meta áhrif nýtingar á mismunandi tegundir fugla,
- að gripið verði til almennra friðunaraðgerða, fræðsla og kynning verði aukin,
- að bann við skotveiðum við fuglabjörg verði fært úr 500 metra í 2.000 metra fjarlægð frá björgunum,
- að umhverfisráðherra taki upp samstarf við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að draga úr fugladauða við fiskveiðar, betri skráningu meðafla og framkvæmd á bann við sölu fugls sem ferst í fiskveiðarfærum.
Á fundi sínum í morgun samþykkti ríkisstjórnin að umhverfisráðherra undirbúi frumvarp til breytinga á lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum á þann veg að umhverfisráðherra verði framvegis heimilt að setja í reglugerð ákvæði um stjórnun hlunnindanýtingar. Slík lagabreyting er nauðsynleg forsenda þess að hægt verði að friða umræddar sjófuglategundir fyrir veiðum með það að markmiði að endurreisa viðkomandi stofna og treysta sjálfbæra nýtingu þeirra.
Starfshópurinn var skipaður fulltrúum umhverfisráðuneytisins, Náttúrufræðistofnunar, Umhverfisstofnunar, Bændasamtaka Íslands, Skotveiðifélags Íslands og Fuglaverndar auk formanns nefndar um endurskoðun laga nr. 64/1994.
Skotvís og Umhverfisstofnun skiluðu séráliti um friðun álku, langvíu og stuttnefju um takmörkun á veiði þeirra næstu fimm árin í stað algjörrar friðunar. Fulltrúi Bændasamtaka Íslands sagði sig frá tillögum starfshópsins eftir að tillögurnar voru frágengnar í hópnum og stendur því ekki að þeim.
Skýrsla starfshóps um verndun og endurreisn svartfuglastofna
Ljósmynd: Lundi, Jóhann Óli Hilmarsson.
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Leggja til friðun á fimm tegundum svartfugla næstu fimm árin“, Náttúran.is: Jan. 3, 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/03/leggja-til-fridun-fimm-tegundum-svartfugla-naestu-/ [Skoðað:Sept. 12, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.