Gleðidagur: Nú fæ ég loks að vita það!
Í gær tók loksins gildi Reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs, þ.e.a.s. hvað matvælin varðar. Upphaflega átti reglugerðin öll að taka gildi 1. september sl., en þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frestaði gildistöku matvælahlutans á síðustu stundu fram til 1. janúar 2012, að því er virðist vegna þrýstings frá Jóni Geraldi Sullenberger, eiganda matvöruverslunarinnar Kosts og einhverjum fleiri innflytjendum og seljendum matvæla frá Bandaríkjunum.
Upplýsingar en ekki boð og bönn!
Ég held að einhverjir hafi misskilið þýðingu umræddrar reglugerðar. Málið snýst alls ekki um að banna sölu á erfðabreyttum matvælum, heldur aðeins um að upplýsa neytendur um það hvort tiltekin matvæli innihaldi erfðabreytt efni. Málið er því réttlætismál fyrir neytendur, hvort sem þeir vilja erfðabreytt á diskinn sinn eða ekki.
Íslendingar ekki lengur eftirbátar annarra Evrópuþjóða
Með gildistöku reglugerðarinnar hafa íslenskir neytendur loksins öðlast sama rétt og neytendur í öðrum löndum Evrópu hvað merkingar og rekjanleika erfðabreyttra matvæla varðar. M.a. þess vegna finnst mér gærdagurinn gleðidagur!!!
En samt finn ég engar merkingar
Það veldur mér reyndar pínulitlum áhyggjum að í könnunarferð í Nettó í Borgarnesi í dag fann ég ekki eina einustu matvöru sem innihélt erfðabreytt efni, svo séð væri. Þetta getur átt sér þrjár mismunandi skýringar:
- Matvörurnar sem ég skoðaði voru raunverulega allar lausar við erfðabreytt efni.
- Framleiðendur og seljendur hafa svikist um að merkja vörurnar.
- Gildistöku reglugerðarinnar hefur verið frestað aftur án þess að ég tæki eftir því.
Ég þykist nú þegar hafa útilokað þriðju og síðustu skýringuna með því að fletta í gegnum allar reglugerðir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins síðustu mánuði og til dagsins í dag. Hinar tvær þykja mér báðar ósennilegar. Ég veit með öðrum orðum ekki alveg hvað er hér á seyði.
Hvað getum við gert?
Neytendur sem hafa rökstuddan grun um að matvæli sem ekki eru merkt samkvæmt framanskráðu innihaldi engu að síður erfðabreytt efni, ættu að biðja framleiðendur eða seljendur að að leggja fram gögn sem staðfesta fjarvist slíkra efna, í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Væntanlega geta heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunnar liðsinnt fólki hvað þetta varðar, en þessar stofnanir fara með eftirlit með því að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.
Meira lesefni af bloggsíðu Stefáns Gíslasonar:
- Bloggpistillinn Á morgun fæ ég að vita það 31. ágúst 2011
- Bloggpistillinn Ísland er land þitt 1. september 2011
(Í þessum pistlum eru m.a. tenglar á umræddar reglugerðir)
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Gleðidagur: Nú fæ ég loks að vita það!“, Náttúran.is: 3. janúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/03/gledidagur-nu-fae-eg-loks-ad-vita-thad/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.