VOR - Verndun og ræktun, félag framleiðenda í lífrænum búskap, hefur sent rektor Landbúnaðarháskóla Íslands bréf og mótmælt harðlega þeirri ákvörðun skólans að leigja út  sérbyggt gróðurhús sitt að Reykjum í Ölfusi til starfsemi óskyldri garðyrkju og matvælaframleiðslu, en skólinn hyggst leigja húsið út til Orf Líftækni sem ætlar að rækta þar erfðabreyttar plöntur í þágu snyrtivöruiðnaðarins. Umrætt gróðurhús var reist árið 2001 og ætlað til rannsókna og þróunarstarfs fyrir garðyrkjubændur.   

Í bréfinu til rektors eru auk þess hörmuð tiltekin ummæli og greinarskrif starfsmanna LBHÍ undanfarið,  en þau gefa til kynna, að mati VORs, fádæma  vanþekkingu og vanþóknun á lífrænum búskaparháttum.  Þá vekur VOR ennfremur athygli rektors á því að skólinn hefur látið frá sér rangar og misvísandi upplýsingar í umsagnarferli um Græna hagkerfið sem til umfjöllunar er á Alþingi.   

VOR harmar það viðhorf sem endurspeglast í ofangreindum ummælum og aðgerðum og hefur lýst eftir því að rektor Landbúnaðarháskólans skýri afstöðu stofnunarinnar og fyrirætlanir í kennslu og rannsóknum í þágu lífrænna búskaparhátta á næstu árum.

Bréfið í heild

Ljósmynd: Tómatar, ræktaðir lífrænt í Skaftholti, Guðrún Tryggvadóttir

Birt:
Dec. 6, 2011
Tilvitnun:
VOR - Verndun Og Ræktun - félag framleiðenda í lífrænum búskap „VOR gerir alvaregar athugasemdir við stefnu LBHÍ varðandi erfðabreytta ræktun og lífrænan búskap“, Náttúran.is: Dec. 6, 2011 URL: http://nature.is/d/2011/12/06/vor-gerir-alvaregar-athugasemdir-vid-stefnu-lbhi-v/ [Skoðað:Dec. 9, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Jan. 2, 2012

Messages: