Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands fagna stofnun jarðminjagarðs á Reykjanesskaga
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands fagna nýlegri ákvörðun Grindavíkurbæjar um stofnun jarðminjagarðs (Geopark) á Reykjanesi. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa nú ákveðið að ganga til samstarfs um stofnun slíks garðs. Er það mikið fagnaðarefni þar sem slík ráðstöfun er vel til þess fallin að auka almenna vitund um mikilvægi náttúruverndar á svæðinu. Huga þarf vandlega að þeim málaflokki, t.d. með tilliti til virkjana og þeim mannvirkjum sem þeim fylgja. Einnig þarf að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir utanvegaakstur, sem verið hefur mikið vandamál á Reykjanesskaga.
Slíkur jarðvangur, Katla Geopark, hefur nú verið stofnaður á Suðurlandi og þar sér fólk fram á margvísleg tækifæri honum tengdum. Við erum sannfærð um að svo verði einnig á Suðurnesjum. Verði rétt á málum haldið getur slíkur garður auðveldlega skapað fjölda starfa og tækifæra í ferðaþjónustu enda liggur Reykjanesskaginn vel við slíku vegna nálægðar við alþjóðaflugvöll og ekki síst vegna þeirrar jarðfræðilegu sérstöðu sem svæðið hefur.
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands minna á að 83% þeirra erlendu ferðamanna sem sækja landið heim eru hingað komin í þeim tilgangi að upplifa ósnortna náttúru. Þeir eru ekki komnir hingað til að skoða stöðvarhús, borstæði, háspennulínur, línuvegi, hitaveiturör og önnur þau mannvirki sem fylgja jarðvarmavirkjunum.
Ljósmynd: Grænavatn á Reykjanesi, Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Jóhannes Ágústsson „Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands fagna stofnun jarðminjagarðs á Reykjanesskaga“, Náttúran.is: 28. desember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/12/28/natturuverndarsamtok-sudvesturlands-fagna-stofnun-/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.