Nýárssól

Á áramótum er oft staldrað við, litið um öxl og fram á veg. Á þessum áramótum er full ástæða til að skoða baráttu umhverfis- og náttúrverndar og þann árangur sem náðst hefur. Sem er nokkur. Enn er þó langt í land með að ásættanleg niðurstaða fáist og líklega verður aldrei hægt að lýsa fullnaðarsigri þar sem ný ofnýting, eyðilegging og aðrar afleiðingar virðingarleysis og græðgi spretta upp. Sérstaklega á meðan hagkerfi heimsins gengur fyrir þenslu og óráðsíu.

Hér á Íslandi hefur margt breyst til batnaðar á þessu ári. Árósasáttmálinn var leiddur í lög, laskaður að vísu, en nú geta félagasamtök af vissri stærð kært ákvarðanir og leyfi. Áður voru aðeins aðilar með beina lögvarða hagsmuni sem gátu kært. En óskaddaður sáttmáli leyfði einstaklingum að kæra þrátt fyrir að eiga ekki beina hagsmuni. Þetta er engu að síður mikið framfaraskref í átt að réttlátara samfélagi og ekki ólíklegt að á þetta reyni fljótlega eftir gildistöku á nýju ári.

Á þessu ári hvað við annan tón í umræðu um virkjanir, sérstaklega til stóriðju. Stjórnendur viðurkenndu hæpnar viðskiptaforsendur virkjana á borð við Kárahnjúka. Eitthvað sem baráttumenn gegn þeim framkvæmdum höfðu sagt en hlotið bágt fyrir og gert að þeim grín; þeir hefðu ekkert vit á viðskiptum. Sami tónn og var fyrir efnahagshrunið. Hroki og meðvituð lygi til að ná sínu fram. Orð eins og "[…]bending all the rules just for that." fóru óáreitt gegnum umboðsmann Alþingis vegna þess að þau snertu kæranda ekki persónulega.

En nú virðast menn hafa lært af reynslunni og ræða málin af meiri hreinskilni og taka meira mark á haldgóðum rökum í umræðunni. Það er töluverður árangur og vonandi að nýir tímar séu framundan og að hér geti átt sér stað umræða sem einkennist af heiðarleika og virðingu fyrir málefnum og þeim upplýsingum sem liggja fyrir.

Þess er veruleg þörf í umræðu um Reykjanes þar sem illa upplýstir sveitarstjórnarmenn, lögfræðingar og bankamenn vilja virkja gömul loforð um orku. Orku sem ekki er fyrir hendi að mati færustu sérfræðinga á sviði jarðvísinda.

Rammaáætlun leit loksins dagsins ljós og skapar traustan grundvöll umræðu um virkjanir og verndun. Það er vel þótt tekist sé á um þá staði sem lenda á milli virkjana og verndnar. Í ljósi þeirrar stefnubreytingar að virkjanir eigi að standa undir sér og skila arði má vænta þess að meiri sátt skapist um þá staði sem verður að virkja.

Draugurinn með ORF-ið skaut upp kollinum á árinu og hóf ræktun erfðabreytts byggs í næsta nágrenni tveggja helstu frumkvöðla lífrænnar ræktunar á Íslandi, Vallanesi og Heilsustofnunar Náttúrulækningarfélagsins í Hveragerði. Umhverfisstofnun veitti leyfi þrátt fyrir að ræktun erfðabreyttra lífvera rýri möguleika og trúverðuleika lífrænnar ræktunar á svæði í 9,6 km radíus frá ræktuninni sem fyrst og fremst er til framleiðslu í snyrtivörur (sem fólki er selt án þess að þess sé getið að mennsk prótín í vörunnin hafi verið ræktuð í byggi). Þessi yfirgangur hefur orðið þess valdandi að vonandi verða lög um erfðabreytta ræktun tekin til gagngerðar endurskoðunar á næsta ári.

Efnahagsástand heimsins hefur vakið vitund um fæðuöryggi. Að þekking og aðstæður séu fyrir hendi til að framleiða hér þá fæðu sem við þurfum. Til þess þarf að vera hægt að framleiða hér orku eins og metan og lífdísel, áburð sem að mestum hluta er unninn úr því sem til fellur s.s. úrgangi búsmala og við metanframleiðslu. Landbúnaður og garðyrkja þurfa að geta starfað nánast án innflutnings.

Margt hefur áunnist og margt er ógert. Nefnd Alþingis um eflingu Græns hagkerfis skilaði niðurstöðum sem auðvelt ætti að vera að ná sátt um. Á komandi ári má vænta breyttra og nýrra laga á sviði nátturuverndar, merkinga á neysluvörum með erfðabreyttum hráefnum og vonandi verða skerptar línur varðandi ræktun lífvera með breytt erfðaefni.

Birt:
30. desember 2011
Höfundur:
Einar Bergmundur
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Áramótakveðja Náttúrunnar 2011-2012“, Náttúran.is: 30. desember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/12/27/aramot-2011-2012/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 27. desember 2011
breytt: 31. desember 2011

Skilaboð: