Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu voru veitt í 17. sinn í fyrradag og komu þau að þessu sinni í hlut Hótel Eldhesta í Ölfusi fyrir markvissa umhverfisstefnu og sjálfbæran rekstur.

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt frá árinu 1995 til ferðaþjónustufyrirtækja eða einstaklinga í ferðaþjónustu sem þótt hafa skara framúr á sviði umhverfismála. Verðlaunin eru hugsuð sem hvatning og áminning til þeirra sem stunda ferðaþjónustu um að huga vel að umhverfinu í allri starfsemi sinni.

Um Eldhesta
Hestaleigan Eldhestar var stofnuð árið 1986 og er í dag með öflugri fyrirtækjum landsins á sínu sviði. Í júní árið 2002 tóku Eldhestar í notkun lítið sveitahótel, Hótel Eldhesta. Það er búið 26 tveggja manna herbergjum og matsal sem tekur um 70-80 manns.

Lengi í fremstu röð

Fram kemur m.a. í rökum dómnefndar að Eldhestar hafa lengi verið í fremstu röð í umhverfismálum í íslenskri ferðaþjónustu. Hótel fyrirtækisins var fyrsti íslenski gististaðurinn sem fékk alþjóðlega umhverfisvottun en það var vottað með Norræna umhverfismerkinu Svaninum frá júlí 2002-2006 og svo aftur árið 2011.  Með Svansvottuninni hefur hótelið uppfyllt öll nauðsynleg skilyrði til að verðskulda umhverfisverðlaun Ferðamálastofu; markmiðin í umhverfismálum eru skýr og mælanleg umhverfisstefnan er sýnileg og verslað er við fyrirtæki í heimabyggð þar sem því verður komið við.  Þema fyrirtækisins, hestamennskan, er kynnt gestum hótelsins með ýmsum hætti og fyrirtækið tekur virkan þátt í samfélagsmálum. Þá sýni starf Eldhesta að umhverfisvottun sé ekki bara á  færi stórra fyrirtækja, eins og stundum sé haldið fram. Þannig sé starf fyrirtækisins öðrum til eftirbreytni og mikilvæg fyrirmynd.

Umhverfisstefna í 10 liðum

Á vef fyrirtækisins kemur fram að Eldhestar fylgja meginreglum vistvænnar ferðamennsku. Litið er svo á að náttúra Íslands og óbyggðir séu ómetanleg verðmæti sem hlúa þurfi að. Umhverfisáhrif eru tekin með í reikninginn í öllum ákvörðunum:  Varðandi hótelið, nýjar reiðleiðir, hestaferðir og búnað. Umhverfisstefna Eldhesta samanstendur af tíu meginreglum sem eru leiðarsljós í starfi fyrirtækisins.
Að öllu þessu samanlögðu var mat dómnefndar að Eldhestar væru vel að viðurkenningunni komnir.

Um umhverfisverðlaun Ferðamálastofu
Verðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistarmann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við til glæstrar framtíðar. Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki. Óunni hluti píramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem lengst.

Sjá þá sem hlotið hafa umhverfisverðlaun Ferðmálastofu hér á Grænum síðum.

Ljósmynd: Frá afhendingu verðlaunanna, talið frá vinstri: Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri; Jennifer Hemp, Fríða Stefánsdóttir og Hróðmar Bjarnason, öll frá Eldhestum og Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í iðnaðarráðuneytinu.

Birt:
17. desember 2011
Höfundur:
Ferðamálastofa
Tilvitnun:
Ferðamálastofa „Hótel Eldhestar fengu umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2011“, Náttúran.is: 17. desember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/12/17/hotel-eldhestar-fengu-umhverfisverdlaun-ferdamalas/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: