Að gera grænmetissoð fyrir veturinn
Að gera grænmetissoð fyrir veturinn
Þegar mikið er um grænmeti og verið að taka upp úr görðunum er ekki úr vegi að útbúa gott grænmetissoð. Í soðið má nota stilka og ytri blöð af hvítkáli, blómkáli eða blöðin af spergilkáli og margt fleira, svo sem gulrótarblöð, rætur og villijurtir, bara það sé óskemmt og blöðin falleg. Þau gagnast í soð þó að þau þyki ekki nógu fín í almenna matreiðslu. Þetta má sjóða hálftíma eða lengur, sía svo vökvann frá og sjóða hann niður um þriðjung eða helming í opnum potti. Henda blöðum og rótum í safnhauginn. Soðið má frysta. Lífrænar saltkryddblöndur eru núorðið notaðar í staðinn fyrir tilbúna grænmetis- eða kjötteninga af fólki sem er meðvitað um hvað það lætur ofan í sig. Þær er hægt að nálgast í verslunum með sérvörur en hér er ítölsk uppskrift, sem vert er að reyna:
Gömul uppskrift að grænmetissúpukrafti
Smátt söxuðum gulrótum, lauk, sellerí, steinselju og basilíku er blandað saman við gott sjávarsalt í þyngdarhlutföllunum 77% af grænmeti á móti 23% af salti. Þetta er geymt í ísskáp og notað sem súpukraftur. Þetta er gömul aðferð og Þjóðverjar fara líkt að. Þeir mæla í matskeiðum eina kúfaða af góðu salti á móti 5 af hökkuðu grænmeti. Nota má allar algengar tegundir af súpugrænmeti svo sem gulrætur, lauk, sellerí, bæði rót stöngul og blöð, skessujurt eða hvönn. Þetta geymist vel á köldum og dimmum stað og það er hægt að renna ólífuolíu yfir til að útiloka snertingu við loft ef geyma á lengi. Maukið er vel salt svo athuga þarf að nota ekki of mikið. Viðkvæmar kryddplöntur, einkum basilíku en líka steinselju, dill og graslauk, má geyma með því að saxa þær og setja í klakabakka. Hella svo varlega yfir vatni og frysta. Molana má taka einn og einn og nota í sósur og súpur um veturinn. Þetta er einkar góð aðferð fyrir basilíku því hana borgar sig ekki að reyna að þurrka.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.
Ljósmynd: Gulrótaruppskera í hnefa, ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Að gera grænmetissoð fyrir veturinn“, Náttúran.is: 28. september 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/12/gera-grnmetisso-fyrir-veturinn/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. nóvember 2007
breytt: 28. september 2014