200 starfsmenn skrifa undir samgöngusamning Landsbankans
Tæplega 200 starfsmenn Landsbankans hafa nú undirritað samgöngusamning bankans frá því hann var samþykktur í júní. Þeir starfsmenn sem undirrita samninginn skuldbinda sig til að ferðast með strætó eða hjólandi til og frá vinnu og í vinnutengdum erindum ef möguleiki er á. Á móti greiðir bankinn útlagðan kostnað, að hámarki 40.000 krónur á ári, auk þess að greiða leigubílakostnað í neyðartilvikum. Ennfremur býðst öllu fastráðnu starfsfólki 20.000 króna endurgreiðsla af árskorti í strætó. Í bankanum starfa nú um 1250 manns og þar af starfa um 850 starfsmenn í höfuðstöðvum bankans í miðborg Reykjavíkur.
Samgöngusamningurinn er hluti af samfélagsstefnu bankans. Í henni kemur m.a. fram að bankinn ætli sér veigamikið hlutverk í uppbyggingu velferðar til framtíðar í íslensku samfélagi þar sem efnahags-, samfélags- og umhverfismálum er fléttað saman við starfshætti bankans. Liður í því að innleiða stefnuna er að hvetja starfsfólk að nota vistvænar samgöngur. Með þessum áherslum vill Landsbankinn leggja sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, bæta umferðarmenningu og styðja starfsmenn til betri heilsu.
Samkvæmt því sem best er vitað er um 25% af losun koltvísýrings á Íslandi vegna samgangna auk þess sem útreikningar benda til að rekstrarkostnaður fjölskyldubíls sem kostar 2,6 milljónir í innkaupum, eyðir 8 dm/100 km og er keyrður 15 þúsund km. á ári, sé um 1.080 þúsund krónur á ári (www.fib.is). Þá er miðað við eldsneytisverð 220 kr./dm3 sem er í lægri kantinum miðað við markaðsverð. Ef bíll hins vegar kostar 4.800.000 krónur við innkaup og eyðir 11 dm3/100 km þá hækkar kostnaðurinn í 1.650 þúsund á ári. Sparnaður er því umtalsverður fyrir þá starfsmenn sem eiga þess kost að nýta sér samgöngusamninginn.
Stefna Landsbankans í samfélagslegri ábyrgð skal vera orðin samþætt starfsemi bankans eigi síðar en árið 2015. Við innleiðingu á stefnunni mun Landsbankinn ráðast í fjölmörg verkefni til að laga stefnuna að starfsháttum bankans. Fyrstu verkefnin sem ráðist hefur verið í snúa að innra starfi. Á sviði samgangna hefur bankinn auk innleiðingar samgöngusamningsins kolefnisjafnað akstur og millilandaflug starfsmanna á sínum vegum frá og með árinu 2010.
Samgöngusamningur Landsbankans
Birt:
Tilvitnun:
Náttúran „200 starfsmenn skrifa undir samgöngusamning Landsbankans“, Náttúran.is: 10. desember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/12/10/200-starfsmenn-skrifa-undir-samgongusamning-landsb/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.