Vottuð lífræn aðlögun búfjárræktar, grænmetis- og berjaræktunar hafin á þremur bújörðum
Vottunarstofan Tún hefur staðfest að lífræn aðlögun er hafin á þremur bújörðum í Dalvíkurbyggð. Um er að ræða jarðirnar Hnjúk í Skíðadal, Velli í Svarfaðardal og Krossa 1 á Árskógsströnd. Vottorð þessa efnis voru formlega afhent við hátíðlega athöfn í menningarhúsinu Bergi á Dalvík fimmtudaginn 1. desember s.l. Vottunin er áfangi í þróunarverkefninu „Lífræn framleiðsla í Dalvíkurbyggð“ sem Vaxtarsamningur Eyjafjarðar styrkir. Verkefnið er samstarf þriggja bænda í Dalvíkurbyggð, Vottunarstofunnar Túns og Umhverfisráðgjafar Íslands.
Með vottun Túns er staðfest að á hinum þremur vottuðu jörðum séu nú notaðar viðurkenndar lífrænar aðferðir við landnýtingu, aðbúnað og meðferð búfjár. Meðal þess sem bændur þurfa að uppfylla er notkun lífrænna áburðargjafa við ræktun túna og garðlanda, aukið húsrými og áhersla á velferð búfjár, notkun lífrænna fóðurefna, og ítarleg skráning á landnýtingu og búfjárhaldi.
Á jörðinni Hnjúki í Skíðadal stunda Jóhannes Jón Þórarinsson og fjölskylda hans búfjárrækt. Megin áhersla Jóns er á sauðfjárrækt og hrossarækt, en einnig er talsverð skógrækt á landi hans. Á Völlum í Svarfaðardal stunda Bjarni Óskarsson og hans fjölskylda m.a. ræktun á sólberjum, gulrótum, kryddjurtum og ýmsum öðrum nytjaplöntum. En þetta mun vera fyrsta hérlenda býlið sem vottað er til lífrænnar ræktunar á berjum. Þá stunda Snorri Snorrason og fjölskylda hans fjölbreytta búfjárrækt á eignarjörð sinni Krossum 1 á Árskógsströnd og á leigujörðinni Stóru-Hámundarstöðum. Snorri leggur megin áherslu á sauðfjárrækt og eldi nautgripa til kjötframleiðslu. Gera má ráð fyrir að hinir nýju vottunarhafar ljúki aðlögun á árunum 2012-2014 og að á þeim árum taki að berist þaðan vottaðar lífrænar afurðir á markað.
Með þessari vottun eru samtals fjórar jarðir í Dalvíkurbyggð vottaðar til lífrænnar landnýtingar og framleiðslu, en fyrir nokkrum árum hlaut jörðin Klængshóll í Skíðadal slíka vottun.
Þróunarverkefnið „Lífræn framleiðsla í Dalvíkurbyggð“
Vottunin er áfangi í þróunarverkefninu “Lífræn framleiðsla í Dalvíkurbyggð” sem Vaxtarsamningur Eyjafjarðar styrkir. Verkefnið felst í því að styðja lífræna framleiðslu á afmörkuðu landsvæði með fræðslu, ráðgjöf og myndun þyrpingar framleiðenda sem hafi stuðning af verkefninu og landfræðilegri nálægð hver við annan. Tilgangurinn er að auka verðmætasköpun, bæta afkomu bænda og þjóna hinum ört vaxandi lífræna markaði. Verkefnið er samstarf þriggja bænda í Dalvíkurbyggð, Vottunarstofunnar Túns og Umhverfisráðgjafar Íslands. Verkefnisstjóri þess er Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunar-fræðingur og framkvæmdastjóri Umhverfisráðgjafar Íslands.
Stefán Gíslason verkefnisstjóri segist binda miklar vonir við að þetta verkefni verði öðrum til vitnis um það hvernig lífræn framleiðsla getur bætt afkomu bænda og stutt við byggðaþróun í dreifbýli.
Ljósmynd: Myndin sýnir Bjarna Guðleifsson náttúrufræðing sem afhenti vottorðin f.h. Túns, ásamt þeim Snorra Snorrasyni bónda á Krossum 1, Bjarna Óskarssyni á Völlum og Jóni Þórarinssyni á Hnjúki. Hjörleifur Hjartarson tók myndina.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Vottuð lífræn aðlögun búfjárræktar, grænmetis- og berjaræktunar hafin á þremur bújörðum“, Náttúran.is: 7. desember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/12/06/vottud-lifraen-adlogun-bufjarraektar-graenmetis-og/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. desember 2011
breytt: 10. desember 2011