Hún hefst með fjórða sunnudegi fyrir jóladag, þ.e. á bilinu 27. nóvember til 3. desember. Með henni hefst kirkjuárið eða starfsár kirkjunnar. Því er víða um lönd talsvert um spásagnir í upphafi jólaföstu einsog önnur áramót. Gætti þess líka hér á landi, en þó varla svo að skeri sig úr.

Jólafasta heitir líka aðventa, komið af latínunni adventus, sem þýðir tilkoma (Krists). Aðventukransar þeir, sem sumir útbúa til heimilisskrauts á jólaföstunni eru tiltölulega nýtt fyrirbæri hér á landi, varla eldri en frá þessari öld nema meðal fólks af öðru þjóðerni. Þeir eru hinsvega alkunnir úti í Evrópu. Líklega hafa þeir einkum borist hingað með dönskum fjölskyldum eða danskmenntuðu fólki.

Jafnan er tl þess vitnað, hversu mikið vinnuálag fólk mátti þola á jólaföstunni, einkum við tóskapinn. Vitaskuld byrjaði þessi vinna fljótlega eftir að sláturstörfum lauk. En vísast hefur þótt þurfa ða herða á afköstunum eftir því sem á leið.
Til þess lágu einkum tvær ástæður. Annarsvegar þurfti að ljúka við ullarvarning til að fara með í kaupstað í skiptum fyrir það, sem kaupa skyldi til jólanna, og þó ekki síður til að jafna skuldina við kaupmanninn, svo að hún stæði ekki fram yfir áramótin. Eftir það var einkum unnið við fatnað handa heimilisfólkinu sjálfu, nærföt, sokka, skó, vettlinga og fleira nauðsynlegt, sumpart til gjafa.

Ekki þótt annað hæfa en sérhver heimilismaður fengi a.m.k. eina nýja flík til ólanna. Annars var sagt, að menn “færu í jólaköttinn” eða “klæddu jólaköttinn”. Mjög er ljóst, hvernig á þessum orðtökum stendur. Líklegt er þó, að jólakötturinn hafi átt að vera einhver óvættur í ætt við ýmis fyrirbæri á Norðurlöndunum og víðar, sem einna oftast kallast jólahafur.
Það fer ekki milli mála, að fólk lagði á sig mjög auknar vökur í þessu skyni síðustu vikurnar fyrir jólin. Streitan margumtalaða var til þá sem nú. Reyndar var þá talsverð hvíld í vændum. En ekki var sú að undra, þótt marga syfjaði, ekki síst börn og unglinga.
Frá því er greint í þjóðsögum, að svo langt hafi gengið, að húsbændur hafi sett svonefndar tepurur á augnlok sumra til að halda augunum opnum. Augnateprurnar voru gerðar úr smáspýtu eða beini á stærð við eldspýtu. Gerð var brotalöm á og skinninu á augnlokinu smeygt í. Var þá mjög sárt að láta aftur aguun, þótt e.t.v. væri unnt að depla þeim til hálfs.
Mjög er óvíst og raunvar ólíklegt, að þetta kvalræði hafi nokkurntíma verið í almennu brúki nem sem hótun og síðar gamanmál. Að dómi augnlækna myndi slíkri aðgerð fylgja svo óbærilegar þjáningar vegna þornunar sjáaldursins, að óhugsandi sé, að nokkur mannvera geti unnið nokkuð af viti við þvílíka písl. Jafnvel þótt húsbænur væru harðir og ómannúðlegir, hefði slíkt tiltæki einfaldlega ekki veirð hagkvæmt fyrir þá sakir lélegra afkasta. En vel mátti auðvitað ógna með slíku.

Í þjóðsögum er þetta tæki líka nefnt vökustaurar. Af því átti síðasta vakan fyrir jól að heita staurvika. En til að hressa fólk á hinni löngu vinnuvöku var víða gefinn aukaglaðninur í mat, og hét hann þá staurbiti. Hann var annars líka kallaður kvöldskattur í Eyjafirði og mun þá hafa verið gefinn í fyrstu viku jólaföstu.
Af þessu er það að segja, að hvað sem frásögn þjóðsögunnar líður, hefur sá skilningur verið ráðandi um austanvert landið frá Norður-Múlasýslu til Rangárvallasýslu, að orðið vökustaur merkti einmitt aukabita eða mtarglaðning í líkingu við kvöldskattinn. Eru þær heimildir eldri en hinar. Óreglulegt var hinsvegar, hvenær hann var gefinn. Skýringar á þessari merkingu orðisins eru allar ófullnægjandi, nema helst sú, að matarbitarnir hafi verið þræddir upp á smáspýtu handa hverjum og einum.

Í öðrum landshlutum fylgja menn aftur á móti skilningi þjóðsagnanna, en þekkja fyrirbærið undantekningarlítið ekki af eigin raun nema þá helst sem gamanmál og umtal. Sá síður var sumstaðar til líkt og fyrir sumarkomu að skrifa upp á miða alla þá, sem komu á bæinn á jólaföstunni. Á aðfangadagskvöld var svo dregið um miðana: karlmenn drógu konur og öfugt. Fengu menn þannig hver sinn “jólasvein “ eða “jólamey” yfir jólin. Stundum pússaði þá einhver öll skötuhjúin saman með því að lesa upp úr ljóðabók, sem flett var upp í blindni. En þetta eru aðrir jólasveinar en hinir, sem þekktari eru.

Úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson.
Mynd: Kerti í kökuformi í Jólahúsinu í Eyjafirði. Ljósmyn: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
25. nóvember 2012
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Jólafasta - Aðventa“, Náttúran.is: 25. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/jlafasta/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 23. september 2012

Skilaboð: