Þeir sem aðhyllast stóriðjustefnu fyrrum stjórnvalda hafa kerfisbundið haldið því fram að afhendingaröryggi raforku á Reykjanesskaga sé ófullnægjandi og að þörf sé á nýjum og mun stærri  háspennulínum hvort sem til komi álver í Helguvík eða ekki. Deila má um hvort hér sé á ferðinni hálfsannleikur eða blákaldar lygar. Ég tel að hið síðarnefnda eigi hér við og færi rök fyrir því hér að neðan. Raunar hafa talsmenn Landsnets áður orðið uppvísir að því að ljúga að almenningi og stjórnvöldum og hafa þar skákað í skjóli sérþekkingar á sviði orkuflutninga. Lygavefur fyrirtækisins nær því miður langt inn í hin ýmsu ráðuneyti og enn þann dag í dag skynjar maður að jafnvel innstu koppar í búri stjórnsýslunnar trúa gagnrýnislaust á moðreykinn í stað þess að setja sig efnislega inn í málið.

Það er út af fyrir sig rétt sem bent hefur verið á að mikið álag er á 132 kV Suðurnesjalínu svokallaðri enda umtalsverð raforkuframleiðsla á Reykjanesskaga. Orkan er virkjuð á miðjum og vestanverðum skaganum og fer eftir línunni styðstu leið til notenda. Að megninu til fer hún til álversins í Straumsvík og fyrir vikið er álagið á línunni vegna orkuflutninga frá virkjunum í vestri til notenda austri. Af þessu leiðir að hófsöm uppbygging orkufrekrar starfsemi í sveitarfélögunum við miðjan og vestanverðann skagann væri til þess fallin að draga úr álagi línunnar og þar með bæta afhendingaröryggið. Má þar nefna kísilverið sem brátt mun rísa og þarf afl sem nemur nokkrum tugum MW. Jafnframt myndi 25-50 MW netþjónabú á Keflavíkurflugvelli vera af hinu góða í þessu samhengi. Hins vegar myndu tröllvaxnar framkvæmdir á borð við álver í Helguvík, sem þarf afl sem nemur hundruðum MW, kalla á nýjar línur með meiri burðargetu en þær sem fyrir eru. En þá er líka heiðarlegra að segja satt: Ef þessar 220-440 kV línur sem stóriðjusinna dreymir um verða reistar þá er það öðru fremur til þess að þjóna álveri Norðuráls í Helguvík en ekki hinum almenna notanda. Samkvæmt gildandi lögum ætti Norðurál að greiða þann kostnað sem af þessari tengingu hlýst. Hinsvegar er leynt og ljóst unnið að því að velta kostnaðinum yfir á almenning með málatilbúnaði um að þessi mannvirki séu nauðsynleg sökum meints skorts á afhendingaröryggi raforku.

Reykjanesfólkvangi rústað

Samkvæmt gögnum sem aðstandendur verkefnisins hafa farið frekar leynt með, enn þó kynnt fyrir a.m.k. sumum sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum, fela hugmyndir Landsnets í sér gríðarlegt jarðrask á dýrmætu svæði. Lagður yrði jarðstrengur úr Seltúni í Krýsuvík yfir í Trölladyngju. Sá færi bæði yfir Sveifluháls og Núpshlíðarháls auk þess sem hann myndi þvera Móhálsadal. Jafnframt yrði lagður jarðstrengur úr Sandfelli í Krýsuvík norður í Trölladyngju en þaðan kæmi háspennulína sem myndi tengja þessar virkjanir, ef þær rísa, inn á nýja 220-440 kV Suðurnesjalínu. Í umhverfismati sem Landsnet vann var hinsvegar ekki stafkrókur um þessa orkuflutninga og gefur matið því ekki rétta mynd af áformunum sem uppi eru. Það kemur ekki á óvart því aðstandendur vita vel að andstaðan myndi stóraukast ef almenningi yrði ljóst hve mikil náttúruspjöll áformin fela í sér og því er reynt að fela þau eins lengi og hægt er.

Ekki fyrsta lygasagan

Snemma árs 2007 hafnaði Sandgerðisbær tilleitan Landsnets um að tengja álver í Helguvík með háspennulínum nærri Ósabotnavegi. Í kjölfarið reyndi forstjóri Landsnets að hræða sveitarfélagið til fylgis við sjónarmið sín. Í Morgunblaðinu 13. febrúar 2007 þvertekur hann fyrir að jarðstrengur geti tryggt það afhendingaröryggi sem álver gerir kröfu um. Þessi „sannleikur“ var af hans hálfu ítarlega rökstuddur og fyrirvaralaus og skilaboðin skýr undir fyrirsögninni: „Aðeins loftlínur sagðar tryggja fullt afhendingaröryggi fyrir álver.“

Eftir að hafa haldið uppi þessum hræðsluáróðri hélt Landsnet aftur á fund Sandgerðisbæjar með skýr skilaboð til fulltrúa bæjarins um að ef ekki fengist loftlína í gegnum land Sandgerðisbæjar sé tæknilega ómögulegt að sjá álveri í Helguvík fyrir orku. Sandgerðingar létu ekki bugast og stóðu við fyrri ákvörðun sína. Þá áttaði Landsnet sig loks á því að nei þýðir nei og engar línur færu um land Sandgerðisbæjar. En hvað kom þá á daginn? Allar áhyggjurnar sem forstjórinn hafði haft af litlu afhendingaröryggi jarðstrengja hurfu eins og dögg fyrir sólu. Allt í einu komst Landsnet að allt annarri niðurstöðu og féllst á að leggja jarðstreng meðfram Reykjanesbraut frá Fitjum í Njarðvík til Helguvíkur í staðinn fyrir loftlínur með Ósabotnavegi.

Í þessu ljósi velti ég upp eftirfarandi spurningu: Vita fjárfestar í móðurfélagi Norðuráls, Century Aluminum, að ef marka má orð forstjóra Landsnets þá verður rekstraráhætta hugsanlegs álvers í Helguvík meiri en sú sem áliðnaðurinn og fjárfestar almennt sætta sig við?

Birt:
15. mars 2011
Höfundur:
Bergur Sigurðsson
Tilvitnun:
Bergur Sigurðsson „Lygavefur Landsnets“, Náttúran.is: 15. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/15/lygavefur-landsnets/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. nóvember 2011

Skilaboð: