Óskað eftir ábendingum vegna landsáætlunar um úrgang
Umhverfisráðuneytið óskar eftir tillögum og ábendingum frá almenningi og hagsmunaaðilum vegna landsáætlunar um úrgang 2012 – 2023 en gerð hennar stendur nú yfir. Áætlunin mun geyma stefnu stjórnvalda í úrgangsmálum auk þess að tilgreina stöðu úrgangsmála í landinu.
Landsáætlunin tekur til hvers kyns úrgangsmála, hvort sem um er að ræða hvernig auðvelda eigi almenningi flokkun úrgangs, hvernig standa skuli að endurvinnslu, hvernig bæta skuli nýtingu hráefna eða hvernig koma skuli í veg fyrir myndun úrgangs og þar með urðun, svo fátt eitt sé nefnt. Þannig getur áætlunin kveðið á um hvort gera eigi almenningi kleift að skila flokkuðum úrgangi í tunnu við hvert heimili eða jafnvel í næstu verslun; hvort taka eigi upp skilagjald á fleiri úrgangsflokkum en einnota drykkjarvöruumbúðum og bifreiðum; hvort banna eigi notkun plastpoka og hvort hægt sé að draga úr matarúrgangi með einhverjum tilteknum aðgerðum.
Samhliða landsáætluninni vinnur umhverfisráðuneytið að innleiðingu úrgangstilskipunar Evrópusambandsins 2008/98/EB í íslenskt lagaumhverfi. Tilskipunin setur m.a. viðmið um það hvenær úrgangur hættir að vera úrgangur og verður að hráefni og hvernig greina skuli milli úrgangs og aukaafurða. Þá kveður tilskipunin á um úrgangsmeðhöndlun, s.s. að hún skuli hvorki stofna heilsu manna í hættu né skaða umhverfið, einkum vatn, loft og jarðveg.
Í tilskipuninni er mælt fyrir um hver forgangsröð við meðhöndlun á úrgangi skuli vera. Í fyrsta lagi skal koma í veg fyrir myndun úrgangs, í öðru lagi að undirbúa úrgang fyrir endurnotkun, í þriðja lagi að endurvinna úrganginn, í fjórða lagi að endurnýta hann en síðasta skrefið er að farga honum. Þannig er leitast við á öllum stigum að meðhöndla úrganginn til að koma í veg fyrir förgun.
Tilskipunin byggir á meginreglunum um mengunarbótarregluna (polluter pays principle) og framleiðendaábyrgð (producer responsibility). Þá kveður hún á um að gerð sé áætlun um meðhöndlun úrgangs og hvernig koma eigi í veg fyrir myndun hans.
Samráðsferli vegna landsáætlunarinnar stendur til 1. desember næstkomandi og er fólk hvatt til að koma tillögum og ábendingum vegna gerðar hennar skriflega fyrir þann tíma til: Umhverfisráðuneytisins, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík, eða með því að senda tölvupóst á netfangið postur@umhverfisraduneyti.is.
Landsáætlun um úrgang verður send út til kynningar þegar drög að henni liggja fyrir fyrri hluta næsta árs og tekur þá við lögboðið sex vikna kynningarferli.
Ljósmynd af vef umhverfisráðuneytisins.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Óskað eftir ábendingum vegna landsáætlunar um úrgang“, Náttúran.is: 21. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/11/21/oskad-eftir-abendingum-vegna-landsaaetlunar-um-urg/ [Skoðað:2. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.