Hvað er hveralykt?
Hin íslenska hveralykt er ekki eins blásaklaus og fögur og af er látið.
Efnið sem býr til hveralyktina, brennisteinsvetni (H2S)er þekkt eiturefni sem getur valdið óþægindum og jafnvel dauða ef það fer yfir ákveðin mörk.
Ef 30 mínútna meðaltal styrkur brennisteinsvetnis fer yfir 30 ppb (parts per billion - milljörðustuhlutar rúmmáls) má búast við því að fólk með astma og öndunarfærasjúkdóma þurfi að leggjast inn á sjúkrahús. Einkenni sem rekja má til of mikils brennisteinsvetnis eru höfuðverkur, sviði í augum, ógleði og yfirliðstilfinning.
Eftir að Hellisheiðarvirkjun tók til starfa hafa mælst á Grensásvegi í Reykjavík gildi brennisteinsvetnis sem eru um þriðjungur af heilsuverndarviðmiðum Alþjóða Heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Aukning í styrk við Grensásveg fellur alveg saman við opnun virkjunarinnar skv. mælingum Umhverfisstofnunar. Ef fyrirhugaðar Hverahlíðarvirkjanir og Bitruvirkjanir verða teknar í gagnið mun losun á Hellisheiðarsvæðinu nema 26.300 tonnum af brennisteinsvetni á ári. Dágóður skammtur af eiturefni það. Þessi heildarlosun verður um sjö sinnum meiri en öll núverandi brennisteinslosun frá álverinu í Straumsvík, álverinu á Grundartanga og Járnblendiverksmiðjunni samanlagt. Það er því ljóst að verði virkjað frekar á Hellisheiði þá munu margir búa við viðvarandi brennisteinsvetnismengun í úthverfum Reykjavíkur auk þess sem ekið verður í fýlu yfir Hellisheiðina.
Höfundur er jarðfræðingur og umhverfisefnafræðingur.
Myndin er tekin af Guðrúnu Tryggvadóttur við borholustrók á Hellisheiði. Ljósmynd: Birgir Þórðarson.
Birt:
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Hvað er hveralykt?“, Náttúran.is: 20. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2007/11/03/hva-er-hveralykt/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 3. nóvember 2007
breytt: 21. nóvember 2011