Hröð afgreiðsla leyfis til starfsemi með erfðabreyttar lífverur að Kleppjárnsreykjum
Á bloggsíðu Stefáns Gíslasonar umhverfisstjórnunarfræðings með meiru fjallar hann um leyfistillögu senda frá Umhverfisstofnun fyrir Orf líftækni um „starfsemi með erfðabreyttar lífverur í gróðurhúsi Sólhvarfa ehf. Kleppjárnsreykjum“. Erindið var sent frá Umhverfisstofnun þ. 6. apríul sl. og var tekið fyrir í byggðaráði Borgarbyggðar strax daginn eftir. Byggðaráð samþykkti að vísa málinu til Umhverfis- og landbúnaðarnefndar, sem afgreiddi málið á fundi síðar sama dag, þ.e. líka þann 7. apríl. Í fundargerð nefndarinnar segir (í 15. lið):
Leyfistillaga til handa ORF Líftækni hf.,  vegna starfsemi með erfðabreyttar lífverur í gróðurhúsi Sólhvarfa ehf.,  Kleppjárnsreykjum.
 Lögð fram tillaga, dagsett 6. apríl 2010, frá Umhverfisstofnun  vegna starfsemi með erfðabreyttar lífverur. Erindinu var vísað til  umhverfis- og landbúnaðarnefndar á 150. fundi byggðarráðs þann 7. apríl  2010. 
Nefndin leggst ekki gegn leyfisveitingunni en leggur áherslu á að framkvæmd verksins verði með þeim hætti sem fram kemur í umsókninni þannig að umgengni sé í lagi.
Fundargerð Umhverfis- og landbúnaðarnefndar var síðan samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar fimmtudaginn 15. apríl.
Vinnubrögð byggðaráðs:
Samkvæmt 46. grein Samþykktar um stjórn og fundarsköp Borgarbyggðar skal byggðaráð „boðað til fundar með skriflegu fundarboði ásamt dagskrá a.m.k. einum sólarhring fyrir fund“. Þegar haft er í huga að umræddur fundur byggðaráðsins hófst kl. 8.00 að morgni miðvikudagsins 7. apríl, er ljóst að fundarboð ásamt dagskrá þurfti að liggja fyrir í síðasta lagi kl. 8.00 að morgni þriðjudagsins 6. apríl. Mjög ólíklegt verður að teljast að erindi Umhverfisstofnunar hafi borist fyrir þann tíma, enda erindið dagsett þennan sama dag. Reyndar er eðlilegt að gera ráð fyrir því að dagskrá byggðaráðsfundarins hafi legið fyrir fyrir páska, þ.e. í síðasta lagi miðvikudaginn 31. mars. Þetta er sagt í ljósi þess að vinnudagur opinberra starfsmanna að loknu páskafríi hófst almennt þann 6. apríl kl. 8.00. Því var í raun hvorki mögulegt að boða byggðaráðsfundinn með lögmætum hætti eftir páskafrí, né að taka inn á hann erindi sem dagsett voru umræddan dag. Með hliðsjón af þessu verður ekki annað séð en að málmeðferð byggðaráðs hafi brotið í bága við Samþykkt um stjórn og fundarsköp Borgarbyggðar.
Vinnubrögð Umhverfis- og landbúnaðarnefndar
 Umhverfis- og  landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar varð til við  sameiningu Umhverfisnefndar  og Landbúnaðarnefndar. Erindisbréf  Umhverfis- og landbúnaðarnefndar er  ekki aðgengilegt á heimasíðu  sveitarfélagsins, en þar er hins vegar að  finna erindisbréf  beggja  nefndanna sem Umhverfis- og landbúnaðarnefnd varð til úr. Í  báðum  þessum erindisbréfum er tekið fram að fundarboðun skuli „vera   skrifleg og tilgreina fundarstað, tíma og dagskrá og send nefndarmönnum   og öðrum sem seturétt hafa á fundum eigi síðar en tveimur sólarhringum   fyrir fund“. Hér á eftir er gengið út frá því að hin sameinaða   nefnd starfi eftir erindisbréfi sem er sambærilegt erindisbréfum hinna   nefndanna.
Fundur Umhverfis- og landbúnaðarnefndar þann 7. apríl hófst kl. 15.00, en þá voru liðnar rúmar 5 klst. frá því að fundi byggðaráðs var slitið. Þrátt fyrir þetta var erindið frá byggðaráði tekið fyrir á fundinum.
Af framanskráðu er augljóst að meðferð Umhverfis- og landbúnaðarnefndar á umræddu máli braut í bága við erindisbréf nefndarinnar.
Faglegt hlutverk fagnefndar
 Umhverfis- og landbúnaðarnefnd  er fagnefnd sveitarfélagins í  þeim málaflokki sem hér um ræðir. Þar  með er nefndin væntanlega sá aðili  sem byggðaráð og sveitarstjórn  treysta á þegar mál af því tagi sem hér  um ræðir koma til umræðu, eins  og endurspeglast reyndar í afgreiðslu  byggðaráðs á umræddu erindi. Á  nefndinni hvílir því sú skylda að setja  sig vel inn í þau mál sem henni  berast, rannsaka feril þeirra og  innihald og kalla eftir frekari  gögnum eða áliti utanaðkomandi aðila  eftir því sem þurfa þykir. Ákvæði  um undirbúning og boðun funda í  erindisbréfi nefndarinnar og í samþykkt  um stjórn og fundarsköp eru  einmitt til þess fallin að tryggja vandaða  málsmeðferð hvað þetta  varðar.
Með því að taka umrætt mál til umfjöllunar í nefndinni aðeins um 5 klst. eftir að það var afgreitt úr byggðaráði, braut Umhverfis- og landbúnaðarnefnd ekki aðeins gegn erindisbréfi sínu, heldur vanrækti hún um leið hlutverk sitt sem fagnefndar. Af tímasetningum í málinu er ljóst, að nefndin gat með engu móti sinnt þeirri rannsóknarskyldu sem á henni hlýtur að hvíla. Vissulega bera tímasetningarnar nægjanlegt vitni um vanrækslu nefndarinnar, en því til viðbótar er rétt að hafa í huga að hér var um stefnumótandi ákvörðun að ræða, sem eðli málsins samkvæmt hlaut að þurfa að skoða út frá ýmsum hliðum. Þannig hlýtur að hafa verið ástæða til að kanna hvort ræktun erfðabreyttra lífvera í sveitarfélaginu samrýmdist annarri stefnumótun, hver væru viðhorf íbúa á Kleppjárnsreykjum til málsins, hversu mikið það kynni að hefta möguleika í lífrænni ræktun, hvernig það félli að hugmyndum um uppbyggingu við Deildartunguhver og hvaða þýðingu það kynni að hafa fyrir ímynd svæðisins og sveitarfélagsins í heild, svo dæmi séu tekin. Jafnframt hlaut að vera ástæða til að kynna sér sérstaklega hvernig úrgangur yrði meðhöndlaður, hvernig ytra og innra rými skyldi aðgreint og hvernig staðið skyldi að eftirliti með starfseminni. Það að nefndin leggi „áherslu á að framkvæmd verksins verði með þeim hætti sem fram kemur í umsókninni þannig að umgengni sé í lagi“ hefur enga þýðingu í þessu sambandi þegar á hólminn er komið.
Vinnubrögð sveitarstjórnar
 Ekki virðist tilefni til að  gagnrýna hlut sveitarstjórnar í  þessu máli sérstaklega, að öðru leyti  en því að hún skyldi taka  fundargerð Umhverfis- og landbúnaðarnefndar  til umræðu og afgreiðslu,  þrátt fyrir þá augljósu ágalla sem voru á  málsmeðferð nefndarinnar.  Einnig hefði sveitarstjórnin átt að gera sér  grein fyrir því að hér var  um stefnumótandi ákvörðun að ræða, enda þótt  sjálf útgáfa  starfsleyfisins sé í höndum Umhverfisstofnunar.
Meginályktun og lokaorð
 Úrbóta er þörf í stjórnsýslu  Borgarbyggðar!
Sjá einnig fyrri pistil Stefáns um málið.
Ljósmynd: Össur Skarphéðinsson við uppskeru í Grænu smiðju Orf líftækni i Grindavík.
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Hröð afgreiðsla leyfis til starfsemi með erfðabreyttar lífverur að Kleppjárnsreykjum“, Náttúran.is: 26. apríl 2010 URL: http://nature.is/d/2010/04/26/hrod-afgreidsla-leyfis-til-starfsemi-med-erfdabrey/ [Skoðað:4. nóvember 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. nóvember 2011
		
