Metanól í bensíni - leiréttar rangfærslur
Hjalti Andrason líffræðingur birtir grein í Fréttablaðinu 17. nóvember þar sem fullyrt er að blöndun vistvæns metanóls í bensín hér á landi geti valdið almenningi miklum skaða. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hjalti heldur þessari skoðun á lofti. Hér verður gerð enn ein tilraun til þess að leiðrétta þessar rangfærslur.
Öruggt og reynt eldsneyti
Eins og Hjalti nefnir í greininni hefur metanól fylgt mannkyninu frá örófi alda og hafa ítarlegar rannsóknir átt sér stað á notkun þess sem eldsneytis. Hjalti gefur í skyn að tilraunum með metanól sem eldsneyti hafi verið hætt vegna eitrunaráhrifa þess. Þetta er fjarri sanni. Skýrist þróunin að mestu af efnahagsástæðum þar sem olíuverð var mjög lágt á 9. og 10. áratugnum. Með hækkandi olíuverði hefur áhugi á notkun þess því ekki aðeins vaxið hér á landi heldur einnig víða erlendis. Þannig hefur breska olíufyrirtækið Greenergy náð 25% hlutdeild af breska eldsneytismarkaðnum með bensín sem er blandað metanóli. Engin vandkvæði hafa komið upp vegna notkunar þess. Mikill vöxtur er á notkun metanóls sem eldsneytis í Kína, á síðasta ári er talið að 7% af bensínnotkun Kínverja hafi verið skipt út fyrir metanól.
Úðað sem rúðuvökvi
Í skýrslu sem unnin var af sérfræðingum við MIT-háskólann í Boston fyrir bandaríska orkumálaráðuneytið fyrir ári segir m.a. að meint áhrif metanólblöndunar á heilsu almennings hafi verið stórlega ýkt: " ?eituráhrif metanóls eru engu meiri en annars eldsneytis sem ætlað er að koma í stað bensíns og dísilolíu. Þar að auki er og hefur metanól verið notað í miklum mæli sem rúðuvökvi, án þess að það valdi nokkrum skaða, en í þessu tilviki er efninu bókstaflega úðað yfir vegina. Í prófunum í Kaliforníu þar sem eknir voru yfir 350 milljónir kílómetra á metanóli kom ekki fram eitt einasta tilvik metanóleitrunar."
Ekki hættulegra en annað eldsneyti
Grunnatriði í málflutningi Hjalta er að blöndun metanóls við bensín auki stórkostlega hættuna sem almenningi sé búin af því að umgangast bensín. Svar við þeirri fullyrðingu er í sjálfu sér einfalt. Bensín og dísilolía eru efnablöndur sem innihalda stóran hóp efna sem eru óhæf til neyslu, jafnvel í litlu magni, og geta verið heilsuspillandi. Þessar olíuafurðir hafa engu að síður verið notaðar í hálfa aðra öld um allan heim, iðnaðurinn og almenningur þekkir hætturnar og við umgöngumst eldsneyti daglega án þess að bera skaða af. Vistvænt metanól verður framleitt hér á landi einvörðungu sem eldsneyti og í fyrstu blandað við bensín í litlu magni.
Ef metanól, dísilolía og bensín eru borin saman kemur í ljós að notkun metanóls fylgir minnst áhætta fyrir heilsu almennings. Ólíkt dísil og bensíni er metanól náttúrulegt efni sem er ávallt til staðar í mannslíkamanum í nokkru magni. Hjá meðalmanni (70 kg) er bakgrunnsmagn af metanóli í líkamanum á hverjum tíma um 35 mg. Við það að drekka 0,5 L af gosdrykk með gervisætu eykst magnið sem nemur um 25 mg.
Mannslíkamanum stafar engin hætta af litlu magni af metanóli líkt og kynni að vera til staðar í bensíngufum á bensínstöð. Þarf margfalt minna magn af gufum frá bensíni eða dísil til að valda heilsuspjöllum en af metanóli. Enn fremur er metanól umhverfisvænna en bensín og dísilolía, þar sem metanól brotnar hratt niður í umhverfinu, það inniheldur engin þrávirk efni og örverur vinna auðveldlega á því.
Engin rök eru fyrir því að íblöndun metanóls auki eituráhrif eldsneytis fyrir starfsfólk bensínstöðva, ökumenn eða farþega enda hefur Hjalti ekki bent á vísindalegar rannsóknir sem styðja þær fullyrðingar.
Margir kostir vistvæns metanóls
Vistvænt metanól verður framleitt hér á landi sem eldsneyti og meðhöndlað með þeirri varúð sem hefð er fyrir í eldsneytisdreifingu og -sölu. Blöndun á 3% af metanóli í bensín eykur í engu hættu af dreifingu eða notkun bensíns enda er slíkt í fullu samræmi við lög og reglur um fljótandi eldsneyti. Á þetta bendir Hjalti raunar á í grein sinni: "Í Evrópu er hámark leyfilegs metanóls í bensíni takmarkað við 3%."
Kostir íblöndunar vistvæns metanóls eru margir, það gefur hreinni bruna, dregur úr sóti, eykur oktanagildi og framleiðsla úr endurunnum koltvísýringi dregur markvisst úr útblæstri gróðurhúsaloftegunda. Áhrifin á heilsu, umhverfi og efnahag verða því tvímælalaust jákvæð.
Grafík: Efnafræðileg samsetning metenóls, Wikipedia. Sjá nánar um metanól á Wikipediu, smella hér.
Birt:
Tilvitnun:
Ómar Sigurbjörnsson „Metanól í bensíni - leiréttar rangfærslur“, Náttúran.is: 19. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/11/19/metanol-i-bensini-leirettar-rangfaerslur/ [Skoðað:4. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. janúar 2012