Tejurtir
Ekkert innlent heiti yfir te er til í málinu. Orðið nam hér land um leið og ný lendute fór að flytjast inn á 17. öld en fljótlega var farið að nota það yfir uppáhellingar með innlendum jurtum. Eggert Ólafsson, sem allt vildi hafa sem íslenskast, notar orðið te. Áður fyrr var talað um að gera seyði og við segjum – fáðu þér eitthvað heitt, sem er þó eins líklega komið úr ensku. Fram eftir öllum öldum var þó ekkert heitt drukkið nema helst seyði af jurtum (og hugsanlega öl), hvort sem það var ætlað til hressingar eða lækninga, en það virðist ekki hafa myndast nein hefð kringum jurtatesdrykkju – hvorki varðandi orð, ílát eða tilbúning. Ég veit um trébolla frá Skriðufelli, sem notaður var í fjallferðum, silfurkaleika í kirkjum, tinstaup hjá herramönnum. En úr hverju drakk fólk vatnið, mjólkina og mysuna og seyðið? Líklega var það einhvers konar tréausa, segir Hallgerður Gísladóttir, þegar ég innti hana eftir því.
Fyrsta tejurtin sem hægt er að taka inn er hóffífillinn. Hann fer að blómstra úti strax í janúar þar sem hann er í skjóli. Hann vex í sandi eða möl þar sem jörð hefur verið umbylt, eins og á byggingarsvæðum. Sumir myndu kalla hann illgresi, en ég á sænska vinkonu sem telur hann dásamlegan vorboða. Frjósi eða snjói dregur hann sig til baka, en skþtur svo strax upp kollinum þegar fer að hlýna aftur. Það má tína blómin, með sínum langa og loðna stilk, allan veturinn og á eftir blómunum koma ungu blöðin sem líka eru notuð. Á latínu heitir plantan Tussilago farfara.
Tussis þýðir hósti, agere að reka og farfara þýðir mjölkenndur.19 Hóffífillinn hefur verið nefndur pestarurt og er þekktur fyrir að lækna hósta, þurran hósta og asma og Arnbjörg Linda segir hann góðan fyrir börn. Það er mikilvægt að geta fundið tejurtir fyrir börnin. Þau vilja láta hlúa að sér þegar þau eru lasin. Næst á eftir koma ýmsar jurtir sem hafa fengið að vaxa inni í gróðurskálum eða skþlum, svo sem salvía, ný jarðarberjalauf, sítrónumelissa og jóhannesarrunni.
Í góðum árum má finna þykkblöðunga úti allt árið eins og sortulyng og eini. Þegar klipptir eru víðirunnar má flysja börk af greinum sem eru orðnar tveggja ára eða eldri og eins og meðalfingur að þykkt. Seyði af þessum berki er styrkjandi og linar alls konar verki, enda var aspirín fyrst unnið úr víðiberki. Það er kenning jurtalækna að heilnæmara sé að taka inn áhrif frá plöntunni sjálfri, og jafnvel öllum hlutum hennar, heldur en að einangra efnið sem er fljótvirkast. Börk má auðvitað þurrka og geyma en það er hægt að sækja hann á öllum árstímum af trjánum þegar hans er þörf. Við þurfum að bíða um stund eftir því að villijurtirnar, sem sjá alveg um sig sjálfar, telji óhætt að fara að sýna sig en fjölærar jurtir undir suðurveggjum láta ekki á sér standa. Svo skeður það ótrúlega fljótt að grös í úthaga fara að spretta undir sinunni.
Jurtate má drekka sér til ánægju og heilsubótar árið um kring. Það er skynsamlegt að glugga í jurtabækur, ef eitthvað amar að manni sjálfum eða manns nánustu, og spreyta sig á að setja saman blöndur úr því sem maður á þurrkað frá síðasta sumri eða finnur úti. Ágætt líka að muna að innlendar og erlendar jurtir fást keyptar í heilsubúðum ef eitthvað vantar. Efalítið hafa jurtir heilsubætandi áhrif þegar til langs tíma er litið. En virknin er hæg og ég hef meiri tilhneigingu til að líta á tedrykkju sem fyrirbyggjandi aðgerð heldur en meðal sem ætlast er til að virki fljótt.
Það gerðu líka þeir þrír höfundar sem hafa skrifað bækur til að ýta undir aukna tedrykkju landans. Tvær eru frá 19. öldinni og verður fjallað um þær í kaflanum um lækningar. Sú þriðja er miklu yngri, eftir Björn L. Jónsson lækni og kallast Íslenskar lækninga- og drykkjarjurtir. Björn stingur upp á 10 jurtablöndum til tedrykkju í sinni bók. Hann mælir sérstaklega með blóðbergi, ljónslappa, rjúpnalaufi og vallhumli. Hann vill hafa mest af blóðbergi, miðlungi mikið af hinum tveimur, en minnst af vallhumli því hann sé bragðsterkastur. Í öðrum blöndum eru fjallagrös, gulmaðra, gullmura og silfurmura, birkilauf, beitilyng, aðalbláberjalyng og hárdepla.
Í bókinni telur Björn upp 64 innlendar tejurtir sem er þó engan veginn tæmandi listi. Það er þetta ríkidæmi sem gerir tesöfnunina og tedrykkjuna spennandi. Matthildur Þorláksdóttir næringarráðgjafi vill láta íslenskar jurtir standa í 20 mínútur áður en teið er drukkið til að fá sem mest út úr jurtunum.
Eggert Ólafsson skrifar svolítið um tegerð. Hann vill gera te af rjúpnalaufi, blóðbergi og vallhumli og segir: „...sumir taka jurtirnar heilar, áður en blómið er komið, aðrir í bestu blómsturtíð. Hinir þriðju nema af blómstrin aðeins og er það te bæði sterkast og daunmest; þó er meðalmátinn fjölhæfastur og uppskeran sú einföldust“.20 Hann segir ennfremur að sé rjúpnalauf tekið á haustin skuli tína smáu og dökku blöðin, þau sem rjúpurnar tíni, því þau stærri og ljósgrænni blikni við þurrkinn. Vallhumal vill hann hengja upp í litlum knippum (hann tekur alla plöntuna) og þurrkar hana hangandi á hvolfi. Setur svo lauslega pakkað í ílát og lítur eftir.
Ef jurtirnar fara að slá sig má leggja þær við ofnhita og láta þær jafna sig. Vallhumall er ein af fáum plöntum sem er erfitt að þurrka og það hefur verið enn erfiðara áður fyrr, svo það er ekki nema von að hann orðlengi þetta. Þegar te er gert, heldur Eggert áfram, þarf ekki að saxa rjúpnalaufið og blóðbergið lítið, en vallhumallinn er skorinn og ljót blöð og rifin hreinsuð burt. Sumir taki jafnt af öllum jurtunum en aðrir blóðbergið til helminga og fjórðung af hinum tveim. Líka má hafa 5 parta af blóðbergi, 2 af rjúpnalaufi og 1 af vallhumli. Þverskorna sneið af hvannarót megi gjarnan setja í teið til að bæta bragð og gera minna væmið, enda sé hún heilnæmust allra innlendra jurta.
Bragðið af hvannarótinni finnist ekki fyrr en við þriðju áskenkingu og þar eftir. Eggert talar um „þriðju áskenkingu“. Spurning hvort hann meinar að oft hafi verið hellt upp á sömu jurtir eða ketillinn verið stór og oft skenkt úr honum.
Auk þessara jurta minnist Eggert á hárdepluna, sem áður var kölluð æruprís eða jafnvel læknis æruprís, því flest var það sem hún þótti bæta. Nú hefur hún fallið svo í skuggann fyrir öðrum jurtum að stundum er ekki minnst á hana í erlendum jurtalækningabókum. En hún er afbragðs tejurt. Sé ætlunin að nota tedrykkju sér til heilsubótar eru til ýmsar kenningar um samsetningu. Simpling er þó einfaldasta aðferðin. Hún var í því fólgin að þekkja til hlítar áhrif nokkurra plantna sem eru algengar og vaxa í nágrenninu og nota þær hverja fyrir sig. Því var trúað að sérhver meinsemd líkamans ætti sér plöntu, hverrar mótefni svaraði til veikindanna og gæti læknað þau. Hin gömlu fræði mæltu þó gjarnan með 4 samvirkandi jurtum og skyldi ein vera aðaljurtin og hinar hafa minna vægi. Jurtatesformúlur Eggerts og Björns virðast taka mið af þessu. Þeir sem búa yfir meiri kunnáttu hafa margs konar virkni í sömu blöndu svo jurtirnar upphefji hver aðra, samvirki og mótvirki á víxl, og myndi eins konar lifandi heild. En hér erum við farin að skyggnast inn á spennandi lendur hins forna lækningakerfis. Þá er bara að leggja á brattann, lesa sér til, prófa sig áfram og meta reynsluna. Það er óhætt að hafa opinn huga fyrir jurtum og treysta sjálfum sér og sinni tilfinningu.
Heyrst hefur að plöntur breyti um virkni með tímanum og það má ekki rígbinda sig við gamlar hefðir en samt þarf að taka fullt mark á þeim. Það er sagt að sú planta sem maður þarfnist mest komi til manns og þess vegna borgar sig að veita því athygli, ef planta fer að láta á sér bera í garðinum eða maður dregst að einhverri sérstakri. Það er alls ekki út í hött að taka með sér þurrkaðar tejurtir í utanlandsferðir, svo líkaminn geti aðlagast breyttum aðstæðum smám saman. Þarna hafa fjallagrös líka reynst vel þegar meltingartruflanir gera vart við sig eins og oft vill verða. Þá er gott að geta hitað grasate því læknir er ekki alltaf nærstaddur.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Tejurtir“, Náttúran.is: 23. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/07/tejurtir/ [Skoðað:4. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. nóvember 2007
breytt: 23. nóvember 2014