Jólatré
Jólatréð, sem nú er eitt helsta tákn jólanna a.m.k. um allan hinn vestræna heim a.m.k. er tiltölulega nýkomið til sögunnar sem slíkt. Ekki munu vera meira en rúm hundrað ár, síðan það varð algengt í Evrópu í nokkurri líkingu við það, sem nú er. Fyrstu heimildir, sem þekktar eru um einskonar jólatré, eru frá Strassburg og þar um kring á 16. öld. Er þess m.a. getið, að í herbergi einu hafi verið stillt upp grenitré á jólakvöldið og hengd á það epli, oblátur og gylltur pappír. Snemma á 17. öld ónotast predikari nokkur í Strassburg yfir sætindi og fleira. SLíkt sæmdi ekki jólahátíðinni. Undir lok 17. aldar finnast fleiri ummæli varðandi jólahátíðinni. Mynd frá Nurnberg um 1700 sýnir einskonar vönd af laufgreinum, sem stungið er niður í vatnsker. Á honum hanga smáhlutir, epli, kökur og englamyndir. Annars er nær alltaf um grenitré að ræða.
Hinn fyrsti, sem getur um ljósum prýtt jólatré er Goethe í sögunni Leiden des jungen Werther árið 1744. Fyrsta mynd, sem þekkt er af jólatré með ljósum, er frá Zurich árið 1799. Úr þessu virðist siðurinn fara að verða mjög svo algengur í Þýskalandi, og 1807 eru til sölu á jólamarkaðinum í Dresden fullbúin jólatré prýdd á ýmsa lund, m.a. með gylltum ávöxtum og kertum.
Til Norðurlanda tók jólatréð að berast eftir 1800. Talið er, að fyrsta jólatréð hafi sést í Kaupmannahöfn 1806 eða 1807, og litlu síðar hefur það borist til Svíþjóðar. Það breiðist svo út á 19. öldinni, einkum eftir hana miðja. Siðurinn kemur fyrst fram í borgum og meðal heldra fólks, einsog í Þýskalandi, en berst þaðan út til amúgans og sveitanna.
Um uppruna jólatrésins er flest á huldu. Vafalítið má rekja elstu rætur þess til einhverskonar trjádýrkunar. Í Róm og víðar var t.d. siður allt frá fornöld að skreyta hús sín um nýárið grænum greinum eða gefa þær hver öðrum og þótti það gæfumerki. Sama er að segja um mistilteininn í Englandi. Hið sígræna tré hefur löngum vakið furðu manna og aðdáun og þótt búa yfir leyndardómum.
Kristnar hugmyndir um skilningstré góðs og ills kunna og að hafa blandast hinum eldri. Frá því um 1100 var tekið að sýna helgileiki innan kirkju og utan, þar á meðal söguna um sköpun mannsins, syndafallið og burtreksturinn úr aldingarðinum Eden. Stóð skilningstréð þá tíðast á miðju sviðinu. Það var grænt tré og héngu á því epli og borðar. Líktist það talsvert jólatré, nema kertin vantaði, en svo var einnig um þau jólatré, sem fyrst eru spurnir um.
En hversu sem orðið hefur siður að reisa sígrænt tré í húsum á jólum, er næsta eðlilegt, að það bætti á sig ljósum með tímanum. Kerti voru ævinlega mikið um hönd höfð á jólunum og engin undur, þótt mönnum dytti í hug að reyna einnig að festa þau á tréð. Til Íslands munu allrafyrstu jólatrén hafa borist kringum 1850, og þó aðeins í einstöku hús í kaupstöðum, helst hjá dönskum fjölskyldum. Síðan breiðist siðurinn afarhægt út og mun ekki hafa orðið algengur að marki, fyrr en nokkuð kom fram yfir aldamót. T.d. minnist Jónas Jónasson ekki orði á jólatré í Þjóðháttum sínum, og ekki verður rekist á það í æviminningum fyrir 1900.
Það er raunar mjög skiljanlegt, að siðurinn festi ekki fljótt rætur hér, því að víðast hvar hefur verið ógerlegt ða verða sér úti um grenitré. Þó hafa menn sumstaðar allfljótt fundið lausn á þessu og búið til gervijólatré. Var þá tekinn mjór staur, sívalur eða strendur og festur á stöðugan fót. Á staurinn voru negldar álmur eða boraðar holur íhann og almúnum stungið í. Voru þær lengstar neðst, en styttust uppeftir og stóðu á misvíxl. Á þeim voru kertin látin standa. Allt var venjulega málað, oftast grænt, og tínt sortulyng, beitilyng eða einir og tréð er skreytt með því. Síðan voru mislitir pokar hengdir á.
Heimildir hafa fengist um þesskonar tré a.m.k. frá því milli 1880-90, en þeim hefur fjölgað mjög eftir aldamót, enda var þá farið að reka áróður fyrir því í jólablöðum Unga Íslands, að menn öfluðu sér jólatrés og kennt að búa til skraut á það. Þessi tré voru aðallega notuð í svietum og þorpum, þar til fyrir örfáum áratugum, að grenitré fóru að flytjast í stórum stíl. Sumstaðar var útbúið eitt stórt tré fyrir heila sviet, og stóð það þá í samkomuhúsi eða öðru sameiginlegu húsi sveitarinnar eða þorpsins.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Jólatré“, Náttúran.is: 18. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2007/04/12/jlatr/ [Skoðað:28. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. apríl 2007
breytt: 19. desember 2014