Um þau er naumast meira vitað en á öðrum stöðum, enda engar samtímaheimildir til. En sé eitthvert mark takandi á Íslendingasögunum varðandi þetta tímabil, skal þess getið, sem helst mætti af þeim ráða:

Þótt skilyrði til ölgerðar hafi verið óhæg vegna takmarkaðrar konyrkju, virðast menn ekki hafa látið það á sig fá, því að nálega hið eina, sem ráða má af sögunum um jólahald í heiðni, lýtur að jóladrykkju, jólaöli og jólaveislum. Það hefur þótt sjálfsagt að brugga jólaöl. Í Eyrbyggju segir, að eftir að þeir Þóróddur skattkaupandi höfðu farið í skreiðarferð, “um veturinn litlu fyrir jól”, buðu þau Kjartan og Þuríður á Fróðá nábúum sínum þangað til erfis. “Var þá tekið jólaöl þeirra og snúið til erfisins.” Hér er sagt frá því án nokkurra útskýringa, að á þeim bæ hafi verið til jólaöl svo mikið litlu fyrir jól, að það entist heimilisfólki og nágrönnum í marga daga.

Gildir bændur hafa haldið jólaveislur og boðið til þeirra ættingjum, nágrönnum og öðrum vinum. Í Víga-Glúms sögu segir, að þegar Hreiðar stýrimaður hafði dvalist með Ingjaldi bónda á Þverá eigi lengi um veturinn. “þá varð Hreiðar var við, að þar skyldi vera jólaveisla fjölmenn”. Í þessu felst, að Ingjaldur hefur boðið til sín mörgu fólki um jólin, því að varla var ástæða til að taka fram, að veislan skyldi vera fjölmenn, ef ekki hefðu aðrir átt að sitja hana en heimafólk, jafnvel þótt margt væri á heimili. Þá hefur þótt vænlegt til að vingast við menn og hljóta liðsinni að bjóða þeim til jóladrykkju. Slíkt gerðu þeir Þórður skáld Kolbeinsson og Dálkur á Húsafelli til að fá liðveislu Þorsteins Kuggasonar gegn Birni Hítdælakappa og það með hálfs árs fyrirvara: “Nú þótti Þórði vænt horfa. Og fyrir þessi vingarheit Þorseins býður Dálkur honum til jóladrykkju og bað hann vera svo fjölmennan sem hann vildi. Þetta var um vorið fyrir þing.“

Eftirtektarvert er, hve mönnum er mikið í mun að geta haldið til jólanna bæði í drykk og húsbúnaði. Þegar Hreiðar stýrimaður kemst að fyrirhugaðri jólaveislu, reynir hann að vingast við Ingjald bónda, kallar hann í útibúr og biður hann velja af varningi sínum. “Ingjaldur lést engis girnast fjár hans. Hreiðar svarar:

Ég hefi þó hugleitt nokkuð hvað þú þarft af oss að þiggja. Ég hefi komið á nokkra bæi hér í Eyjafirði, þá er bestir eru, og sé ég engi herbergi slík sem hér. En skálabúnað hefir þú eigi svo góðan, að eigi sé þvílíkur á öðrum bæjum.” Hann tók úr sínum hirslum svo góðan skálabúnað og gaf Ingjaldi sem engi hafði betri áður komið hingað til Íslands. Ingjaldur þakkaði honum vel, og var nú allgott vinfengi þeirra I millum.”
Hinn einý ykki höfðingi, sem ímugust hafði á útlendingum og einkum kaupmönnum, stóðst ekki freistinguna, þegar honum voru boðnir þvilíkir gripir.

Ekki sést þetta síður í sögum frá Grænlandi, þar sem verið hefur enn örðugara um öll aðföng til jóla. Í Fóstbræðrasögu segir, að “sjaldan voru drykkjur á Grænlandi”. En “þá er að jólum dregur, lætur Þorkell mungát heita, því að hann vill jóladrykkju hafa og gera sér það til ágætis. . . Þorkell bauð þangað vinum sínum að jólum, og var þar fjömennt. Skúfur af Stokkanesi og Bjarni voru þar um jólin. Þaðan var hafður húsbúnaður og ker og klæði um jólin. Nú drukku menn um jólin með mikilli gleði og skemmtan.”
Eiríkur rauði tók við Þorfinni karlseni og félögum hans til vetursetu og hélt þá vel. “ En er dró að jólum, tók Eiríkur fæð mikla og var óglaðari en hann átti vana til.” En sú var orsökin, trúði hann Karlsefni fyrir, “að mér þykir ugglegt, þá er þér komið annars staðar, að það flytjist, að þér hafið engi jól verri haft en þessi, er nú koma og Eiríkur hinn rauði veitti yður í Brattahlíð á Grænlandi.”

En úr þessu rættist þó, því að þeir Karlsefni höfðu á skipi sínu bæði malt og korn til ölgerðar, og var gerð hin sæmilegasta veisla, “svo að menn þóttust trautt þvílíka rausn séð hafa í fátæku landi.”
Þá virðist mega finna dæmi frá Íslandi um hið merkilega atriði, að þrælar hai notið jafnréttir á jólum og áður var nefnt í sambandi við fornar hátíðir í Rómaborg og víðar. Í Eyrbryggju segir: “ Þenna vetur um jól hafði Þórólfur drykkju mikla og veitti kappsamlega þrælum sínum.”

Hann veitir þeim að vísu sem ákafast til að fá þá til að fremja illvirki, en heitir þeim jafnframt frelsi að launum. Það er aðeins lögð áhersla á, að hann veitti þeim kappsamlega, en engin orð höfð um, að hann byði þeim sérstaklega til drykkjunnar. Mun það enda hafa verið venja, að þrælar tækju fullan þátt í jólagleðinni með húsbændum sínum.

Úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson.

Birt:
21. desember 2013
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Heiðin jól á Íslandi“, Náttúran.is: 21. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/12/hei-jl-slandi/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: