Afmælishátíðir eru eldforn siður. Einkum hafa menn eftir að tímatalsþekking jókst nægilega haldið upp á afmælisdaga látinna ættingja. Afmælisdagur þjóðhöfðingja var og víða hinn opinberi þjóðhátíðardagur einsog hjá keisaranum í Róm og drottningunni á Englandi.

Það var því engin furða, þótt menn tækju snemma að velta fyrir sér, hver væri fæðingardagur Jesú Krists. Um það er hinsvegar ekki einn staf að finna í heilagri ritningu svo að þessvegna gæti hann eins verið borinn um mitt sumar. Enda taldi hin kristna kirkja á þeim tímum mestu heiðni að halda hátíðlegt upphaf hins jarðneska holdlega lífs. Hin sanna fæðingarstund var miklu fremur sú, er menn öðluðust eilíft líf. Enda var dánar- og uppstigningardagur Krists rækilega tímasettur í Bíblíunni.

En þetta sjónarmið var ekki jafneiginlegt hinum óbreytta kristna manni, og frá byrjun þriðju aldar eða jafnvel fyrr höfum við spurnir af, að menn hafa reynt að tímasetja fæðingu Jesú við 6. janúar, 23. mars, 9. apríl. 20. apríl 20. maí, 17.nóvember og 25. desember. Sá dagur, sem mestri útbreiðslu náði í fyrstu, var 6. janúar. Í því gat raunar fólgist nokkur rökvísi, því hafi Ágústus keisari ætlað að láta skrásetja alla heimsbyggðina um það leyti, sem María ól Jesú, mátti ætla, að það hafi verið í byrjun árs. Útbreiðsla hans var mest í Egyptalandi og Grikklandi, og í byrjun 4. Aldar mun hann hafa hlotið viðurkenningu kirkjunnar í austurhluta Rómaveldis. Enn í dag er það 6. janúar sem fæðingarhátíðar Krists er minnst í grísku og rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni.

Í vesturhluta Rómaveldis mun hann og nokkuð hafa verið haldinn hátíðlegur sem slíkur í byrjun fjórðu aldar. En hann varð brátt að víkja um set fyrir öðrum degi.
Fyrsta örugga vitneskjan um, að 25. desember sé talinn fæðingardagur Krists, er í rómversku almanaki frá árið 354. Þar er þó ekki getið neinnar kirkjulegrar hátíðar, og það er ekki fyrr en um 440 sem æðstu menn kirkjunnar í helstu höfuðstöðvum hennar svo sem Róm, Jerúsalem og Alexandríu ákveða, að hann skuli haldinn hátíðlegur opinberlega sem fæðingardagur Herrans, og afneituðu þann veg endanlega hinum eldri kenningum um heiðingleik afmælishátíða.

Ástæðan fyrir þessari ráðstöfun var sú, að um þetta leyti var 25. desember sjálfur sólhvarfadagurinn, eftir að júlíanska tímatalið var búið að skekkjast í nokkrar aldir. En jafnlengi hafði sá dagur verið haldinn hátíðlegur sem „fæðingardagur hinnar ósigrandi sólar“. Þessi sóldýrkun var svo gerð að ríkistrú á dögum Árelíanusar keisara (270-275). Í henni kemur raunar fram sú frumskoðun, að sólin sé móðir og uppspretta alls lífs á jörðinni.
Ekki fór hjá því, að hinir skemmtanafúsu Rómverjar drægju til þessa nýja dags ýmsa siði eldri hátíða um svipað leyti, uns hann var ásamt nýársdeginum orðinn helsti og vinsælasti tyllidagur ársins. En eftir að Konstantínus mikli gefur út trúfrelsisboðið í Mílanó 313 og tekur að hlynna að kirkjunni á ýmsa lund, og sérstaklega eftir að kristnin er gerð að ríkistrú og kirkjan að ríkiskirkju, fara hagsmunir kirkjunnar og keisaravaldsins æ meir saman.

Kirkjan beitti nú með aðstoð keisaravaldsins sinni alkunnu aðferð að klæða vinsæla alþýðlega hluti í kristilegan búning og gerði fæðingardags ólarinnar með öllum hans fylgifiskum að fæðingarhátíð Krists. Fornkristinn rithöfundur hefur gefið þessa hispurslausu lýsingu:
„Ástæðan til þess, að forfeður vorir færðu hátíðina frá 6. janúar til 25.desember, var þessi: Heiðingjarnir voru vanir að halda hátíðlega fæðingu sólarinnar og kveiktu elda við þau tækifæri. Kristnir menn tóku einnig þátt í leikum þeim og gleði, sem þessu fylgdi. Þegar hinir kristnu kennimenn sáu, að hátíðin dró kristna menn að sér, sáu þeir svo um, að hin sanna fæðingarhátíð færi fram þann dag.“

Í áróðrinum fyrir þessari breytingu á merkingu hátíðarinnar var því m.a. haldið fram, að Kristur væri hin eina sanna sól, sól réttlætisins. Og þar sem dagurinn hafði verið helgaður hinni ósigrandi sól, hver var þá meir ósigrandi en Herrann, sem hafði sigrað dauðann og sjálfur sagst vera ljós heimsins?

Á hinn bóginn þurfti líka að réttlæta þetta fyrir þeim, sem einlægir voru í trú sinni og vissu þess engan stað í heilagri ritningu, að Kristur væri fæddur 25. desember. Það var m.a. gert með kænlegri reikningslist. Ein sönnunin var sú, að samkvæmt guðspjöllunum átti boðun Maríu sér stað þá er Elísabet hafði gengið með Jóhannes skírara sex mánuði undir belti. Nú var látið svo sem Sakarías hefði verið æðsti prestur (þótt hann muni aðeins hafa verið venjulegur prestur), en æðstu prestarnir stigu aðeins inn í hið allra hekgasta einu sinni á ári, þ.e. hinn mikla iðrunardag gyðinga 25. september. Á þeim stað hafði Gabríel erkiengill birst Sakaríasi og boðað honum þungun Elísabetar 25. september plúst sex mánuðir plús níu mánuðir gaf útkomuna 25. desember.

Með þessu hafði nú kirkjan tekið að sér eina vinsælustu gleðihátíð almennings og klætt hana í sína yfirhöfn. En undir þeirri skikkju lifði eftir sem áður var hin upprunalega hátíð með ævafornum siðum og margslungnum venjum. Enda hefst nú þegar barátta kirkjunnar fyrir því að kristna innihald hennar og afnema heiðinglega þætti. Strax á 4. öld segir Ambrosíus biskup svo um þetta:
„Það er óguðlegt að formyrkva sál sína í víni, að þenja út búk sinn með mat og flækja limi sína í dansi.“
Sú barátta fór fram víða um heim og einnig hér uppi á Íslandi.

Úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson.

Birt:
23. desember 2013
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Kristnun jóla“, Náttúran.is: 23. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/12/kristnun-jla/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: