Hún er 29. september. Áður höfðu aðrir dagar verið tilnefndir sem helgaðir voru Mikjáli höfuðengli. En árið 813 á kirkjuþinginu í Mainz var þessi dagur ofan á. Þá var staðfest eða látið svo heita, að þann dag hefði Mikjálskirkja í Rómaborg verið vígð árið 493. Margskonar siðir voru tengdir við Mikjálsmessu um allan hinn katólska heim, svo sem uppskeruhátíðir, enda er hún allskammt frá jafndægri á hausti.

Á Íslandi var Mikjáll mikið tignaður sem annarsstaðar og margar kirkjur honum helgaðar. Sagan segir, að Þangbrandur trúboði hafi haldið sína fyrstu messu á Íslandi þennan dag. Tjáði hann þá Halli af Síðu, að Mikjáll væri af Guði til þess settur að taka á móti sálum kristinna ásamt Sanktipétri í himnaríki. Það er því næstum grátbroslegt, að sláturtíð skyldi fyrrum að jafnaði hefjast með Mikjálsmessu. Áður var minnst á, að svokallaðar slægjur, þ.e. glaðningur í mat eða drykk eftir lok engjasláttar, hefðu oft verið hafðar á Mikjálsmessu. Annar þáttur í atvinnulífinu henni tengdur var upphaf haustvertíðar á Suðurlandi.
Mikjálsmessa var numin úr tölu helgidaga árið 1770 einsog margir aðrir messudagar fornir.

Mynd: Mikjáll höfuðengill eftir Fra Angelico 1424-1425. Tempera og blaðgull á við. Verkið er í eigu safns Dr. Rau í Köln.

Birt:
29. september 2014
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Mikjálsmessa“, Náttúran.is: 29. september 2014 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/mikjlsmessa/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 15. nóvember 2014

Skilaboð: