Svo nefnist annar mánuður vetrar, sem hefst með mánudegi í 5. viku vetrar eða á bilinu 24. nóvember til - 24. desember. Í Snorra Eddu heitir hann hinsvegar frermánuður og í almanaki Guðbrands og Arngríms heitir desember einfaldlega skammdegismánuður.
Nokkuð óhætt mun að fullyrða, að nafnið eigi skylt við orðið jól einsog t.d. lýsi við ljós. Ýlir er alveg hljóðrétt samsvörun við gotneska mánaðarheitið jiuleis. Það orð kemur reyndar aðeins fyrir í sambandinu fruma jiuleis, sem er látið ná yfir síðari hluta nóvember og fyrri hluta desember. Það gæti annað tveggja merkt fyrri jólmánuður eða mánuðurinn fyrir jólmánuð. Tengslin við hina fornu jólahátíð eru því auðsæ, en tímasetning hennar hefur hinsvegar verið mjög umdeild einsog greint mun frá á sínum stað.

Birt:
26. nóvember 2013
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Ýlir“, Náttúran.is: 26. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/lir/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: