Louise Bugnet er rós ársins 2011
Áhugi á rósarækt hefur vaknað hér á landi á undanförnum árum. Lengi hefur ræktun rósa þótt vandasöm og margir orðið fyrir vonbrigðum af því að kaupa rósir, þar sem innkaup garðplöntustöðva hafa gjarnan beinst að blómfögrum en viðkvæmum rósayrkjum frá Danmörku og Hollandi sem ekki verður langra lífdaga auðið í umhleypingasamri íslenskri veðráttu. Hins vegar hefur komið í ljós með starfi Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands að til er fjöldi fagurblómstrandi rósayrkja sem þrífast vel hér á landi og eru að fullu harðgerðar. Tilraunir í rósagarði klúbbsins í landi Skógræktarfélags Hafnarfjarðar í Höfðaskógi og samsvarandi tilraunir hjá mörgum meðlimum klúbbsins hafa leitt þetta í ljós. Engin ástæða er fyrir Íslendinga að neita sér um að rækta ilmandi og litfagrar rósir sem sumar hverjar blómstra langt fram á haust.
Undanfarin ár hafa félagar í Rósaklúbb Garðyrkjufélags Íslands kosið rós ársins í almennri atkvæðagreiðslu. Í ár hlaut kanadíska blendingsrósin „Louise Bugnet“ flest atkvæði. Rós þessi er afar harðgerð og vex vel hér á landi. Hún ber þéttfyllt, ilmandi blóm sem opnast úr rauðbrydduðum knúppum og slær bleikum lit blómið í fyrstu en verður síðan fagurhvítt. Rósin hefur verið til sölu í mörgum garðyrkjustöðvum á síðustu árum.
„Louise Bugnet“ er í hópi rósa sem franskættaði skólameistarinn og rithöfundurinn Georges Bugnet kynbætti sjálfum sér og öðrum til mikillar ánægju og gaf heiminum. Auk rósa tókst honum að kynbæta epli, plómur, kirsuber og ýmsar tegundir blómstrandi runna og fjölæringa með það fyrir augum að þola mikla vetrarkulda sem verða í Albertahéraði í miðhluta Kanada, ekki langt frá þar sem Stephan G. Stephanson bjó. Hann tók aldrei einkleyfi á þesum yrkjum sínum og auðgaðist ekki af ræktun þeirra. Það gerðu aðrir enda hafa yrkin sem hann þróaði reynst afar vel um allan hinn norðlæga heim. G. Bugnet lést árið 1981, 102 ára gamall.
Félagar Rósaklúbbsins gátu valið úr fimm rósum sem voru tilnefndar, hinar eru finnska þyrnirósayrkið „Ruskela“, íslenski ígulrósablendingurinn „Skotta“ – sem áður var seld ranglega sem kanadíska rósayrkið ´Wasagaming´; meyjarósin - Rosa moyesii „Eddie‘s Jewel“ og bjarmarósin - Rosa x alba ‘Gudhem‘ sem fannst við klaustrið Gudhem í suður Svíþjóð fyrir nokkrum árum og fengið nokkuð skjóta útbreiðslu síðan. Allar þessar rósir þrífast prýðilega í íslenskum görðum.
Rósaklúbbur Garðyrkjufélags Íslands var stofnaður árið 2002. Formaður klúbbsins er Samson B. Harðarson. Upplýsingar um starfsemi klúbbsins er að finna á heimasíu félagsins www.gardurinn.is.
Birt:
Tilvitnun:
Valborg Einarsdóttir „Louise Bugnet er rós ársins 2011“, Náttúran.is: 17. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/11/17/louise-bugnet-er-ros-arsins-2011/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.