Vistvænt metanól komið á markað
Eldsneytisverksmiðja Carbon Recycling International (CRI) hefur hafið framleiðslu og er sala á blönduðu vistvænu metanóli hafin á bensínstöð N1 í Fossvogi. Til stendur að eldsneytið fari í frekari dreifingu innan nokkurra vikna, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Eldsneytið er framleitt úr koltvísýringi og orku úr jarðhita frá HS orku í Svartsengi, og fullyrða forsvarsmenn fyrirtækisins að þetta sé í fyrsta sinn sem vistvænt eldsneyti sé framleitt með þessum hætti í heiminum.
Metanólið sem framleitt er í verksmiðjunni er blandað bensíni og hentar þannig öllum bensínbílum, í samræmi við íslenskar og evrópskar reglur.
Það er selt á bensínstöð N1 við Kringlumýrarbraut. N1 og CRI undirrituðu nýlega samkomulag um markaðssetningu eldsneytisins hér á landi og er undirbúningur hafinn að dreifingu eldsneytisins á fleiri stöðvar.
CRI var stofnað árið 2006 og er með höfuðstöðvar í Borgartúni. Framkvæmdir við eldsneytisverksmiðjuna í Svartsengi hófust í lok árs 2010.
Birt:
Tilvitnun:
sh „Vistvænt metanól komið á markað“, Náttúran.is: 16. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/11/16/vistvaent-metanol-komid-markad/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. nóvember 2011