Samtök lífrænna neytenda - starfshópurinn Opinber stefnumótun - sendi eftirfarandi umsögn til Nefndasviðs Alþingis föstudaginn 11. nóvember sl. (Sjá niðurstöðu vinnu nefndar um eflingu græns hagkerfis hér.)

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi, 7. mál.

Samtök lífrænna neytenda (SLN) þakka Atvinnuveganefnd Alþingis fyrir að leita eftir umsögn samtakanna varðandi tillögu til þingsályktunar um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi, 7. mál.

SLN fagna því að þingsályktunartillagan sé tekin til umræðu og lýsa yfir eindregnum stuðningi við hana. Mörg markmiðanna sem þar eru sett fram eru í fullu samræmi við stefnu SLN. Sérstaklega er mikilvægt og ánægjulegt að sjá hversu heildræn og víðtæk tillagan er, allt frá greiningu til aðgerða.

Að þessu sögðu eru þó nokkur atriði sem SLN telur nauðsynlegt að bæta við þingsályktunartillöguna.

Almennar athugasemdir

Verksmiðjubúskapur

SLN telur mikilvægt að verksmiðjubúskaður sé aðgreindur frá landbúnaði í opinberri stjórnsýslu, þar með talið styrkjakerfinu og að þingsályktunartillagan, svo og skýrslan um eflingu græna hagkerfisins, taki tillit til þess að iðnvæddur landbúnaður sé staðreynd á Íslandi og taki afstöðu til þess. Til eru erlendar skilgreiningar sem hafa má til hliðsjónar og ennfremur er verksmiðjubúskapur háður reglugerð um mengandi starfsemi (nr. 785/1999).

Rétt er að benda á að nú þegar eru komin verksmiðjubú hér á landi sem falla undir flokk stórra verksmiðjubúa í BNA samkvæmt skilgreiningu Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna (sjá: http://www.epa.gov/npdes/pubs/sector_table.pdf) en þar eru verksmiðjubú með fleiri en 2.500 svín skilgreind sem stór. Til samanburðar er dæmi um verskmiðjubú í svínarækt á Íslandi með leyfi fyrir 8.000 dýr. Þrátt fyrir það virðist vera útbreiddur sá misskilningur að annað hvort séu verksmiðjubú ekki til á Íslandi eða að þau séu ekki stór í samanburði við það sem gerist erlendis.

Minna má á að iðnvæddi landbúnaðurinn er talinn vera einn helsti mengunarvaldurinn þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda (áætlað 25% af heildarlosun). Verksmiðjubú losa mest metan (32% af losun metans kemur frá landbúnaðinum) að ótalinni beinni umhverfismengun. Rétt er að benda einnig á hve gríðarlega ósjálfbær og orkufrek iðnvædd landbúnaðarframleiðsla er en hún þarf 10 kaloríur af jarðolíu til að framleiða 1 kal. af matarorku (food energy) og á verksmiðjubúi þarf 50 kal. af jarðolíu til að framleiða 1 kal. af nautakjöti. Til samanburðar þarf ekki nema 1 kal. til að framleiða 2-3 kal. af matarorku í lífrænu kerfi (G. Eshel and Pamela Martin Earth Interactions, December 2006 (University of Chicago) Diet, Energy Global Warming - sjá http:// journals.ametsoc.org/doi/pdf/10.1175/EI167.1).

Ræktun á erfðabreyttum lífverum

SLN telur grundvallaratriði að öll útiræktun á erfðabreyttum lífverum verði bönnuð (“moratorium”) eins og mörg lönd og héruð í Evrópu hafa gert (sjá http://www.gmo-freeregions.org/), þar sem slíkt á enga samleið með lífrænni ræktun og grænu hagkerfi, þar sem hún er í engu sjálfbær og í henni felast órannsakaðar ógnir sem er áhætta sem að engu leyti er réttlætanleg. Það er margsannað að erfðabreyttar lífverur dreifa sér í náttúrunni með tilheyrandi vandamálum, meðal annars með því að smita og eyðileggja akra í annarri ræktun og því að fyrirtækin sem selja þær hafa einkaleyfi á þeim og geta því innheimt höfundarlaun (royalty) af smituðum ökrum.

Athugasemdir við tilteknar greinar tillögunnar

Grein 2

SLN leggja mikla áherslu að málaflokkurinn heyri undir forsætisráðuneytið svo tillögurnar nái til allra ráðuneyta og stofnana.

Grein 6

SLN fagna sérstaklega nýjum aðferðum við útreikninga á velgengni þjóða sem byggja á heildrænni og sjálfbærri hugsun sem er í fullu samræmi við lífræna hugmyndafræði. Án þeirra verður erfitt að breyta núverandi ástandi þar sem mælingarnar á þjóðarframleiðslu stýra þróun mála að stórum hluta og byggjast í dag eingöngu á neyslu óháð því hve skaðleg eða ósjálfbær hún er og gefa því ranga mynd af raunverulegri stöðu mála í þjóðfélaginu. Að auki er ekkert tillit tekið til framleiðslu sem er ekki seld og má þar helst nefna framleiðslu til eigin nota t.d. á heimilum.

Grein 7

SLN telur gríðarlega mikilvægt að umhverfiskostnaður sé tekinn til greina þegar kostnaður/arðsemi framkvæmda er reiknuð og þar af leiðandi þegar arðsemi ólíkra framkvæmda er borin saman.

Greinar 8-12

Innleiðing vistvænna innkaupa í samræmi við stefnu um vistvæn innkaup ríkisins hlýtur þar með að leiða til aukinna innkaupa á lífrænum vörum þar sem lífræn framleiðsla er mun vistvænni en ólífræn (“hefðbundin”) framleiðsla.

Grein 24

Viðbót við texta (feitletrað):

“Nýju ákvæði verði bætt í reglur Starfsorku þannig að heimilt verði að samþykkja Starfsorkusamninga vegna nýrra umhverfisverkefna og ennfremur umhverfisverkefna sem þegar eru til staðar svo sem lífræns landbúnaðar sbr. tillögu 33.”

Rökstuðningur: SLN telur nauðsynlegt að það komi ótvírætt fram að lífrænir búskaparhættir séu umhverfisverkefni svo Starfsorkusamningar nái til þeirra.

Grein 25

Viðbót við texta (feitletrað):

“Gerður verði langtímasamningur um stuðning við Grænfánaverkefnið, með það að markmiði að tryggja aðgengi skóla að verkefninu og að sjálfbærnimennt, þ.m.t. um lífræna búskaparhætti, verði eðlilegur hluti af öllu skólastarfi.”

Rökstuðningur: SLN telur nauðsynlegt að það komi ótvírætt fram að lífrænir búskaparhættir séu sjálfbærir (sbr. rannsóknir Rodale Institute http://www.rodaleinstitute.org/fst30years) og menntun um sjálfbærni nái því til þeirra.

Greinar 25-28

Ný grein sem bætist við greinar 25-28 (kafla 3.4):

“Stofnuð verði sérstök deild í lífrænum landbúnaði við landbúnaðarháskóla hér á landi til að gefa lífrænum bændum möguleika á að standa ólífrænum bændum jafnfætis meðal annars hvað varðar rannsóknir og framleiðni.”

Rökstuðningur: Núverandi námsframboð hér á landi sem snýr að lífrænum landbúnaði er afar takmarkað. Ef auka á lífræna ræktun hér á landi verða rannsóknir og kennsla að styðja við það.

Grein 29

Enda hljóti framkvæmd þessarar tillögu að draga úr þróun í átt til verksmiðjubúskapar.

Grein 30

Enda styður framkvæmd þessarar tillögu þá þróun að leiðrétta þann ranga verðmun sem er á lífrænum og “ólífrænum” matvælum sem er tilkominn vegna þess að framleiðendur ólífrænna matvæla borga einungis hluta af raunverulegum kostnaði við framleiðsluna. Þá er átt við að í kostnaðarverðinu er hvorki tekið tillit til allra þeirra styrkja sem ólífrænir bændur fá m.a. í gegnum niðurgreiðslu á efnum eins og áburði og eitri, né mengunar, náttúruspjalla, óheilnæmi afurðanna fyrir neytendur, óréttlætanlegri og jafnvel ólöglegri meðferð sláturdýra.

Grein 35

Í beinu framhaldi er nauðsynlegt að framboð á lífrænum áburði verði nægilegt því að í dag er hætta á að lífræn framleiðsla í ylrækt leggist af hér á landi því framboð á lífrænum áburði er langt undir þörfum.

Grein 39

Viðbót við texta (feitletrað):


“Ráðist verði í greiningu og heildarendurskoðun á löggjöf um úrgangsmál, m.a. með það að markmiði að fjarlægja hindranir í vegi endurvinnsluiðnaðar á Íslandi.”

Rökstuðningur: Svo betur megi endurnýta þann úrgang sem til fellur og til að hvetja heimili og fyrirtæki til að flokka úrgang (án þess að þurfa að auka útgjöld sín).

Virðingarfyllst,

f.h. Samtaka lífrænna neytenda

Oddný Anna Björnsdóttir
Fulltrúi framkvæmdanefndar
lifraen@lifraen.is
www.lifraen.is

Birt:
14. nóvember 2011
Tilvitnun:
Oddný Anna Björnsdóttir „Umsögn Samtaka lífrænna neytenda um tillögu til þingsályktunar um eflingu græns hagkerfis“, Náttúran.is: 14. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/11/14/umsogn-samtaka-lifraenna-neytend-um-tillogu-til-th/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: