Borgarafundur um náttúruvernd og auðlindanýtingu í stjórnarskrá
Stjórnarskrárfélagið stendur fyrir borgarafundi í Iðnó þriðjudagskvöldið 15. maí frá kl. 20:00 til 22:00 undir heitinu: „Náttúran, auðlindirnar og nýja stjórnarskráin – Hvaða áhrif mun ný stjórnarskrá hafa á auðlindanýtingu og náttúruvernd?“
Tilefnið er boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarp að nýrri stjórnarskrá í haust.
Frummælendur og þátttakendur í pallborðsumræðum:
- Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar
- Gísli Tryggvason, lögmaður
- Kristinn Einarsson, yfirverkfræðingur auðlindanýtingar á Orkustofnun
- Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar
- Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur,
- Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra,
Fundastjóri: Helgi Seljan, fréttamaður
Þórir Baldursson tónlistarmaður leikur af fingrum fram á Hammond-orgel meðan fundargestir koma sér fyrir.
Til grundvallar yfirskrift fundarins eru viðeigandi greinar frumvarps Stjórnlagaráðs að stjórnskipunarlögum, ásamt skýringum. Þar er helst nefna, í númeraröð: 15. gr., 33. gr., 34. gr., 35. gr. og 36. gr. Sjá hér að neðan:
15. gr. Upplýsingaréttur.
Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrá setja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.
Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.
Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, örygg is ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda.
Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.
33. gr. Náttúra Íslands og umhverfi.
Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.
Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu and rúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúru minjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum.
Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.
Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.
34. gr. Náttúruauðlindir.
Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.
Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns og virkjunarréttinda, jarðhita og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.
Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafn ræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlind unum.
35. gr. Upplýsingar um umhverfi og málsaðild.
Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og náttúru og áhrif fram kvæmda þar á. Stjórnvöld og aðrir skulu upplýsa um aðsteðjandi náttúruvá, svo sem umhverfismengun.
Með lögum skal tryggja almenningi aðgang að undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfi og náttúru, svo og heimild til að leita til hlutlausra úrskurðaraðila.
Við töku ákvarðana um náttúru Íslands og umhverfi skulu stjórnvöld byggja á megin reglum umhverfisréttar.
36. gr. Dýravernd.
Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda í útrýmingar hættu.
Ljósmynd: Illagil að Fjallabaki, ©Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Borgarafundur um náttúruvernd og auðlindanýtingu í stjórnarskrá“, Náttúran.is: 14. maí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/05/14/borgarafundur-um-natturuvernd-og-audlindanytingu-i/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 16. maí 2012