Plága ofur-illgresis sem breiðist hratt út og sem á möguleika á því að taka yfir ræktanlegt land í Bandaríkjunum verður ekki svo auðveldlega stöðvuð, og bændur og embættismenn þurfa að breyta starfsháttum sínum ef takast á að varðveita matvælaframleiðsluna, sögðu landbúnaðarsérfræðingar núna á fimmtudaginn.

„Þetta er flókið vandamál,“ segir illgresissérfræðingurinn og vísindamaðurinn David Shaw í innleggi sínu á ráðstefnu illgresissérfræðinga í Washington sem vinnur að því að gera áætlun til að vinna gegn illgresi sem hefur þróað með sér ónæmi gagnvart plöntueitri.

Ónæmi hjá illgresi nær nú til meira en 12 milljóna hektara lands í Bandaríkjunum og hefur einkum áhrif á landbúnaðarhéröð sem gegna lykilhlutverki í suðvesturhluta landsins og í miðvesturríkjunum þar sem ræktaður er maís og sojabaunir.

Margar verstu illgresistegundirnar, sumar sem geta orðið meira en sex feta háar, geta dregið hratt úr uppskeru korntegunda, en illgresið er orðið ónæmt fyrir hinum vinsæla illgresiseyði Roundup, sem byggir á glýfosfati, auk þess sem ónæmið nær til fleiri tegunda plöntueiturs.

Roundup illgresiseyðirinn frá fyrirtækinu Monsanto hafði dugað vel í mörg ár. Þessi illgresiseyðir varð ríkjandi á markaðnum með markaðssetningu á "Roundup Ready" korntegundum, sem Monsanto hafði þróað til að þola illgresiseyðinn, sem gerði bændum auðvelt um vik að stjórna ökrum sínum.

En núna hefur ofur-illgresið þróað ónæmi gagnvart Roundup, og bændur eru í vanda um hvernig þeir geta barist gegn illgresinu.

„Við höfum ekki yfir að ráða næsta stigi tækniþróunar. Við þurfum að leita aftur til baka í grundvallaratriðin," segir Shaw, sem stjórnar neyðarteymi sem starfar með Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna, um hvernig skal höndla vandamál er tengjast ónæmi illgresis.

Nokkrir bændur ræddu um baráttu sína á ráðstefnunni, og málið var einni rætt af sérfræðingum Landsbúnaðarráðuneytisins og ráðgjöfum.

„Þetta er það mál sem er efst á baugi nú," sagði Chuck Farr ráðgjafi í Arkansas. „Þetta er áskorun sem við þurfum að mæta á hverjum degi á hverjum akri."

Harold Coble, sem er landbúnaðarsérfræðingur og illgresisvísindamaður hjá Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna, kallaði vandamálið um ónæmi illgresis, vanda sem setur nýjar leikreglur, og hann sagði að bændur yrðu að fara að stunda fjölbreyttari landbúnað. Of margir hafa reitt sig einvörðungu á ýmiss konar efnanotkun of lengi, sagði hann.

Sameiginleg skýrsla frá bandaríska Landbúnaðarráðuneytinu og Weed Science Society of America, sagði: „umtalsverður hluti ræktenda er ekki að stunda nægilega virka stýringu á notkun plöntueiturs til að koma í veg fyrir ónæmi." Slík „ofnotkun" á plöntueitri er að gera vandann verri, og hann versnar ár frá ári.

Það verða a.m.k. 20 ár þangað til einhver ný efnasambönd munu verða fáanleg á markaðnum fyrir bændur til að berjast gegn illgresi, sagði Coble.

Margir illgresissérfræðingar mæla með því að farið sé aftur út á þá braut að takmarka ræktun á vissum hluta landsins (hvíla land), sem er almennt ekki vinsælt þar sem það getur valdið jarðvegseyðingu. Sumir sérfræðingar mæla með notkun „hyljandi" korntegunda, sem eru settar niður til að hylja akurinn eftir uppskeruna til að koma í veg fyrir útbreiðslu illgresis á meðan þær skila einnig næringu í jarðveginn.

Iðnaðurinn er einnig að skoða möguleikana á því að nota margar tegundir plöntueiturs í einu, til þess að geta barist gegn mismunandi magni illgresis. Sérfræðingar hafa rætt um að nota tækjabúnað sem safnar illgresi, og illgresisfræjum við uppskeruna ásamt korninu, þannig að hægt sé að fjarlægja sáðkorn illgresisins og eyðileggja það.

Af því að aðferðir til skemmri tíma geta verið kostnaðarsamar fyrir bændur, vilja margir innan iðnaðarins sjá ríkisvaldið eða iðnaðinn koma til móts við bændur.

„Af hverju ætti ég að vilja gera eitthvað sem mun kosta mig meira fé, og einnig kosta mig meiri vinnu," sagði Steve Smith, sojabauna og maísræktandi. "Þetta er það sem ræktendur eru að segja."

Smith er einnig félagi í frjálsu félagasamtökunum Save Our Crops coalition sem berjast á móti nýju plöntueitri frá fyrirtækinu  Dow Chemical sem hann og aðrir gagnrýnendur segja að muni verða skaðlegt og auka ónæmi illgresis til lengri tíma litið.

Dow leitar nú lagalegs samþykkis fyrir plöntueitri sem byggir á nýrri efnajöfnu og sem líkist hinu hefðbundna 2,4-D plöntueitri sem verður markaðssett samhliða erfðabreyttum 2,4-D ónæmum korntegundum.

Gagnrýnendur segja að vörurnar frá Dow geti valdið meira tjóni, en fyrirtækið og stuðningsmenn þess segja að hér sé um skammtímalausn að ræða.

„Við þurfum tæknina núna," sagði John Davis, sem er maísræktandi í Ohio sem aðstoðar Dow við að kynna hinar nýju 2,4-D vörur sínar.

Þýtt úr greininni „Super weeds no easy fix for US agriculture-expert“s eftir Carey Gillam sem birtist á Reuters þ. 10. maí sl. Ritstýrð af David Gregorio. Ingibjörg Elsa Björnsdóttir þýddi á íslensku fyrir Náttúarn.is.

Sjá einnig skilda grein frá 7. des. 2011 um sama málefni „Monsanto 's Roundup Spawns Superweeds Consuming Over 120 Million Hectars. Myndin sem birtist hér er vinsamlega fengin að lána úr þeirri grein..

 

Birt:
13. maí 2012
Höfundur:
Carey Gillam
Uppruni:
Reuters
Tilvitnun:
Carey Gillam „Það er ekki auðvelt fyrir bandaríska landbúnaðarsérfræðinga að ráða við ofur-illgresi“, Náttúran.is: 13. maí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/05/13/thad-er-ekki-audvelt-fyrir-bandariska-landbunadars/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: