Ferðamenn, týndir, á hálendi Íslands
Undanfarna daga var gerð mikil leit að manni sem fór einn síns liðs í ferð á gosstöðvar við Eyjafjöllin. Hann hafði hringt fyrir þremur dögum og látið vita að hann væri í vandræðum. Taldi sig ranglega vera á Fimmvörðuhálsi. Um 300 manns tóku þátt í leit sem tók á þriðja sólarhring.
Þetta er ekki fyrsta né síðasta leitin sem gera þarf að ferðamönnum á hálendi landsins. Enda er það vissulega samfélagsleg skylda okkar að sýna þessa samstöðu og samhug með þeim sem rata villu vegar. Í þessu tilfelli 300 manns í tæpa 3 daga auk búnðar. Það mætti slá á að þetta væri framkvæmD sem gæti reiknast, menn og tæki, sem 5 - 7 mannára átak. Auk þess er stór hluti björgunarliðsins sjálfboðaliðar sem yfirgefa önnur störf á meðan leit stendur. Og leggja sig oft í verulega hættu við björgun.
Í því samhengi er rétt að vekja nokkrar spurningar um fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðir gagnvart ferðamönnum, innlendum sem erlendum.
Til er neyðarbúnaður sem fólk sem ætlar á fjöll gæti verið skikkað til að taka með sér. Neyðarhnappur sem getur sent frá sér merki sem hægt er að rekja og finna nákvæma staðsetningu. Þannig gæti fámennara leitarlið komið viðkomandi til hjálpar á skemmri tíma. En tíminn er ekki vinur þeirra sem liggja í jökulsprungum.
Hægt væri að skikka þá sem leigja jeppa á bílaleigum til að sjá kynningarmyndband um akstur á fjöllum og fjallaferðir. Þeir þyrftu einnig að leigja sér neyðarhnapp.
Verslanir sem selja útbúnað til fjallaferða gætu dreift fræðslumyndbandi á DVD eða vísað á slóð slíks efnis sem fólk, sérstaklega byrjendur, væri hvatt til að kynna sér. Þar mætti einnig leigja eða selja neyðarhnappa.
Hugsanlega mætti búa þannig um hnúta að þeir sem ætla sér á fjöll þyrftu að taka einhversskonar pungapróf og skrifa undir sáttmála um að fara í einu og öllu eftir reglum og leiðbeiningum sem hjálparsveitirnar gætu unnið í samráði við yfirvöld.
Hafi ekki verið tekið slíkt námsskeið og ekki skrifað undir samkomulagið og ekki farið að þessum reglum gætu hjálparveitir og yfirvöld átt kröfu á einstaklinga um greiðslur fyrir björgun.
En umfram allt verður að reyna með öllum ráðum að draga úr hættunni á að aðstæður sem þessar skapist.
Ferðamálayfirvöld, hjálparsveitr, ferðaþjónustan, verslanir og við öll almennt verðum að vera vakandi og hika ekki við að gera athugasemdir við þá sem virðast ætla að æða út í einhverja vitlleysu.
Sá ferðamaður sem vísað var til hér í upphafi fannst látinn.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Ferðamenn, týndir, á hálendi Íslands“, Náttúran.is: 12. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/11/12/ferdamenn-tyndir-halendi-islands/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.