Fyrsta bláa endurvinnslutunnan var afhent í Kópavogi í gærmorgun.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, færði Guðrúnu Benediktsdóttur, íbúa í Brekkusmára í Kópavogi, fyrstu tunnuna. Fram kemur í tilkynningu Kópavogsbæjar að á næstu dögum og vikum verði tunnum dreift til allra bæjarbúa.

„Kópavogsbær er fyrsta sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu til að bjóða slíka þjónustu. Þar með geta bæjarbúar flokkað sorp beint í endurvinnslutunnu við heimili sitt," segir í tilkynningunni, en markmiðið er sagt vera að hvetja til endurvinnslu og draga úr úrgangi sem fari til urðunar.

„Eftir breytingarnar hafa bæjarbúar aðgang að tveimur tunnum við heimili sitt; einni grárri fyrir almennt sorp og annarri blárri þar sem í fara dagblöð, fernur, bylgjupappi og fleira sem síðan er sent til endurvinnslu." Fulltrúar frá Kópavogsbæ og Íslenska gámafélaginu hafa síðustu vikur gengið í fjölbýlishús í bænum og kynnt nýtt fyrirkomulag í sorphirðu. Kostnaður við bláu tunnurnar er innifalinn í sorphirðugjöldum.

Grafík: Blá tunna af Endurvinnslukorti Náttúrunnar, Guðrún A. Tryggvadóttir

Birt:
10. maí 2012
Höfundur:
óká
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
óká „Bláar endurvinnslutunnur við hvert heimili í Kópavogi“, Náttúran.is: 10. maí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/05/10/blaar-endurvinnslutunnur-vid-hvert-heimili-i-kopav/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 28. maí 2012

Skilaboð: