Umhverfisráðuneytið efnir til almennra kynningarfunda á nokkrum stöðum á landsbyggðinni vegna hvítbókar, sem nefnd um endurskoðun náttúruverndarlaga skilaði af sér í haust og felur í sér heildarúttekt á lagaumhverfi náttúruverndar á Íslandi. Hvíbókin verður grunnur að væntanlegri endurskoðun náttúruverndarlaga sem unnið verður að á komandi mánuðum.

Í hvítbókinni er m.a. fjallað um nýjar aðferðir og viðhorf sem hafa rutt sér til rúms í náttúruvernd víða um heim og settar eru fram tillögur um hvernig koma megi þessum aðferðum og hugmyndum inn í íslenska löggjöf. Lögð er áhersla á að útfæra meginregur umhverfisréttar í nýjum náttúruverndarlögum, fjallað er ítarlega um friðlýsingar og annars konar verndaraðgerðir hér á landi, vatn, almannarétt og svo mætti lengi telja.

Opið umsagnarferli vegna hvítbókarinnar er nú hafið og stendur til 15. desember næstkomandi. Hvítbókin og umsagnirnar verða svo sem fyrr segir lagðar til grundvallar heildarendurskoðun núgildandi  náttúruverndarlaga sem stendur fyrir dyrum.

Þeir fundir sem búið er að skipuleggja verða sem hér segir:

  • 10. nóvember - Akureyri, Hótel Kea, kl. 17 - 18:15
  • 21. nóvember - Egilsstaðir, Hótel Hérað kl. 17 - 18:15
  • 24. nóvember - Ísafjörður - 4. hæðin í Stjórnsýsluhúsinu, kl. 17 - 18:15

Á fundunum verður efni hvítbókarinnar kynnt og rætt. Eru allir áhugasamir hvattir til að nýta sér þetta tækifæri til að kynna sér innihald hvítbókarinnar.

Nánari umfjöllun um hvítbókina, upptökur frá kynningunni á umhverfisþingi og bókina sjálfa má nálgast á vefslóðinni www.umhverfisraduneyti.is/hvitbok

Birt:
9. nóvember 2011
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Kynningarfundir vegna hvítbókar um náttúruvernd“, Náttúran.is: 9. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/11/09/kynningarfundir-vegna-hvitbokar-um-natturuvernd/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: