Pappír eða keramik undir kaffið?
Hvort er umhverfisvænna að nota pappabolla eða keramikbolla?
Eða réttara sagt „hvort hefur minni neikvæð umhverfisáhrif“, notkun einnota pappabolla eða margnota keramikbolla? Það fyrsta sem hvarflar að okkur er að margnota keramikbollinn hljóti tvímælalaust að vera umhverfisvænni. Í grein eftir grænu drottninguna Lucy Siegle veltir hún þessu fyrir sér á alla vegu. Hún vitnar í rannsóknir sem leiddu í ljós að þú þurfir að nota keramikbollann þinn a.m.k. 1.600 sinnum til að hafa jöfn umhverfisáhrif, út frá orkunotkun, og 1.600 pappabollar myndu hafa. Hvernig stendur á þessu? Jú keramikofnar nota gríðarlega mikla orku, það gera einnig uppþvottavélar en einnota bolla úr pappa eða plasti er oft/stundum hægt að endurvinna. Auk þess kemur til notkun þvottaefnis og vatns í 1.600 þvotta.
Notkun einnota bolla hefur aukist gífurlega á síðustu árum en kaffihús velja einnota bolla ekki aðeins vegna þess að það sé þægilegra heldur er það hluti af markaðssetningu þeirra og ímynd. Því flieir bollar sem eru í umferð því betri auglýsing fyrir fyrirtæki eins og t.a.m. Starbucks. Í Bretlandi einu saman eru notaðir 70 milljón einnota bolar á hverjum einasta degi. Á Starbucks kaffihúsunum einum saman í Bandaríkjunum eru notaðir 2,3 milljarðar bolla á ári.
Endurvinnsla pappabollanna er þó enn stórt vandamál. Pappabollar eru húðaðir með polyethelene plasti, svo þeir leki ekki. Það gerir það að verkum að það er ekki hægt að endurvinna þá með pappír nema með ærnum tilkostnaði. Starbucks hefur nú innleitt bolla sem eru 10% endurvinnanlegir, Tully's hefur innleitt algerlega niðurbrjótanlega bolla sem hægt að jarðgera.
Niðurstaðan er því að á meðan að ekki er hægt að endurvinna eða jarðgera bolla á einfaldan hátt út um allan heim er umhverfisvænna að nota keramikbollann sinn oftar en 1.600 sinnum eða minnka drykkjuna. Observer Magazine.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Pappír eða keramik undir kaffið?“, Náttúran.is: 14. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/14/pappi-eoa-keramik/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 8. nóvember 2011