Molta ekki nýtt vegna mögulega hugsanlegs riðusmits
Í frétt á RÚV var sagt frá því að moltuvinnsla sveitarfélaga víða um land væri í uppnámi vegna mögulega hugsanlegs riðusmits. Það er gott að varlega sé farið þegar riðuveiki er annarsvegar en það verður líka að meta líkurnar á smiti í þessu tilfelli umfram aðrar, marga mun líklegri, smitleiðir. S.s. smit með ref, fugli og skordýrum.
Við framleiðslu á moltu með ytri hitun eða í einangruðum ílátum verður hitinn iðulega nokkuð hár. Matvælastofnum vill fá óyggjandi sannanir fyrir því að hitinn, þá væntanlega í öllu efninu, fari yfir 70°C í a.m.k. 60 mín. Við stýrðar aðstæður ætti það að vera til þess að gera auðvelt þar sem gerjunarhitinn í massanum verður nálægt því sjálfur.
Einungis er hætta á riðusmiti hafi hráir heilar eða mænur úr fullorðnu riðusmituðu fé lent í moltunni. Mænur eru líklega algengari á borðum landsmanna en heilar enda í hryggjum og kótilettum. En í flestum tilfellum fer slíkur úrgangur ekki óeldaður í moltu. Flestir sem stunda moltugerð vilja einmitt ekki kjöt né fisk vegna gerlaflórunnar sem fylgir þeim úrgangi og þeirri lykt sem hann veldur.
Það ætti að vera hægt að tryggja að úrgangur með mögulegu mænusmiti fari ekki í moltumassa og að hiti verði nægur í gerjuninni. Slíkt ætti að vera nóg til að draga úr líkum á riðusmiti umfram þá náttúrulegu sem nefnd er hér að ofan og mun alltaf verða til staðar, sama hvaða reglugerðir sem Matvælastofnun setur.
Það er nefninlega mikill ávinningur af moltugerð, margfalt meiri en þessi frekar langsótta og hugsanlega ofmetna hætta af riðusmiti eftir þessari leið.
Vonandi finnst skynsamleg lending í þessu máli og sauðkindin ekki látin ráða lögum í þessu eins og svo mörgu öðru.
Ljósmynd: Sauðkind, Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Molta ekki nýtt vegna mögulega hugsanlegs riðusmits“, Náttúran.is: 5. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/11/05/molta-ekki-nytt-vegna-mogulega-hugsanlegs-ridusmit/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.