Nykur býr í ám, stöðuvötnum og stundum sjó, en hann er einnig kallaður nennir eða vatnahestur. Hann líkist hesti í útliti og er oftast grár að lit en stundum brúnn. Hófarnir snúa aftur og hófskeggið öfugt við það sem er á öðrum hestum. Á vetrum þegar sprungur koma í ísilögð vötn heyrast miklar drunur. Þá er sagt að nykurinn sé að hneggja. Nykurinn eignast folöld eins og aðrir hestar en kastar þeim í stöðuvötnum.

Komið hefur fyrir að nykur hefur gert merum manna folald. Hestur sem er hálfur nykur og hálfur hestur leggst niður ef honum er riðið yfir á eða vatn sem snertir á honum kviðinn og er sú hegðun komin frá nykrinum. Nykurinn heldur sig nálægt vötnum og ám sem erfitt er að fara yfir og er þá gæfur og tælir menn til að setjast á bak sér. Ef það tekst hleypur hann strax út í
vatnið, þar sem hann leggst og dregur manninn á bólakaf. Nykur þolir ekki að heyra heiti sitt nefnt eða nokkurt orð sem líkist því, þá stekkur hann af stað og
hleypur út í vatnið.

Einu sinni voru fjögur börn að leika sér rétt hjá bæ nokkrum en skammt frá var stórt stöðuvatn. Allt í einu sjá þau gráan hest í túninu og hlaupa til hans. Eitt barnið fer á bak og svo hvert barnið á fætur öðru þar til aðeins elsta barnið var eftir. Þau báðu það að koma líka á bak þar sem nóg væri plássið því bakið á hestinum væri svo langt. Elsta barnið sagðist ekki nenna á bak. Hljóp hesturinn þá af stað og hvarf á bólakaf í vatnið með börnin þrjú á bakinu.

Elsta barnið sem var eftir hljóp heim og sagði frá hvað gerst hafði. Vissi fólk þá strax að þarna hefði verið nykur á ferð.

Sagan „Nykur“ er færð á nútímamál í bókinni Furðudýr í íslenskum þjóðsögum, gefin út af bókaútgáfunni Sölku á þremur málum (íslensku, ensku og þþsku) árið 2002. Myndskreytingar og bókahönnun annaðist Guðrún Tryggvadóttir. Björk Bjarnadóttir og Hildur Hermóðsdóttir sáu um nútímaíslenskun. Sagan er úr þjóðsögum Jóns Árnasonar.
JÁ I 129-131, 1961 & JÁ III 207, 1958. Óstaðsett.

Birt:
13. júní 2007
Tilvitnun:
Úr íslenskum þjóðsögum „Nykur - Furðudýr í íslenskum þjóðsögum“, Náttúran.is: 13. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/13/nykur-furudr-slenskum-jsgum/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 29. október 2011

Skilaboð: