Góðar hugmyndir fyrir Þingvallaþjóðgarð verðlaunaðar
Dómnefnd sem skipuð var til að leggja mat á tillögur sem bárust í hugmyndaleit Þingvallanefndar, sem fram fór í sumar um framtíð þjóðgarðsins á Þingvöllum, greindi frá niðurstöðu sinni í dag. Alls bárust 102 tillögur frá 88 þátttakendum og veitti dómnefndin viðurkenningar fyrir 5 áhugaverðustu tillögurnar, sem jafnframt uppfylltu þau skilyrði sem nefndin setti. Afhending viðurkenninganna fór fram í Tjarnarsal Ráðhússins í Reykjavík en þar stendur nú yfir sýning á tillögunum sem bárust í hugmyndaleitinni. Höfundar tillagnanna sem dómnefndin veitti viðurkenningu fá hver um sig 200 þúsund krónur.
Óskað var eftir hugmyndum almennings um hvernig bjóða megi gestum að upplifa og njóta sérstöðu Þingvalla með virðingu fyrir náttúru og sögu og í góðri sátt við komandi kynslóðir.Við afhendingu viðurkenninganna í dag sagði Ragna Árnadóttir formaður dómnefndar að við mat á hugmyndum hafi nefndin haft til hliðsjónar hvort þær veittu trúverðugt svar við spurningu hugmyndaleitarinnar, hvort þær samræmdust í meginatriðum stefnumörkun þjóðgarðsins og hvort framsetning þeirra væri greinagóð og lýsti vel inntaki hugmyndarinnar. Í máli Rögnu kom jafnframt fram að nokkur meginstef er að finna í mörgum innsendra hugmynda. Þar má meðal annars nefna vísun til víkinga og fornra íþrótta og sagnalistar og tillögur um að bjóða upp á betri veitingaaðstöðu á Þingvöllum og þá einkum í þinghelginni. Þá voru nokkrar tillögur sem fólu í sér hugmyndir um heildarstefnumótun fyrir þjóðgarðinn og aðrar um að byggja upp gönguleiðir og um merkingar á Þingvöllum og við Þingvallavatn.
Dómnefnd raðaði tillögunum sem hlutu viðurkenningu ekki í sæti og því eru þær taldar upp samkvæmt skráninganúmerum.
Catherine Eyjólfsdóttir (10115): Hugsað til barna í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Tillagan gerir ráð fyrir að komið verði upp leiksvæði fyrir börn. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að tillagan varpi ljósi á mikilvægi þess að skapa vettvang fyrir börn í þjóðgarðinum, þannig að þau finni sér afþreyingu við hæfi og séu hvött til að kynna sér sögu forfeðra sinna og lifnaðarhætti. Tillagan undirstriki að Þingvellir eru ekki síst staður fjölskyldunnar.
Sigrún Helgadóttir (10118): Þingvellir, alvöru þjóðgarður. Í tillögunni eru settar fram hugmyndir í 25 liðum sem miða að því að treysta Þingvelli sem þjóðgarð og heimsminjasvæði. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að tillagan lúti fyrst og fremst að þeirri hugsun að færa umhverfi og náttúru til fyrra horfs, hlúð verði að fornleifum og verndun náttúru og lífríkis með skipulegum hætti og hugað að mannskepnunni með bættri aðstöðu.
Anna Ólafía Guðnadóttir (10139): Kringsjá. Hótel- og veitingaaðstaða á jörðinni Gjábakka. Lagt er til að reist verði hótel- og veitingaaðstaða á eyðijörðinni Gjábakka en þar er ægifagurt útsýni til allra átta. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að í tillögunni sé sett fram áhugaverð hugmynd um veitinga- og gistiaðstöðu utan þinghelgarinnar, sem veki athygli á þeim möguleika að koma upp slíkri aðstöðu fyrir ferðamenn á fleiri svæðum en þar sem Þingvallabærinn stendur og þar sem Hótel Valhöll var.
Kristján Gíslason (10143): Veitingahús á Þingvöllum.Tillagan gerir ráð fyrir að hægt verði að kaupa hollan og góðan mat á fallegum veitingastað í Þingvallabænum. Dómnefnd segir meðal annars í umsögn sinni að þessi hugmynd sé afar einföld í sniðum og lúti að því að koma upp veitingaaðstöðu á þessum viðkvæma reit án mikils rasks. Hún endurspegli einnig vilja margra til að veita almenningi aðgang að Þingvallabænum.
Gunnlaugur Þráinsson (10193): Gönguleiðir um Þingvöll. Tillagan felur í sér að gerðir verði göngustígar úr varanlegu efni umhverfis þjóðgarðinn. Efnt verði til alþjóðlegs maraþons á Þingvöllum þar sem hlaupið verði á milli Evrópu og Ameríku. Dómnefnd segir meðal annars að tilgangur tillögunnar sé að auðvelda aðgengi almennings að náttúrufegurð Þingvalla og að ráðast í markaðsátak til að laða að ferðamenn. Maraþon sé skemmtileg leið til að skipuleggja afþreyingu og laða ferðamenn til Þingvalla.
Í dómnefnd hugmyndaleitar sátu Ragna Árnadóttir fyrrum dómsmálaráðherra formaður, Andri Snær Magnason rithöfundur, Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu, Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður og formaður íslensku heimsminjanefndarinnar.
Ljósmynd: Við verðlaunaafhendinguna, Fréttablaðið.
Birt:
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Góðar hugmyndir fyrir Þingvallaþjóðgarð verðlaunaðar“, Náttúran.is: 23. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/23/godar-hugmyndir-fyrir-thingvallathjodgard-verdlaun/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.