Goðsögnin um álver við Húsavík I -er orkan við bæjardyrnar?
Margt hefur verið rætt og ritað um fyrirhugað álver ALCOA á Bakka við Húsavík. Hver framámaðurinn á fætur öðrum berst við að mæra hugmyndina og svo er nú komið að allir stjórnmálaflokkar nema Íslandshreyfingin og Vinstri grænir styðja uppbyggingu þess. Málatilbúnaður álversmanna er allur á eina vegu “ný tum orku í heimabyggð”, “Húsvíkingar eiga rétt á að fá álver”, “álverið ný tir eingöngu raforku sem aflað er við bakdyrnar á Húsavík”, “litlar línulagnir”, “aðeins áróður umhverfisverndarsinna að það eigi að virkja Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum”, “jarðhitaorka hefur lítil umhverfisleg áhrif”, “undirbúningsvinnan er sérlega vönduð”. Hvað skyldi hins vegar vera til í þessum fullyrðingum? Er eitthvað meira sem liggur hér að baki? Eru Húsvíkingar og viðkomandi stjórnmálamenn að æða áfram blindandi án þess að hafa kynnt sér staðreyndir málsins?
Orkuöflun: Miðað við 250 þúsund tonna ársframleiðslu af áli þarf að reisa 550 MW virkjanir, sem framleiða um 3700 GWst á ári. Við undirritun viljayfirlýsingar um álver á Húsavík tilkynnti forstjóri ALCOA um áform sín að byggja strax 300 þúsund tonna álver (sem þarf 660 MW ), en Þingeyingar mega samt gera ráð fyrir að fyrirtækið geri kröfur um að minnsta kosti 500 þúsund tonna álver áður en yfir lýkur. Samkvæmt staðarvalsskýrslu Alcoa hyggst fyrirtækið ná orku frá:
1)Þeistareykjum (80 MW),
2)Kröflu I (100 MW),
3)Kröflu II (120 MW),
4)Bjarnarflagi (80MW),
5)Gjástykki (80 MW) og
6)Hrafnabjörgum (90 MW).
Hugmyndir Landsvirkjunar um lagningu raflína á Norðausturlandi (mynd frá Landsvirkjun)
Reisa þarf því 5 ný orkuver í Suður-Þingeyjarsýslu auk sem Krafla I verður nær tvöfölduð. Sum þessara svæða eru afar lítt rannsökuð og því óljóst um gæftir í orkuöflun. Spurningar sem vakna eru meðal annars þær: 1) ALCOA gerir ráð fyrir að fá alla núverandi orku Kröfluvirkjunar um 60 MW – sú orka er þegar seld þannig að einhversstaðar hlýtur að eiga að virkja til að fylla upp í orkuþörf landsnetsins. 2) Hvaðan á að ná í helmingi meiri orku fyrir stækkun álversins? 3) Af hverju eru álversmenn sannfærðir um að Skjálfandafljóti með Hrafnabjargafossi og Aldeyjarfossi verði ekki fórnað fyrir álverið, þrátt fyrir að ALCOA geri ráð fyrir Hrafnabjargavirkjun í staðarvalsskýrslunni? 4) Venjulega er gert ráð fyrir 30 ára líftíma jarðhitavirkjana, hvað tekur við að þeim tíma liðnum? Á þá álverið að pakka niður?
Orka við bæjardyrnar: Miðað við fyrsta áfanga álversins þarf að leggja raflínur sem liggja rúmlega 114 km frá Mývatnssveit og 64 km til viðbótar frá Hrafnabjörgum. Til að ná 300 þúsund tonna ársframleiðslu gæti þurft að ná í orku frá Villinganes- og Skatastaðavirkjunum, en raflínur frá þeim koma til með að liggja frá Skagafirði þvert yfir Eyjafjarðar- og Suður-Þingeyjarsýslu alla leið til Húsavíkur – það er að segja ef Þingeyingar vilji ekki fórna meir af Skjálfandafljóti og ef Jökulsá á Fjöllum verði ekki fórnað. Hvaðan orkan fyrir 500 þúsund tonna álver á að koma er allsendis óljóst, en þarf að liggja fyrir áður en bygging álvers verður ákveðin.
Áhugasömum er bent á að kynna sér staðarvalsskýrslu ALCOA
Ragnhildur Sigurðardóttir skipar 2. sæti Íslandshreyfingarinnar á Suðurlandi
Myndin er af Hrafnabjargafoss. Ljósmynd:Ragnhildur Sigurðardóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Ragnhildur Sigurðardóttir „Goðsögnin um álver við Húsavík I -er orkan við bæjardyrnar?“, Náttúran.is: 10. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/10/gosgnin-um-lver-vi-hsavk-i-er-orkan-vi-bjardyrnar/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. október 2011