Goðsögnin um álver við Húsavík II - er orkan virkilega væn og græn?
Margt hefur verið rætt og ritað um fyrirhugað álver ALCOA á Bakka við Húsavík. Hver framámaðurinn á fætur öðrum berst við að mæra hugmyndina og svo er nú komið að allir stjórnmálaflokkar nema Íslandshreyfingin og Vinstri grænir styðja uppbyggingu þess. Málatilbúnaður álversmanna er allur á eina vegu “jarðhitaorka hefur lítil umhverfisleg áhrif”, “undirbúningsvinnan er sérlega vönduð”. Hvað skyldi hins vegar vera til í þessum fullyrðingum?
Mengun vatns frá jarðhitavirkjunum: Margt hefur verið ritað um mengun frá álverum. Má þar nefna krabbameinsvaldandi PAH efni sem berast með kerbrotum út í náttúruna og flúor, brennisteinssambönd og koltvísýring, sem berst út í andrúmsloftið. Minna hefur verið rætt um áhrifin frá jarðhitavirkjununum sjálfum. Fyrir utan augljóst rask á landi, eins og Sunnlendingar hafa orðið áþreifanlega varir við með tilkomu Hellisheiðarvirkjunar, þá er helsta mengun frá jarðhitavirkjunum á formi hávaða, útblásturs og affalsvatns. Í affalsvatni háhitasvæða eru helstu mengunarefnin brennisteinsvetni, arsenik, bór, kvikasilfur og aðrir þungmálmar eins og blý, kadmíum, járn, sink, mangan, en liþíum, ammóníak og ál er einnig stundum í skaðlegu magni. Af þessum efnum er arsenik sérstakt áhyggjuefni í jarðhitavökva á Mývatnssvæðinu, enda eitrað og hættulegt lífríkinu. Nauðsynlegt er að skoða til fullnustu hvort fimmföldun á orkuöflun í Mývatnssveit valdi skaða á lífríkinu í vatninu og umhverfi þess, en samanlögð umhverfisáhrif virkjananna hafa ekki verið metin.Útblástur gróðurhúsalofttegunda: Miðað forsendur matskýrslna fyrir Kröflu og Bjarnarflag má gera ráð fyrir að 1300 tonn af koltísýringi (CO2)og 108 tonn af brennisteinsvetni (H2S) verði leyst út í andrúmsloftið fyrir hvert virkjað MW. Á tiltölulega afmörkuðu svæði og í nágrenni þéttbýlisins í Reykjahlíð koma til með að leysast út í andrúmsloftið 390 þúsund tonn af CO2 og rúm 32 þusund tonn af H2S á ári. Brennisteinsvetni er eitruð lofttegund, en styrkur þess má ekki fara yfir 10 ppm á vinnustöðun á Íslandi miðað við 8 tíma vinnudag. Við þetta bætist síðan útblástur frá Þeistareykjum og Gjástykki, en miðað við sömu forsendur og ef orkuforsendur staðarvalsskýrslu ALCOA eru hafðar til grundvallar með 90 MW vatnsaflsvirkjun í Skjálfandafljóti, verður CO2 útblástur jarðhitavirkjananna í heild sennilega alls um 600 þúsund tonn á ári, sem er álíka mikið og heildarútblástur allra samgangna er hér á landi. Til samanburðar verður útblástur álversins um 375 þúsund tonn á ári. Verði orkunnar eingöngu aflað með jarðhitavirkjunum þá liggur nærri að útblástur CO2 sé helmingi meiri í orkuöfluninni en frá álverinu sjálfu. Ég tel það vera tími vera kominn til að við Íslendingar horfumst í augu við þá staðreynd að þessi græna orka okkar er ef til vill ekki svo græn í reynd. Staða Mývatnssveitar: Ásýnd sveitarinnar, sem þó á að heita vernduð með náttúruverndarlögum, kemur til með að breytast umtalsvert til norðausturs þegar framkvæmdum líkur. Nokkrar vinsælustu gönguleiðir ferðamanna raskast verulega. Margfalt magn af gufustrókum leggur til himins og svæðið verður undirlagt af steypu og rörum. Þar sem um 32 þúsund tonn brennisteinsvetnis koma til með að streyma upp í andrúmsloftið árlega í nágrenni aðalþéttbýlissvæðis sveitarinnar, þætti mér eðlilegt réttlætismál íbúa Mývatnssveitar að rækilega verði kannað hvort styrkur efnisins sé líklegur til að fara yfir leyfileg mörk. Úr þessu verður að ganga úr skugga áður en “of seint” verður að snúa við. Fyrirsjáanlegt er að baráttan fyrir verndun náttúru Mývatnssveitar, sem staðið hefur yfir í hartnær 40 ár, á eftir að harðna á ný . Samsvörunin við baráttuna fyrir verndun Þjórsárvera er sláandi. Það er von mín að sem flestir taki sér tíma og myndi sér sjálfir skoðun á goðsögnini um álver á Bakka við Húsavík og nýtingu jarðvarmaorku fyrir álver almennt. Það er von mín að sem flestir taki afstöðu byggða á raunverulegum gögnum um hvort þeir telji þessar álvershugmyndir vera velígrundaða umhverfisvæna aðgerð sem verði öllum íbúum landsfjórðungsins til heilla og ánægju. Fyrir mér vekur umtal og áróður álverssinna hinsvegar upp margar spurningar, t.d.: “Hvenær verður múgsefjun að sannleika og hvenær verður tálsýn að veruleika?”Áhugasömum er bent á fyrri hluta greinar þessarar og staðarvalsskýrslu ALCOA hér á síðum Náttúrunnar .
Ragnhildur Sigurðardóttir skipar 2. sæti Íslandshreyfingarinnar á Suðurlandi
Birt:
Tilvitnun:
Ragnhildur Sigurðardóttir „Goðsögnin um álver við Húsavík II - er orkan virkilega væn og græn?“, Náttúran.is: May 11, 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/11/gosgnin-um-lver-vi-hsavk-ii-er-orkan-virkilega-vn-/ [Skoðað:Dec. 9, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Nov. 18, 2015