Völuspá matarleikhús - heimsfrumsýning í Norræna húsinu
Völuspá - A Nordic Food Experience er samstarfsverkefni leikhússins Republique í Kaupmannahöfn, Norræna hússins og DILL veitingastaðar og byggist bæði á ævafornum textum Völuspár og norrænni matarmenningu. Sýningin er ferðalag um heima skilningarvitanna þar sem mæri hefðbundinnar leiksýningar og máltíðar eru könnuð og þeim ögrað. Um er að ræða einstaka sýningu þar sem öll skilningarvitin spila saman, sjón, heyrn og tilfinning og svo auðvitað bragð og ilman, í nýrri og einstakri túlkun á spádómi völvunnar. Sýningin er sett upp sem ferðalag um fagra byggingu Alvars Aaltos og nánasta umhverfi hennar, hvert rými fyrir sig táknar hluta textans og réttir sýningarinnar draga þá merkingu sérstaklega fram. Maturinn í sýningunni er skipulagður af danska matreiðslumeistaranum Mette Sia Martinussen, sem hefur m.a. slegið í gegn með Madeleines Madteater í Kaupmannahöfn, og matreiðslumeistara Dill, Gunnari Karli Gíslasyni.
Að verkinu standa:
Hugmynd og sjónrænt efni: Dorte Holbek, Mette Sia Martinussen, Alette Scavenius, Martin Tulinius
Leikstjóri: Martin Tulinius
Hönnun sviðsmyndar: Dorte Holbek
Matreiðslumenn: Mette Sia Martinussen, Gunnar Karl Gíslason
Leikritahöfundur: Alette Scavenius
Verkið verður flutt dagana 23. október til 2. nóvember 2011 og er einkum ætlað fullorðnum. 24 áhorfendur geta að hámarki tekið þátt í hverri sýningu. Verkið Völuspá - A Nordic Food-Expedition er hugsað sem sýning í algjörum sérflokki, bæði hvað varðar mat og drykk og skurðpunkt máltíðar og leikhúss.
Miðar eru seldir á www.midi.is
Birt:
Tilvitnun:
Norræna húsið „Völuspá matarleikhús - heimsfrumsýning í Norræna húsinu“, Náttúran.is: 20. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/20/spa-mat/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 31. október 2011