Yfir 300 manns eru væntanlegir á VII. Umhverfisþing sem haldið verður á Hótel Selfossi á morgun. Umhverfisþing fjallar að þessu sinni um náttúruvernd. Meðal annars verður nýútkomin hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands kynnt og rædd á þinginu en bókinni er ætlað að leggja grunn að heildarendurskoðun náttúruverndarlaga,.

Í málstofum verður fjallað um friðlýsingar og framkvæmd náttúruverndaráætlunar, vísindaleg viðmið fyrir náttúruvernd og gildi náttúruverndar fyrir útivist og ferðaþjónustu. Þá verður sérstök málstofa ungmenna þar sem náttúruverndarmál verða rædd frá sjónarhóli unga fólksins. Búast má við líflegri umræðu um brennandi spurningar varðandi vernd íslenskrar náttúru.

Formaður Dönsku náttúruverndarsamtakanna, Ella Maria Bisschop-Larsen, er heiðursgestur þingsins. Hún mun ávarpa þingið og m.a. fjalla um hlutverk náttúruverndarsamtaka í samfélaginu. Samtökin fagna 100 ára afmæli á þessu ári og eru stærstu umhverfis- og náttúruverndarsamtök Danmerkur með rúmlega 130.000 félaga og meira en 2.000 sjálfboðaliðar taka virkan þátt í starfi samtakanna.

Húsfyllir er á Umhverfisþingi en hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá þinginu á slóðinni http://www.umhverfisraduneyti.is/umhverfisthing2011/utsending

Umhverfisráðherra boðar til Umhverfisþings annað hvert ár skv. Náttúruverndarlögum og er þingið ein stærsta samkoma fólks sem starfar að umhverfis- og náttúruverndarmálum á Íslandi. Þátttakendur koma einkum frá opinberum stofnunum, einkafyrirtækjum eða félagasamtökum er starfa að náttúru- og umhverfisvernd. Sem fyrr segir er þetta í sjöunda sinn sem efnt er til Umhverfisþings og í fyrsta sinn sem það er haldið utan höfuðborgarsvæðisins.

Birt:
13. október 2011
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Fjölmenni á Umhverfisþingi 2011 á Hótel Selfossi á morgun“, Náttúran.is: 13. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/13/fjolmenni-umhverfisthingi-2011-hotel-selfossi-morg/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: