Litunarmosi
Erlingur Filippusson grasalæknir segir um litunarmosann: „Þennan mosa hef ég hvergi séð eða heyrt notaðan fyrr en móðir mín, Grasa-Þórunn, fór að nota hann sem lyf.“ Hún notaði litunarmosa við hjartveiki og magasári og sauð saman við njóla og horblöðku og áleit að þessi blanda væri góð við svefnleysi og róaði taugarnar.
Ævar Jóhannesson segist líka nota litunarmosa í sitt lúpínuseyði. Það mun taka litunarmosa yfir tvo áratugi að ná fullum þroska svo vísast er að tína hann í hófi, en stundum er hann orðinn svo genginn að hann er að fjúka af steinum í stórum skellum. Eins og nafnið bendir til var hann mikilsmetinn til litunar. Ullin verður mó-rauðbrún, mismunandi eftir styrk, og mosailmurinn loðir við allt sem litað er jafnvel árum saman. Grasa-Þórunn mun hafa séð lík sem kom upp úr kirkjugarði og var allt rotið nema fóturinn undir sokk sem var litaður úr mosa og þetta gaf henni hugmynd að notkun hans.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum. Myndin er af forsíðu bókarinnar.
.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Litunarmosi“, Náttúran.is: 24. október 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/litunarmosi/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. nóvember 2007
breytt: 14. mars 2014