America´s Next Top Model - í grænum búning?
Eins og margir áhorfendur Skjás1 hafa tekið eftir, er verið að sýna 9. seríu af America´s Next Top Model (ANTM). Vitundarvakning í umhverfismálum hefur náð auknum vinsældum í sjónvarpi og hefur m.a. náð fótfestu í raunveruleikasjónvarpi. ANTM gerir tilraun til þess að vera grænn þáttur. Þó það sé gott framlag þá getur maður ekki annað en velt því fyrir sér hvort þetta sé bara auglýsingabrella - eða hvort þetta sé gert til að vekja athygli á umhverfismálum??
Þema þessarar seríu er semsagt grænt og þegar á líður mun koma í ljós hvernig framleiðendum þáttanna tekst til. Það sem þegar hefur gerst í þáttunum sem telja má grænt er:
- Keppendur í ANTM ferðast um í rútu sem gengur fyrir 100% bíódísel. Sæti rútunnar eru gerð úr endurunnum bíldekkjum.
- Í þarsíðustu viku fóru keppendurnir í "náttúrulega" myndatöku þar sem stúlkurnar fóru í gervi ýmiskonar jurta og blóma.
- Keppendur búa í "orkusparandi" húsi. Húsið er samt sem áður gífurlega stórt og erfitt er að átta sig á því hvort stórt hús og vistvænar byggingaraðferðir eigi samleið. Því meira rými - því meiri efna- og orkunotkun.
Það sem vekur einnig athygli er að Tyra Banks hefur bannað keppendum sínum að reykja á meðan þær eru í keppninni. Einnig fór fram myndataka þar sem fyrirsæturnar áttu að sýna fram á hvað reykingar geta haft skaðleg áhrif á líkamann. Tyra vill greinilega hafa áhrif í þessari þáttaröð!
Í þættinum sem verður sýndur á miðvikudaginn kl. 21 (á Skjá1) eiga keppendur að fara í myndatöku þar sem stelpurnar eiga að pósa sem endurvinnanleg efni. Fyrir þá sem vilja fylgjast með því hvernig þættinum tekst til að vera grænn þá vil ég hvetja ykkur til að fylgjast með þættinum - og myndið ykkur ykkar eigin skoðun.
Upplýsingar af Treehugger.com
Myndir af TV.com
Birt:
Tilvitnun:
Móna Róbertsdóttir Becker „America´s Next Top Model - í grænum búning?“, Náttúran.is: 29. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/29/americas-next-top-model-grnum-bning/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.