Loftgæði í Reykjavík í dag eru góð en svifryk fór yfir heilsuverndarmörk á sunnudaginn vegna mengunar frá meginlandi Evrópu. Mengun sem berst á milli landa er algeng í Evrópu.

Mengað meginlandsloft hefur gengið yfir sunnanvert Ísland undanfarna daga. Sunnudaginn 17. ágúst skreið styrkur svifryks rétt yfir sólarhingsheilsuverndarmörk í Reykjavík og mældist 52,3 míkrógrömm á rúmmetra við Grensásveginn en viðmiðunarmörkin eru fimmtíu. Mánudaginn 18. ágúst var styrkurinn vel undir mörkum eða 30,2 míkrógrömm á rúmmetra og í dag þriðjudag eru loftgæðin orðin mjög góð.

„Þetta sýnir okkur að uppspretta loftmengunar er af ýmsum toga og þótt við búum lengst norður í Atlantshafi þá verður hér vart mengunar frá meginlandinu, eins og við höfum orðið var við á undanförnum árum,“ segir Anna Rósa Böðvarsdóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

„Mengun milli landa er mjög vel þekkt á meginlandi Evrópu, til dæmis berst reglulega svifryk frá sandstormum Sahara yfir viss lönd. Út frá þessu erum við lánsöm að búa langt frá öðrum löndum,“ segir Anna Rósa og minnir á að loftmengun er bæði staðbundið og hnattrænt vandamál. Nefna má sem dæmi um mengun af völdum iðnaðar að töluverð mengun berst frá Rússlandi til Noregs.
Birt:
19. ágúst 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Loftgæði góð í Reykjavík í dag“, Náttúran.is: 19. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/19/loftgaeoi-goo-i-reykjavik-i-dag/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: