Grænkál - gott og ódýrt
Afbragð er að vefja grænkálsblaði utan um nokkur rifsber og bíta í. Það súra og það ögn beiska upphefur hvort annað. Ef grænkálið hefur ekki verið mikið notað yfir sumarið er gott að snyrta plönturnar og tína burt sölnuð og skordýrabitin blöð og afrifna stöngla. Síðan má láta það vera kyrrt í garðinum. Grænkál er þakklát planta og stendur lengur fram eftir en flestar aðrar. Það má líka skera ofan af því við rót og hylja rótarstúfinn og láta standa til næsta vors og sjá hvort það setur út ný blöð. Grænkál má þurrka en það þarf svolítið meiri hita en flestar villijurtir. Líka er hægt að saxa það og lausfrysta hrátt, hrista svo úr pokanum beint í pottinn hæfilegan skammt líkt og gert er við steinselju. Þá er betra að frysta snemma og láta kálið ekki standa úti of lengi. Grænkálsgratín er gert á sama máta og spínat- og blómkálsgratín en ekki þarf að forsjóða kálið. Grænkálssúpu má oft finna á erlendum jólamatseðlum hjá grænmetisætum sökum þess að það stendur enný á úti og næst inn ferskt. Það fer vel með hafragrjónum og byggi. Kálfræ steytt og leyst upp í brennivíni hreinsar orma úr maga, segir séra Bjarni á Melum.
Grænkálssúpa með byggi eða hafragrjónum
6–8 grænkálsblöð 1 l grænmetis- eða kjötsoð 25 g soðin bygggrjón eða 1/2 bolli hafragrjón lítil rófa eða næpa (væn kartafla ef súpan á að vera matarmikil) Hér er tilvalið að nota afgang af soðnu byggi eða bygg sem hefur verið soðið og síðan fryst í smáskömmtum. Rófan eða næpan (og kartaflan) er skorin í ferkantaða litla bita og þeir soðnir í 10 mínútur í soðinu með bygginu. Grænkálið er þvegið og saxað mjög fínt með hníf eða í matvinnsluvél (hér þarf stundum að setja vatn með kálinu til að það gangi sundur). Þessu er bætt út í súpuna, saltað og soðið áfram í nokkrar mínútur þangað til kálið er nægilega mjúkt. Séu notuð hafragrjón eru þau soðin álíka lengi og grænkálið. Grófvölsuð hafragrjón eru soðin ögn lengur.
Grænkálssúpa með soði
Grænkál, sem hefur verið fínt saxað, má setja út í grænmetis- eða kjötsoð og sjóða í nokkrar mínútur. Það má hafa fínt brytjaðar gulrætur með og fer vel á haustin en gulræturnar þarf að sjóða lengur. Svona súpu þarf ekki að þykkja en það má bæta hana með svolitlum rjóma áður en hún er borin fram.
Grænkál sem sjálfstæður réttur
grænkálsjafningur brúnaðar kartöflur soðin egg ristað brauð Líklega er þetta eini rétturinn sem ég man enný á eftir frá matreiðslutímunum í Laugarnesskólanum. Hann er kominn frá Helgu Sigurðar. Grænkálsjafningur er búinn til á sama hátt og njólajafningur. Kartöflurnar eru soðnar og brúnaðar. Helga vill hafa kartöflurnar þéttar í sér, helst það smáar að ekki þurfi að skera þær í bita. Á pönnu er 40 g af smjöri brúnað varlega og 4 msk af sykri bætt í. Þegar byrjar að koma þétt froða, eru kartöflurnar látnar á og msk af vatni. Hrært í þangað til kartöflurnar eru gljáandi og brúnar. Soðið er eitt egg á mann og eggið flysjað og skorið í fernt. Heilhveitibrauð er ristað eða grillað báðum megin. Borið fram heitt. Best væru svartbaksegg en þá þarf að gera þetta á vorin og nota njóla eða spínat í staðinn. Með þessu má hafa rabarbarasultu.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum. Myndin er af grænkáli. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Grænkál - gott og ódýrt“, Náttúran.is: 26. júlí 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/12/grnkl/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. nóvember 2007
breytt: 26. júlí 2014