Vefurinn orkuaudlindir.is liggur niðri af ókunnum orsökum
Vefur undirskriftasöfnunarinnar www.orkuaudlindir.is hefur legið niðri síðan rétt fyrir miðnætti. Ekki er vitað hvort um tæknilega bilun er að ræða eða hvort vefsíðan hefur orðið fyrir árás.
Þá höfðu safnast hátt í tólfþúsund undirskriftir við áskorun til stjórnvalda um að rifta sölu á HS Orku og um þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum okkar. Verið er að vinna að því að koma vefnum í gang aftur og er þess að vænta að hægt verði að fara inn á undirskriftasíðuna innan skamms. Búist er við mikilli umferð á vefinn.
Nýjasta færsla í gagnasafn vefsins orkuaudlindir.is var nýtt bréf Bjarkar til Ross Beaty
Í gær svaraði Björk bréfi Ross Beaty, framkvæmdastjóri Magma Energy. Bréf Bjarkar er mjög beitt og meðal annars svarar hún ásökunum Beaty um að vera á móti erlendri fjárfestingu og útlendingum yfirhöfuð. Hún segist hafa langa og mjög góða reynslu af því að vinna með útlendingum, málið snúist ekki um það, heldur um heiðarleika og um samninga sem báðir samningsaðilar njóta góðs af en ekki eingöngu annar, eins og raun ber vitni þegar athugaðir eru alþjóðlegir viðskiptasamningar Magma sem heimili þeim að gernýta auðlindir annarra. Björk segir að Íslendingar séu búnir að fá nóg af fjárglæpamönnum, bæði innlendum sem erlendum, og vilji síst af öllu að landið verði að nýlendu á nýjan leik. Björk endar bréf sitt á því að segja Beaty að hún telji að samninginn ætti ekki að lögleiða á Íslandi. Þjóðin verði að gera það upp við sig sjálf hvaða stefnu hún vill taka í auðlindamálum sínum. Hann verði því að bíða og ef hann ætli að koma aftur þá verði hann að bjóða upp á betri samning.
Birt:
Tilvitnun:
Oddný Eir Ævarsdóttir „Vefurinn orkuaudlindir.is liggur niðri af ókunnum orsökum“, Náttúran.is: 23. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/23/vefurinn-orkuaudlindir-liggur-nidri-af-okunnum-ors/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.