Tíðindi um erfðabreytta stóriðju í íslenskri náttúru: Er Fréttablaðið á móti aðhaldi?
Að undanförnu hafa nokkrir fjölmiðlar birt pistla um auðlegð sem kunni að bíða Íslendinga ef þeir leyfi útiræktun á erfðabreyttu lyfjabyggi. Í kjölfar gagnrýnislausra viðtala við forráðamann líftæknifyrirtækis sem að ræktun þessari stendur birti Fréttablaðið forystugrein um ágæti „líftæknistóriðju”. Kallað var eftir því að tilskipanir sem Íslandi ber að taka upp samkvæmt EES samningnum verði túlkaðar frjálslega og að almannavaldið – ráðherrar og aðrir – greiði götu umrædds fyrirtækis með heimildum til stórfelldra sleppinga á erfðabreyttum lyfjaplöntum út í íslenska náttúru.
Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur átelur slíka fjölmiðlun sem að þess mati á meira skylt við auglýsingar en faglega fréttamennsku. Af þessu tilefni skal minnt á nokkur megin atriði þessa máls.
Ísland á skjön við þróun mála í Evrópu
Í Evrópu fara tilraunir með erfðabreyttar lyfjaplöntur fram á litlum landskikum sem að meðaltali eru hálfur hektari að stærð. Á skrá ESB um sleppingar á erfðabreyttum lyfjaplöntum er hvergi að finna leyfi fyrir stórum (margra hektara) svæðum, vegna þess að slíkt krefðist annars konar leyfis, þ.e. markaðsleyfis. Engin slík leyfi hafa verið veitt fyrir erfðabreyttar lyfjaplöntur innan ESB og mjög ósennilegt verður að telja að þau verði nokkru sinni veitt. Erfðabreyttar lyfjaplöntur innihalda öfluga lífvirka vaxtarþætti og er útiræktun þeirra áhættusöm fyrir lífríkið og fæðukeðju manna og búfjár.
Í ársbyrjun 2009 voru einungis þrjár tilraunir með erfðabreyttar lyfjaplöntur í gangi í Evrópu: 1 ha tilraun með tóbaksplöntu í Frakklandi, 0,4 ha tilraun með bygg í Ungverjalandi og 0,1 ha tilraun með kartöflur í Þýskalandi. Á árunum 2003 til 2009 voru einungis tilkynnt 8 tilraunaleyfi með erfðabreyttar lyfjaplöntur í Evrópu, auk 2ja sem Umhverfisstofnun veitti. Ákall um erfðabreytta stóriðju í íslenskri náttúru er á skjön við áherslu Evrópulanda sem í vaxandi mæli lýsa sig svæði án hvers konar útiræktunar erfðabreyttra plantna.
Tilraunaleyfi notað til framleiðslu fyrir markað?
Vorið 2009 veitti Umhverfisstofnun líftæknifyrirtæki tilraunaleyfi til 5 ára til ræktunar á erfðabreyttu lyfjabyggi á allt að 10 ha lands í Gunnarsholti. Tilraunaleyfi eru veitt í rannsókna- og þróunarskyni, ekki til framleiðslu fyrir markað. Ljóst virðist hinsvegar af áðurnefndum fréttum að fyrirtækið hyggst ekki nota leyfið til tilrauna heldur til “stórfelldrar” framleiðslu, svo notuð séu þeirra eigin orð. Þetta bendir eindregið til þess að leyfið sem veitt var til tilrauna eigi nú að hagnýta til framleiðslu og markaðssetningar.
Skilyrði fyrir afmörkun rofin – Ófullnægjandi áhættumat
Meðal skilyrða sem sett voru fyrir umræddu tilraunaleyfi voru rafgirðingar og net yfir ræktunarreit til að hindra aðgengi fugla og dýra, en sýnt var fram á af almennum borgurum, m.a. með myndatökum, að sá aðbúnaður allur reyndist algerlega ófullnægjandi. Ber það vott um skort á ábyrgum og faglegum vinnubrögðum af hálfu leyfishafa og skort á viðhlítandi eftirliti af hálfu Umhverfisstofnunar sem veitti leyfið. Þá var umrætt leyfi veitt þrátt fyrir að hvorki lægju til grundvallar áhættumat vegna áhrifa lyfjabyggsins á jarðveg og grunnvatn né gerð væri krafa um fóðrunartilraunir á dýrum. Hvorutveggja eru mikilvægir þættir í heildarmati á áhrifum sleppingar á umhverfi og heilsufar.
Kallað eftir gagnrýnni umræðu
Erfðabreyttar lífverur eru mjög umdeilt mál sem vísindamenn og fræðasamfélög um allan heim takast á um. Óháðar rannsóknir (þ.e. fjármagnaðar af öðrum en fyrirtækjum í líftækni) eru stöðugt að birtast sem benda til margþættra neikvæðra áhrifa á umhverfi og heilsufar og því ber að kalla eftir ítrustu varúð í meðförum þeirra.
Þrýstingur þess efnis að umhverfisráðherra leiði hjá sér fjölþætt lagaleg og vísindaleg rök sem fram hafa komið gegn sleppingum erfðabreyttra lyfjaplantna bendir til þess að aðhaldsleyfi sé jafn ríkur þáttur í viðhorfi fjölmiðla til líftækniþróunar og raun var á með viðhorf fjölmiðla til fjármálaþróunar landsins í aðdraganda hrunsins mikla.
Það er þörf á upplýstri umræðu um erfðabreyttar lífverur. Fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga ber þess því miður merki að blaðamenn endurtaki yfirlýsingar hagsmunaaðila í stað þess að kanna nánar ólíkar hliðar málsins. Ótímabærar yfirlýsingar þeirra um yfirburði ákveðinna líftæknifyrirtækja vekja blendnar minningar. Bent er á að slíkt aðhaldsleysi fjölmiðla var gagnrýnt sérstaklega í siðfræðihluta skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið.
Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur:
Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur er samstarfsverkefni sex almannasamtaka og þjónustustofnana: Landverndar, Matvæla- og veitingafélags Íslands, Náttúrulækningafélags Íslands, Neytendasamtakanna, Slow Food Reykjavík og Vottunarstofunnar Túns. Tilgangur þess er að efla umræðu um erfðabreytingar, erfðabreyttar lífverur og afurðir þeirra, með sjónarmið umhverfis-, heilsu- og neytendaverndar að leiðarljósi. Markmið átaksins eru að upplýsa íslensku þjóðina um erfðavísindin og þá áhættu sem fylgir notkun þeirra, og að vinna að því að íslensk stjórnvöld setji stranga löggjöf um erfðabreyttar lífverur og afurðir þeirra.
Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur heldur úti heimasíðunni www.erfdabreytt.net.
Nánari upplýsingar veita:
• Dominique P. Jónsson formaður Slow Food Reykjavík, s. 898 4085, dominique@simnet.is
• Gunnar Á. Gunnarsson frkvstj. Túns, s. 820 4130, tun@tun.is
• Gunnlaugur K. Jónsson forseti NLFÍ, s. 843 1014, gkj@nlfi.is
Grafík: Ísland án erfðabreyttra lífvera, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur „Tíðindi um erfðabreytta stóriðju í íslenskri náttúru: Er Fréttablaðið á móti aðhaldi?“, Náttúran.is: 22. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/22/tidindi-um-erfdabreytta-storidju-i-islenskri-nattu/ [Skoðað:28. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. júlí 2010