Erftabreytt matvæli verða áfram án merkinga hér á landi
Beðið verður með að setja reglur um merkingu á erfðabreyttum matvælum og fóðri hér á landi þar til viðræðum EFTA-landanna og ESB lýkur og ákvæði um þetta verða tekin upp í EES-samninginn. Þetta kemur fram í svari sem Neytendasamtökin hafa fengið frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en Neytendasamtökin sendu erindi til ráðuneytisins þann 13. apríl sl. um að slíkar reglur verði settar hér sem fyrst.
Í svari ráðuneytisins kemur fram að ef stjórnvöld grípi þegar til aðgerða varðandi merkingar á erfðabreyttum matvælum væri um einhliða ákvörðun að ræða án samþykkis framkvæmdastjórnar ESB og að slík lausn væri mjög erfið ef ekki óframkvæmanleg.
Það verður að segjast eins og er að Neytendasamtökin eiga mjög erfitt með að skilja þessa fullyrðingu ráðneytisins og þá ekki ekki síst í ljósi þess að samtökin eru aðeins að fara fram á að sömu reglur gilda hér og innan ESB. Einnig í ljósi þess að önnur EFTA-lönd, Noregur, Sviss og Lichtenstein, hafa öll sett reglur um merkingar á erfðabreyttum matvörum og allavega Norðmenn hafa strangari reglur en ESB. Þessar þjóðir hafa getað gert þetta án þess að reglur ESB hafi verið teknar upp í EES-samninginn. Það er því eðlilegt að spurt sé; gilda önnur lögmál hér en í öðrum Evrópulöndum?
Minnt er á Ísland er eina landið á EES-svæðinu þar sem ekki þarf að merkja slík matvæli sérstaklega. Um leið eru íslensk stjórnvöld að taka eðlilegt valfrelsi frá neytendum.
Grafík: Varúð erfðabreytt, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Neytendasamtökin „Erftabreytt matvæli verða áfram án merkinga hér á landi“, Náttúran.is: 15. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/15/erftabreytt-matvaeli-verda-enn-merkinga-her-landi/ [Skoðað:27. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 16. júlí 2010