Að ÞeistareykjumÞann 30. apríl sl. lagði orkufyrirtækið Þeistareykir ehf., sem nú mun að fullu í eigu Landsvirkjunar, fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum vegna byggingar allt að 200 MWe jarðvarmaorkuvers á Þeistareykjum. Skýrslan nær jafnframt yfir mat á umhverfisáhrifum vegar milli Húsavíkur og virkjunarsvæðisins. Þennan sama dag voru lagðar fram fimm stórar frummatsskýrslur um fyrirhugaða orkuvinnslu og stóriðju á Norðausturlandi samtals tæplega 1100 bls. auk fjölda viðauka. Það gefur auga leið að það er ekki hægt að ætla nokkrum manni eða frjálsum félagasamtökum að rýna í málin í frítíma á þeim sex vikum sem ætlaðar voru til athugasemda skv. lögum. Frestur til að gera athugasemdir við skýrslurnar fimm rann úr 14. júní sl.
Við skoðun á skýrslunni um Þeistareyki koma ótrúlegustu hlutir í ljós. Reyndar hef ég ekki komið á svæðið eftir útkomu skýrslunnar og hef því ekki getað skoðað ýmislegt sem ástæða væri til að kanna sérstaklega, s.s. nýtt vegstæði, ný námusvæði, helstu mannvirkjasvæði og síðast en ekki síst heildarsamhengi framkvæmdarinnar. Ég ætla samt að reyna að fara í gegnum helstu þætti málsins í nokkrum áföngum þannig að áhugasamir geti kynnst minni sýn á það, en hún er nokkuð önnur en sýn framkvæmdaraðilans og sveitarfélagsins sem ber ábyrgð á skipulagi á svæðinu.
Forsagan – fyrir mat á umhverfisáhrifum
Áður er frummatsskýrslan var lögð fram höfðu verið boraðar fimm vinnsluholur í háhitasvæðið á Þeistareykjum auk einnar rannsóknarholu. Samanlögð afkastageta vinnsluholanna jafngildir gufuþörf einnar 50 MWe vélasamstæðu í virkjuninni fullbúinni, en til samanburðar má nefna að Kröfluvirkjun hefur undanfarin ár framleitt um 60 MWe. Þessar fimm vinnsluholur hafa allar verið boraðar án þess að fram færi mat á umhverfisáhrifum. Þetta eru ámælisverð vinnubrögð og algerlega fráleitt að stjórnvöld skuli hafa samþykkt umtalsverðar framkvæmdir á svæðinu undanfarin ár án slíks mats eins og lög kveða á um. Hér geta stjórnvöld að mínu viti alls ekki skýlt sér á bak við undanþáguákvæði laga.
Í c-lið 2. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum eru taldar upp þær framkvæmdir sem kynnu að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skal metið í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Þar er m.a. talin upp borun á vinnsluholum og rannsóknarholum á háhitasvæðum. Hér er það lagt í hendur Skipulagsstofnunar að meta hvað eru veruleg umhverfisáhrif. En Skipulagsstofnun hefur þó alls ekki frjálsar hendur. Í 2. tl. 1. viðauka sömu laga segir að orkuver með 10 MW uppsett rafafl eða meira skuli ávallt háð mati á umhverfisáhrifum. Þetta er skýrt viðmið fyrir stjórnvöld. Við þetta bætist að í 1. tl. 3. viðauka laganna um mat á umhverfisáhrifum, sem einnig fjallar um matsskyldu framkvæmda, er sérstaklega tekið fram að athuga þurfi eðli framkvæmdar, m.a. með (i) tilliti til stærðar og umfangs framkvæmdar.

Af frummatsskýrslunni má ráða að þegar eftir borun þriðju holunnar á Þeistareykjum (ÞG-03) hafi orkuöflun verið orðin meiri en sem nemur 10 MW rafafli. Eftir það óskaði framkvæmdaraðili eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um matskyldu vegna borunar tveggja rannsóknarhola til viðbótar (ÞG-4 og ÞG-5). Skipulagsstofnun taldi framkvæmdirnar ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu þær því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) kærðu ákvörðunina til umhverfisráðuneytis sem staðfesti ákvörðun Skipulagsstofnunar. Síðar hefur borun einnar holu til viðbótar (ÞG-06) hlotið náð fyrir augum Skipulagsstofnunar.

Nú þegar hafa Þeistareykir ehf. aflað fimmfalt meiri orku en þarf fyrir 10 MW raforkuver sem þó er er ávallt háð umhverfismati. Það er deginum ljósara að stjórnvöld hafa algerlega misst sjónar á markmiðum laganna um mat á umhverfisáhrifum. Þetta á bæði við um Skipulagsstofnun og umhverfisráðuneyti, sem með vægast sagt frjálslegri túlkun sinn á lögum og reglum, hafa ákveðið að umfangsmiklar boranir skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Þá hefur Umhverfistofnun, sem er helsti umsagnaraðili ríkisins á sviði umhverfismála, ekki gert athugasemdir við boranirnar (nema holu ÞG-06) þrátt fyrir að svæðið sé á náttúruminjaskrá og njóti auk þess að stærstum hluta sérstakrar verndar skv. a- og d-lið 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Hvað gengur stjórnvöldum til með svona vinnubrögðum? Hvar eru þeir aðilar sem eiga að gæta laga og réttar í landinu?

Þær boranir sem nú þegar hafa farið fram á Þeistareykjum, með tilheyrandi raski á jarðhitasvæðinu, að ekki sé minnst á skemmdir eftir efnistöku í vesturhlíðum Bæjarfjalls, hafa valdið því að svæðið getur ekki orðið samt um langa framtíð. Með því að undanskilja þessar framkvæmdir mati á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun snúið á haus markmiðsákvæðum laga nr.106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Merking hugtaksins umtalsverð umhverfisáhrif hefur aldrei verið fyllilega ljós en stjórnvöld telja greinilega að á jarðhitasvæðum merki þetta ekki minna en fimm vinnsluholur og örkuöflun sem nemur um 50 MW af rafafli. Þetta er augljóslega skoðun Skipulagsstofnunar, studd af umhverfisráðuneyti.

Hvernig í ósköpunum eiga frjáls félagasamtök á borð við Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, Landvernd eða Náttúruverndarsatök Íslands að endast til að leggja vinnu í tilraunir til að koma vitinu fyrir stjórnvöld þegar vinnubrögð Skipulagsstofnunar og umhverfisráðuneytis eru eins og raun ber vitni? Allir vita jú að svokölluð úrskurðanefnd er vita gagnslaus í svona málum. Eiga þeir sem bera umhyggju fyrir landinu bara að sætta sig við það að skaðinn er skeður á Þeistareykjum og að þess vegna sé sjálfsagt að virkja svæðið? Hverjir bera ábyrgð á staðsetningu efnisnámunnar í skriðunni vestan í Bæjarfjalli? Og hverjir bera ábyrgð á því að stærsti borteigurinn var settur niður í hjarta svæðisins? Hvað varð um tæknina til að bora svonefndar skáholur allt að 1,5 km til hliðar út frá borteig?

Hugsunar- og fyrirhyggjuleysi þeirra sem að þessu málinu hafa komið er slíkt að það slær rækilega við alræmdum framkvæmdum við Hellisheiðarvirkjun og er þá langt til jafnað.

Framganga orkufyrirtækjanna og hagsmunagæsla sveitarfélagsins í máli sem þessu þarf reyndar ekki að koma neinum á óvart. En getur verið að starfsfólk Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og jafnvel umhverfisráðuneytisins hafi misskilið hlutverk sitt svona hrapalega? Hefur það einhvern tilgang að fullgilda Árósasamninginn þegar stjórnvöld hunsa vandaðar athugasemdir frjálsra félagasamtaka?

Ljósmynd að Þeistareykjum, Sigmundur Einarsson.

Birt:
15. júlí 2010
Höfundur:
Sigmundur Einarsson
Tilvitnun:
Sigmundur Einarsson „Þeistareykir – forsagan“, Náttúran.is: 15. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/15/theistareykir-forsagan/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. júlí 2010

Skilaboð: