Þeistareykir og Krafla – umhverfisslys í uppsiglingu
Menn geta verið með eða á móti stóriðju og stórfelldri virkjun orkulinda. En allir geta verið sammála um að vanda þurfi til verka þegar og ef að framkvæmdum kemur. Sú ætlar því miður ekki að verða raunin í tilviki stóriðjudrauma Húsvíkinga.
Þann 30. apríl sl. auglýsti Skipulagsstofnun eftir athugasemdum við fimm frummatsskýrslur vegna mats á umhverfisáhrifum stórframkvæmda á Norðurlandi. Um er að ræða:
- Álver á Bakka við Húsavík, allt að 346.000 tonn/ári
- Jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum, allt að 200 MW
- Jarðvarmavirkjun við Kröflu, Kröfluvirkjun II sem svo er nefnd, allt að 150 MW
- Háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, 220 kW
- Sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna ofangreindra framkvæmda
Frummatsskýrslurnar fimm eru samtals um 1060 bls. auk fjölda viðauka. Skipulagsstofnun veitti lögbundinn sex vikna frest til athugasemda og rann hann út 14. júní sl. Vart þarf að taka það fram að einstaklingar og frjáls félagasamtök hafa ekki bolmagn til að kynna sér öll þessi mál til hlítar innan þessara tímamarka, hvað þá að gera viðeigandi athugasemdir.
En hvað sem þessum fresti til athugasemda líður, þá er það aðalatriði málsins að hér er í uppsiglingu eitt stærsta umhverfisslys Íslandssögunnar.
Forsendur fyrirhugaðra framkvæmda eru að stórum hluta tilgreindar í Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Skipulagið er að nafninu til á hendi sveitarfélaganna en snýst þó fyrst og síðast um hagsmuni framkvæmdaraðilanna. Önnur sjónarmið koma lítið við sögu. Í svæðisskipulaginu kemur fram að landnýtingar- og verndaráætlun fyrir háhitasvæðin var upphaflega unnin að frumkvæði orkufyrirtækjanna Þeistareykja ehf. og Landsvirkjunar og síðan í samstarfi við þau og Landsnet. Áætlunin var svo unnin áfram sem svæðisskipulag fyrir háhitasvæðin í Þingeyjarsýslum. Í svæðisskipulaginu kemur fram að tilgangurinn með gerð landnýtingar- og verndaráætlunar var fyrst og fremst að samþætta nýtingu og vernd þannig að tekið verði tillit til náttúrufars og náttúruverndarsjónarmiða eins og framast er kostur við hugsanlegar virkjanaframkvæmdir og mannvirkjagerð í tengslum við þær. Í samráðsnefnd um gerð áætlunarinnar sátu fjórir fulltrúar sveitarfélaganna og þrír fulltrúar orkufyrirtækjanna. Hver þessara fulltrúa skyldi hafa séð um að taka tillit til náttúrufars og náttúruverndarsjónarmiða eins og framast er kostur eins og það er orðað í svæðisskipulaginu?
Og nú liggja fyrir frummatsskýrslur á grunni svæðisskipulags sem unnið var á forsendum orkufyrirtækjanna. Að sjálfsögðu var ekki búist við miklu. En þær áætlanir sem nú liggja fyrir eru sínu verri en mig óraði fyrir. Undirbúningur og skipulag á framkvæmdasvæðum er í algeru skötulíki. Í nafni sjálfbærrar þróunar er borsvæðum dreift óskipulega yfir háhitasvæðin en þó þannig að ávallt verði hægt að bora á þann hátt sem framkvæmdaraðili telur sér henta best hverju sinni og án þess að þurfa nokkurn tíma í framtíðinni að spyrja kóng eða prest um eitt eða neitt. Þetta er sama vinnulag og notað var við Hellisheiðarvirkjun, þ.e. að framkvæmdaraðilinn vill fá leyfi til að haga sér að eigin vild á svokölluðu iðnaðarsvæði. Viljum við sjá umhverfisslysið á Hellisheiði endurtekið?
Hér koma síðan tvö lítil dæmi um þau vinnubrögð sem viðhöfð eru við undirbúning framkvæmdanna. Annað er frá Sveitarfélaginu Norðurþingi og hitt frá Landsvirkjun og Landsneti í sameiningu.
Í auglýstri tillögu að aðalskipulagi Norðurþings segir m.a. um áhrif stóriðju á samfélag og umhverfi: Til langs tíma litið er talið að jákvæð áhrif bætts atvinnuöryggis á heilsufar íbúa vegi upp á móti mögulegum neikvæðum áhrifum starfseminnar. Í beinu framhaldi af þessari setningu segir síðan að ekki liggi fyrir upplýsingar um möguleg óþægindi vegna hávaða, lyktar, birtu eða ryks! Hvernig í ósköpunum getur svona ófagleg röksemdafærsla ratað inn í tillögu stjórnvalds að aðalskipulagi? Á virkilega að standa í tillögu að aðalskipulagi að ef íbúarnir hafi næga vinnu muni þeir verða við góða heilsu um langa framtíð hvað sem allri mengun og hollustuháttum líður? Sætta íbúarnir sig virkilega við rök af þessum toga þegar teknar eru stórar ákvarðanir um framtíðina?
Annað athyglisvert dæmi eru röksemdir fyrir staðsetningu stöðvarhúss Þeistareykjavirkjunar, en gert er ráð fyrir því á flatlendi þar sem það verður eins áberandi og nokkur kostur er. Ætla mætti að vandaðar athuganir lægju að baki þessu staðarvali enda er hér um að ræða þungamiðjuna í framkvæmd sem kostar tugi milljarða. Og samkvæmt lögum mat á umhverfisáhrifum skal ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. En þegar leitað er að rökum fyrir þessari einu mögulegu staðsetningu stöðvarinnar finnst ekkert annað í frummatsskýrslu Landsvirkjunar en að stöðvarhúsið þurfi að vera nálægt tengivirkinu við háspennulínuna til Húsavíkur. Gott og vel. En hvers vegna skyldi tengivirkið þá vera staðsett á þessum mjög svo áberandi stað? Í frummatsskýrslu Landsnets um háspennulínuna til Húsavíkur eru rökin fyrir staðsetningunni ekki viskulegri en svo að þar er röksemdunum snúið við. Tengivirkið þarf að vera nálægt stöðvarhúsinu!
Og hvernig skyldu vinnubrögð orkufyrirtækjanna samrýmast þeim markmiðum sem sett eru fram í skipulags- og byggingarlögum? – að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þær skipulagsáætlanir sem litið hafa dagsins ljós síðustu árin bera þess iðulega merki að sveitarstjórnarmenn og önnur skipulagsyfirvöld hafi haft takmarkaðar spurnir af þessu markmiðsákvæði. Í framangreindum frummatsskýrslum orkufyrirtækjanna er því haldið fram að háhitasvæðin verði virkjuð á forsendum sjálfbærrar þróunar. Þannig koma orðin sjálfbær og sjálfbærni t.d. 40 sinnum fyrir í Kröfluskýrslunni, 50 sinnum í Þeistareykjaskýrslunni og 20 sinnum í sameiginlega matinu.
Í framhaldi af allri þessari sjálfbærni koma hér að lokum nokkur dæmi um þá vanvirðingu sem ofangreindum markmiðum skipulags- og byggingarlaga er sýnd í matsskýrslum orkufyrirtækjanna:
- Leggja á nýjan veg frá Húsavík að Þeistareykjum um 20 km leið í ósnortnum hraunum, sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Annað og eldra vegstæði er fyrir í hrauninu. Ekki verður annað séð en það sé a.m.k. jafngott og að ýmsu leyti betra.
- Fyrirhuguð eru 15 borsvæði á Þeistareykjasvæðinu þar sem 5-7 ættu að nægja. Fjarlægð milli borsvæða er allt niður í um 300 m en skáboranir ná 1000-1500 m til hliðar frá borsvæðum! Og sum borsvæðin eru reyndar utan við hið skilgreinda háhitasvæði!
- Nýtt línustæði er fyrirhugað um 44 km leið um ósnortið land algerlega að óþörfu.
- Í skýrslunni um Kröflu II segir m.a.: Eitt af sérkennum jarðhitasvæðisins í Kröflu eru sprengigígar kringum Víti vegna stærðar og fagurlegrar lögunar. Samkvæmt sömu skýrslu stendur til að umkringja Víti endanlega með borholum og gufuleiðslum.
Orkufyrirtækin Landsvirkjun, Þeistareykir ehf. (nú í eigu Landsvirkjunar) og Landsnet eru í eigu íslenska ríkisins. Umhverfisslysið sem vofir yfir er því í boði stjórnvalda.
Ljósmynd að Þeistareykjum, Sigmundur Einarsson.
Birt:
Tilvitnun:
Sigmundur Einarsson „Þeistareykir og Krafla – umhverfisslys í uppsiglingu“, Náttúran.is: 14. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/14/theistareykir-og-krafla-umhverfisslys-i-uppsigling/ [Skoðað:4. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. júlí 2010