GrænlandskortGrein þessi birtist upphaflega í júlí-tölublaði mánaðarritsins Róstur. Upplýsingar um Róstur og hvernig nálgast má blaðið má finna á vefsíðunni www.rostur.org.

Loftslagsbreytingar hafa gert Grænland að næstu auðlindaparadís kapítalismans, en á kostnað hvers?

Mannkynið er í afneitun. Við vitum að ofnotkun okkar, verkun, neysla og losun á eldsneyti, málmum og jarðefnum er að drepa plánetuna og okkur sjálf. Við vitum líka að þessi sykurhúðaða neysla okkar er takmörkum háð. En ósvífin höldum við áfram; meira og meira, hraðar og hraðar – í afneitun reynum við að forðast þá hnattrænu rassskellingu sem yfir vofir.

Lengi vel vonaði ég að hnattrænt neyðarástand loftslagsbreytinga, í bland við óumflýjanlegan raunveruleika þess að hátindi olíuaðgangs hefur verið náð, myndi vekja okkur upp af þessu sjálfselska auðlindahamstri. Og kannski mun það gerast áður en verður um seinan. En í millitíðinni hefur kapítalisma Vesturlanda hlotnast enn ein ástæðan til að fagna. Um leið og ísinn drýpur og brestur af hvítum massa Grænlands, uppgötvast fjársjóðskista jarðefna, málma, járngrýtis og olíu, auk ríkulegs magns af vatnsafli sem aðstoðar okkur við að hita, brjóta og breyta jarðefnunum í hlutina sem okkur „vantar“.

Biðröð eftir bestu bitunum

Öll stærstu nöfnin eru komin í röð eftir aðgöngumiða að þessari enn einu stórveislu jarðarinnar. Statoil, Chevron og Exxon-Mobil vilja olíuna. Treu North Gems eru á höttunum eftir demöntum, gulli og roðasteinum. Alcoa eltist við vatnið sem kemur við bráðnun hins aldagamla íss – fyrir stíflur og vatnsorku til að bræða ál.

Fyrirtækið Greenland Minerals and Energy (sem n.b. er ekki grænlenskt verkefni, heldur ástralskt námufyrirtæki) vilja komast í úran, sink og öll hin töfrum vöfðu „sjaldgæfu jarðefni“ sem eru ómissandi fyrir tæknina sem finna má í fartölvum, i-podum og stafrænum myndavélum. Fyrirtækið lýsir verkefni sínu svo: „Að leysa úr læðingi jarðefnaríkidæmi Grænlands, eitt af heimsins síðustu ónumdu svæðum náttúruauðlinda“. „Leysa úr læðingi“ – eins og verið sé að frelsa eitthvað sem fast er í jörðinni og vill ólmt komast út; eins og jörðin hafi af illindum haldið því frá fyrirtækinu, en nú munum við ekki þjást lengur – þetta ósnerta svæði verður bugað, tamið og látið þjóna þörfum okkar.

En hvað um Grænlendingana? Hvað finnst þeim um að þessi fremur einangraða eyja verði fyrir innrás jakkafata, þyrla og borpalla frá Bandaríkjunum, Ástralíu, Bretlandi og Noregi? Þeim mætir nú ómöguleg ráðgáta. Eftir að hafa lengi vel kennt loftslagsbreytingum, orsökuðum af eldsneytisneyslu, um eyðileggingu landsins síns og arfteknum lifnaðarháttum, hefur þeim nú verið sagt að þeirra eini möguleiki á að verða loksins frjáls undan oki Danaveldis, sé að bora eftir olíu, og stuðla þannig að enn frekari hlýnun jarðar.

Félagslegt frelsi eða umhverfislegt frelsi? Það er blákaldur valkosturinn. Þið fáið ekki bæði – annað hvort vegnar landinu vel eða fólkinu. Maður gegn náttúru. Svo einfalt er það.

Kárahnjúkar: Sagan endurtekur sig á Grænlandi

En þetta val er ekki svo auðvelt fyrir Grænlendinga. Breska fréttablaðið The Times vitnaði í Grænlenska jarðfræðinginn Minik Rosing, þar sem hann ræddi um eitt af fyrirhugðum verkefnunum: „Við vitum að Black Angel [marmaranáma] var mjög skaðsöm umhverfinu til að byrja með. Það eyðilagði fjörðinn. Er það í lagi að eyðileggja þrjá eða fjóra firði til þess að byggja upp landið? Ég hata að hugsa um þetta en við eigum marga firði... Við erum mjög meðvituð um að með því að bora eftir olíu ýtum við undir loftslagsbreytingar. En ættum við ekki að gera það þegar það getur borgað fyrir sjálfstæði okkar?“

Hugur minn leitar nú aftur til umræðunnar um álver Aloca Fjarðaráls og Kárahnjúkavirkjunar. Ég minnist hinna þröngu kosta sem Íslendingum voru gefnir þegar stjórnmálamenn sögðu: „Við verðum að lifa á einhverju. Þetta er eina leiðin til að komast af. Viljið þið fara aftur til torfkofanna?“ og þar fram eftir götunum. Og um stund var Ísland jú baðað dýrð stórframkvæmdanna og loforðunum um mega-monní. Urðu þau loforð að veruleika? Nýlegar afhjúpanir á verðinu sem álframleiðendur borga fyrir orku á Íslandi, benda ekki til þess. Þvert á móti bendir allt til þess að álverin og virkjanirnar hafi átt sinn þátt í efnahagskreppunni með því að tæma svo snarlega sjóði  landsins. Himinhá lán voru tekin fyrir framkvæmdunum en lítið sem ekkert hefur skilað sér til baka.

Fyrir Alcoa er Ísland nú þegar orðinn partur af fortíðinni. Grænlenska álverið verður stærra, „grænna“ og líklega ódýrara en Fjarðarál (umsamið verð hefur ekki verið gert opinbert). Og það á líka að verða eitt stærsta álver í heiminum, með 400.000 tonna ársframleiðslu til að byrja með, sem krefst virkjunar tveggja stórfljóta svo hægt sé að framleiða 650 MW af raforku. Líkindi verkefnanna á Grænlandi og Íslandi, og hvernig Alcoa ýtir þeim áfram, eru vægast sagt sláandi.

Heimsklassa, sjálfbært álver?

Forsætisráðherra Grænlands, Kuupik Kleist, hefur tilkynnt að allt það ál sem framleitt verði á Grænlandi sé hagstætt hnattrænu loftslagi okkar, ef það kemur í stað álframleiðslu annar staðar í heiminum þar sem „endurvinnanlegir orkugjafar“ eru ekki til staðar fyrir framleiðsluna. Alcoa kallar þetta „æðislegt tækifæri“ fyrir sig og Grænland til að byggja „heimsklassa, sjálfbært álver, keyrt áfram af endurvinnanlegri vatnsorku“. Hljómar þetta kunnuglega?

Undirbúningsumhverfismatið sem ráðgjafafyrirtækið Environmental Resource Management hefur gert fyrir verkefnið, sýnir að koltvísýringslosun Grænlands muni aukast um 75% og krefst undantekningar frá Kyotobókuninni, alveg eins og álver Alcoa Fjarðaráls. Álverið mun að sama skapi losa 4,600 tonn af brennisteinsdíoxíði, 110 tonn af flúoríði og 7,1 tonn af PFC-gasi (sem jafngildir 46,000 tonnum af koltvísýringi) á hverju ári. Í umhverfismatinu kemur einnig fram að flúoríðið muni hafa sérstaklega áhrif á landið vegna þess hversu viðkvæmt vistkerfi þess er. Þrátt fyrir loforð um nýjustu og bestu, hreinu og grænu möguleikana í stöðunni, hefur Alcoa ekki gefið til kynna að fyrirtækið ætli sér að punga út fyrir þeirri hreinsunartækni sem í umhverfismatinu er sagt geta minnkað þessi áhrif. Það gerði fyrirtækið svo sannarlega ekki á Reyðarfirði.

Uppistöðulón stíflunnar mun drekkja gríðarstóru og fjölbreyttu landsvæði, sem hefur neikvæð áhrif á Caribou flökkuhópana og bleikjustofnana sem veiðimenn þeirra reiða sig á. Níu bæir og þorp verða fyrir neikvæðum áhrifum. Meðal annars mun drykkjarvatn skorta og þar af leiðandi flutt inn til landsins annar staðar frá með tilheyrandi auknum kostnaði. Og þó spáð sé fyrir um einhverjar umbætur í atvinnumálum mun stór hluti þeirra 600 starfa sem koma til með að bjóðast í fullkláruðu álverinu, verða unninn af erlendu verkafólki. Í umhverfismatinu er sagt að aukinn lögregluafli verði líklega sendur frá Danmörku vegna „hættunnar“ á aukinni glæpastarfsemi.

Menning að veði

Mest sláandi er hugsanleg menningarleg eyðilegging. Samkvæmt umhverfismatinu mun uppistöðulón Taseriaq stíflunnar drekkja stórum hluta nýuppgötvaðra fornleifa frá fortíð Inúíta og jafnvel frá tímum fyrir Inúítamenninguna, sem enn hafa ekki verið rannsakaðar. Í framtíðinni verður því erfitt að komast að fornleifum sem flætt hefur verið yfir. Með öðrum orðum verður hluti þessa ótrúlega menningararfs þurrkaður út, horfinn í gleymsku. Er það menningarlega sjálfstæðið og frelsið sem Grænlendingar þrá? The Times hafði eftir Aqqaluk Lynge, stjórnmálamanni, ljóðskáldi og Inúíta: „Auðvitað viljum við framfarir. Við viljum sjálfstæði. En við viljum ekki tapa sálum okkar á sama tíma.“

Orðræða Alcoa og hins splunkunýja elskhuga þess – grænlensku ríkisstjórnarinnar – básúnar, eins og hún gerði á Íslandi, meinta siðferðislega skyldu Grænlendinga til að hýsa „græn“ álver. Einnig er gefið í skyn að þeir skyldu stoltir fórna stórum hluta náttúru landsins og sjaldgæfri menningu sinni, með hag heimsins í huga, til að gera álframleiðslu aðeins minna mengandi og eyðileggjandi en hún væri annars staðar. Með því að gefa okkur að við „þurfum“ ál er búið að koma í veg fyrir rökræðuna.

Ísland hefur lagt sitt af mörkum og Grænland mun gera það sömuleiðis. Sömu sögu má segja um Noreg og raforkureknu álverin í Kanada. Nýjar stíflur í Brasilíu standa sig í stykkinu og heimsins stærsta báxítnáma, sem stefnt er að í Víetnam, mun leggja sitt af mörkum. Og þökk sé allri þeirri fórn, spáir Alcoa einungis tuttugu prósenta aukningu á útblæstri efna sem skaða andrúmsloftið, fram að árinu 2020, að ónefndri eyðileggingu þúsunda hektara skóglendis, brottflutningi innfæddra, vatnsmengun og heilsuspillingu þeirra sem búa við framkvæmdarsvæðin. Á sama tíma liggja 150 milljón tonn af áli undir yfirborðinu – sem búið er að leika sér með og henda. Hverju skiptir það svosem þegar við höfum öll þau þægindi sem framleiðslan hefur fært okkur? Hvað höfum við með vistkerfi og stöðugt loftslag að gera þegar upp er staðið?

Árið 2009 fór Gunnar Jónsson frá Fjarðabyggð í heimsókn til Grænlands til að sýna heimafólkinu hvernig sveitarstjórnin fyrir austan hafði „undirbúið samfélagið“ fyrir komu álversins á Reyðarfirði. Ég spyr mig hvers konar ráð Íslendingar kæmu til með að gefa nágrönnum sínum. Var ævintýrið þess virði? Kannski er aðeins of snemmt að segja nákvæmlega til um hversu stóran þátt ál-öflin áttu í þeirri pólitísku spillingu, efnahagslega óstöðugleika og umhverfisskaða sem hefur verið að afhjúpast á Íslandi upp á síðkastið. En eflaust væri hægt að benda Grænlendingum á að vera varkárir þegar kemur að loforðum um frelsi og velmegun. Og ef frelsi og góðæri eru kannski ekkert svo eftirsóknarverð þegar upp er staðið, er sál kannski eitthvað sem er þess virði að varðveita. 

Birt:
14. júlí 2010
Höfundur:
Myriam Rose
Uppruni:
Róstur
Tilvitnun:
Myriam Rose „Ákvörðun Grænlands - Landið eða fólkið“, Náttúran.is: 14. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/14/akvordun-graenlands-landid-eda-folkid/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. ágúst 2010

Skilaboð: