Júlí heitir hjá þeim Guðbrandi og Arngrími maðkamánuður, en þetta er nafn á um það bil sex vikna skeiði, sem venjulega er talið heitasti tími sumarsins. Nafnið mun sótt til Forngrikkja, sem settu sumarhitana í samband við hundastjörnuna (Síríus), sem um þetta leyti tók að sjást á morgunhimninum. Seinna kom fram sú alþýðuskýring, að hundaæði og aðrar pestir gripu hvað helst um sig á þessum heitasta tíma ársins.

Meðal hinna ýmsu þjóða hefur talvert verið á reiki, hvenær tímabilið teldist byrja og hversu lengi það stæði. Hér á landi er það nú talið frá 13. júlí til 23. ágúst.

Tvær alþýðuskýringar hafa verið kunnar hérlendis á nafni hundadaganna. Önnur er sú, að hundar bitu helst gras um þetta leyti. Hún er sú, að höfrungar, sem einnig nefnast hundfiskar, yrðu oft svo feitir um hundadagana, að fitan rynni fyrir augu þeirra, svo að þeir villtust fremur á land en endranær og væri þá auðvelt að vinna þá.

Tímabilið er hjá okkur annars einkum tengt nafni Jörundar hundadagakonungs, sem tók sér konungsnafn á Íslandi 25. júní 1809, en var hrakinn frá völdum 27. ágúst sama ár.

Birt:
13. júlí 2013
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Hundadagar byrja í dag“, Náttúran.is: 13. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/hundadagar/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: